21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Björn Þorláksson, framsögumaður:

Jeg vil taka það strax fram, að það, sem jeg kann að segja um þetta frumv., snertir líka næsta frumv. á dagskránni, því í raun og veru er það sama málið, þó að frumv. sjeu ólík.

Á þingskj. 95 er lýst skoðun nefndarinnar, og hversvegna hún leggur til, að hafnað verði frumv. því, sem hjer er til umræðu, eða með öðrum orðum leggur til, að það sje felt.

Jeg leyfi mjer því að vísa þangað, hvað ástæður nefndarinnar snertir, en vil þó, þrátt fyrir það bæta við fáum orðum frá sjálfum mjer. Annars hefur nefndin góðar og gildar ástæður til að fella frumvarpið.

Það er þá fyrst, að geta þess, að hjer er að ræða um há eftirlaun, og að frumvarpið fer fram á, að þau verði hækkuð um helming. (Steingr. Jónsson: Nei). Lögmælt eftirlaun hans eru 2666 kr. 67 au. og í frumv. er lagt til, að þau sjeu hækkuð uppí 4000 kr., eða um 1333 kr. 33 au. og það telst mjer til að sje helmingur launanna. Nefndin telur það ógjörning, að hækka svo lögmælt eftirlaun og hyggur, að það ríði í bága við almennan þjóðarvilja, sem helzt vill, að eftirlaunin sjeu afnumin — sem jeg fyrir mitt leyti segi ekkert um. — En varhugavert er að ganga á móti almenningsviljanum, og illa situr á fulltrúum þjóðarinnar að gera það. Um lögmælt eftirlaun er það að segja, að þeim á ekki að breyta: það má ekki lækka þau,. og það má heldur ekki hækka þau, nema þá alveg sjerstakar ástæður sjeu fyrir henni.. Það á að láta við þau sitja.

En hverjar eru þá þær sjerstöku ástæður, er gætu gert það rjettmætt, að hækka lögmælt eftirlaun.

Jeg get hugsað mjer tvær slíkar ástæðu,. 1. að launin sjeu bersýnilega of lítil handa þeim, er hlut á að máli, eða fjölskyldu hans, og

2. að þar eigi hlut að máli einhver, er þjóð og þing vilji sýna sjerstaka viðurkenningu og sæmd.

Um fyrri ástæðuna er það að segja, að. hún getur ekki komið til mála hjer, því eftir því, er almannarómur segir, þá er maður sá, er hjer á hlut að máli, velefnaður, jafnvel auðugur maður, eftir því, sem hjer tíðkast, og mjer hefur verið bent á eignir, er hann á. Eg hygg því, að þessi almannarómur hafi við rök að styðjast. Yfirhöfuð ætti það, að hækka eftirlaun manna, sem eru undir gömlu launalögunum, ekki að geta komið til mála.

Í sambandi við þetta vil jeg taka það fram, að jeg tel það mjög viðsjárverða braut að fara, að hækka eftirlaun embættismanna fram úr því, sem þau eru lögmælt, og jeg lít svo á, að ef þingið gerði það nú, þá gæfi það mjög slæmt fordæmi; fordæmi, sem jeg tel víst að yrði til þess, að fleiri embættismenn kæmu til þingsins á eftir og færu fram á það, og þá mundi altaf vera hægt, að fá einhverja sæmilega ástæðu til að gera það. Jeg legg mikla áherzlu á það, að þingið fari ekki með slíkum fordæmum að hafa áhrif á seinni tíma.

Fyrri ástæðan getur því ekki komið til mála frumv. þessu til stuðnings.

Þá er síðari ástæðan um sæmdina, og jeg fyrir mitt leyti tel það gilda og góða ástæðu, ef þingið vill sýna sjerstaka viðurkenningu.

Í frumvarpi stjórnarinnar er vikið að því, hve mikla viðurkenning þessi sæmdarmaður eigi skilið, og skal eg fúslega viðurkenna verðleika hans, og að hann á mikla sæmd og þökk skilið af þjóðinni bæði sem rithöfundur og skáld. En þegar þessa er gætt, þá nær þetta frumv. naumast þeim tilgangi.

Stjórnarfrumvarpið er svo orðað, að ef það nær fram að ganga, þá er mjög mikið efamál, hvort í því felst nokkur viðurkenning, heldur má jafnvel skilja það svo, að það miði til hins gagnstæða. Það eru raunar kölluð heiðurslaun í frumvarpinu, en þau eru bundin við það, að hann segi af sjer rektorsembættinu, og má þá skilja það á annan veg, og orðið hef jeg var við það. Hann hefir ekki enn beðið um lausn frá embætti sínu, og engin vissa, að því er jeg hygg, að hann geri það. Hann er að vísu orðinn gamall maður, kominn á níræðisaldur, en hann hefur mikið starfsþrek enn. Við vitum, að það eru til gamlir menn, sem eru starfshæfir, og ungir menn, sem ekki eru starfshæfir. Jeg hef sjeð hann í nokkur síðustu ár, og jeg get ekki sjeð, að honum hafi farið aftur.

Eins og jeg gat um, þá er frumv. svo orðað, að það vekur hjá mönnum þá hugsun, að það sje gert til þess, að hann segi af sjer, og jeg hef orðið var við, að menn hafa talað um það þannig. En nefudin lítur svo á, að þetta orðalag sje ófært, en frekar vil jeg ekki kveða að orði um það, þó jeg geti það, fyr en mótmæli koma fram.

Nefndin lítur svo á, að skáldinu Steingrími Thorsteinsson sje enginn sómi sýndur með, að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ef þetta frumv. verður samþykt, þá virðist það miða til þess, að fá hann til að segja af sjer embætti sem fyrst, en það mál á þingið að láta afskiftalaust, það er ekki mál, er tekur til löggjafarvaldsins eða Alþingis í heild sinni.

Eins og jeg hef nú sýnt, þá leggur nefndin til, af góðum og gildum ástæðum, að frumvarp stjórnarinnar verði felt.

En það er ekki svo að skilja, að jeg ekki finni neitt gott við frumv., og það vil jeg líka taka fram, nú er frumv. kann að ganga til hvíldar.

Ef þetta frv. hefði ekki komið fram, þá er efasamt, að seinna frv. — hið rjetta frumvarp, er jeg kalla — hefði orðið til, og því hefur það orðið til þess, að þeir, er vilja sýna skáldinu Steingrími Thorsteinsson sjerstakan sóma, geta gert það. Þingi og þjóð er skylt að heiðra þjóðskáldið, og því getum við verið landstjórninni þakklátir fyrir frv.

Jeg skal svo ekki tala lengra mál um þetta frv. að sinni, en vil jafnframt stuttlega taka upp aftur, hvers vegna nefndin ræður til, að frumv. sje felt:

1. Hjer er að ræða um gífurlega hækkun lögmætra eftirlauna.

2. Hjer myndast skaðlegt fordæmi.

3. Frumvarpsins er engin þörf, maðurinn er ekki fjárþurfi.

4. Manninum er enginn sannur sómi sýndur með frv. stjórnarinnar. Þar á móti miðar frumv. nefndarinnar, ef samþykt verður, til að sýna honum sæmd.