21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

37. mál, hagstofa Íslands

Umboðsm. ráðherra, K.. Jónsson:

Þetta frv, hefur átt því láni að fagna, að það hefur fengið einróma fylgi ekki eingöngu hjer í deildinni, heldur einnig utan þings. Jeg veit ekki belur, en að öll blöðin hafi verið sammála um, að það væri gott og þarflegt. — Hjer í deildinni hefur aðeins orðið verulegur ágreiningur um tvö atriði, nefnil. hvort hagstofustjóraembættið eigi að veitast af konungi eða ráðherra, og hvort háskólapróf í stjórnfræði eigi vera skilyrði þess, að geta fengið embættið. Um fyrra atriðið er jeg sömu skoðunar og h. framsm., að það er miklu tryggilegra, að embættið sje konunglegt. Það er ekki víst, að vel hæfir menn verði til þess að sækja um það, ef það er ekki fast embætti með eftirlaunarjetti. Verði brtill. á þgskj. 97 samþykt, þá verður þessi staða engan veginn svo glæsileg, að hún geti talist eftirsóknarverð. – Jeg er einnig sammála h. framsm. um hið síðara atriði. Mjer hefði þótt rjettast, að próf í stjórnfræði hefði beinlínis verið sett sem skilyrði fyrir að geta fengið embættið. En hinsvegar álít jeg það fulltryggilegt, ef það verður samþykt, að embættið skuli venjulega veitast manni með háskólaprófi í stjórnfræði, því að hver stjórn, sem væri, mundi alt af hegða sjer eftir því. Vísindagrein sú, sem hjer er um að ræða, er svo umfangsmikil og vandasöm, að flestum mun veita torvelt að afla sjer verulegrar þekkingar í henni, nema þeir beinlínis hafi lagt stund á hana sem námsgrein við háskóla.

Hjer er brtill. frá h. 5. kgk. þm. (B. Þ.) á þgskj. 109, er jeg vildi mæla með. Jeg tel hana heppilegra en ákvæðið í brtill. á þgskj. 97.

Þetta, sem jeg hef nú sagt, ætti í raunánni að nægja. En vegna þess jeg var ekki við 2. umr., vil jeg nota tækifærið til að segja nokkur orð út úr ummælum, er þá voru höfð um mig, en sem jeg gat þá ekki mótmælt, en sem jeg verð að mótmæla. Það hefur því miður tíðkast á Alþingi í seinni tíð, að þar eru bornar sakir á fjarverandi menn, en jeg bjóst satt að segja, ekki við, að slíkt ætti sjer stað hjer í deildinni.

Eftir því, sem mjer hefur verið sagt, og jeg hef raunar sjeð í blaði einu hjer, þá hefur verið sagt hjer í deildinni af einum þingmanni, að goldið hefði verið 80 kr. fyrir örkina í embættismannatalinu. Þá er jeg heyrði þetta, datt mjer í hug gamall málsháttur, sem við allir þekkjum en sem jeg vil ekki vera að hafa hjer yfir, til þess ekki að særa velsæmi þingsins, því að 40 kr. hafa verið goldnar fyrir örkina af því. Það var enn sagt, að það kæmi út árlega. Ekki er það heldur rjettara hermt. Það hefur komið út þrisvar síðan 1904, og er því auðsætt, hve mikil hæfa er í þessu.

Nú eru rjett 20, ár síðan jeg kom á þing. Þá var það siður að leita til þeirra, er bæði vildu og gátu frætt menn um einhver efni. Það þótti engin minkun að leita sjer slíkra upplýsinga, heldur var það talið sjálfsagt. Það þótti fallegra, að leita sjer vitneskju um málin hjá þeim, sem betur vissu, heldur en hlaupa á hundavaði yfir þau og fara með það, sem menn höfðu heyrt eitthvert fleipur um, en vissu engar sönnur á.

Þessu ranghermi um borgunina, sem gerð er mjer til ófrægingar, vildi jeg mótmæla, og jeg vona, að það verði ekki oftar farið með það í þessari háttv. deild.