21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Steingrímur Jónsson:

Jeg vil geta þess, að fyrirsögn þessa frv., sem nú er hjer til 2. umr., kemur ekki vel heim við frv sjálft. Þar stendur; „Frumv. til laga um sjerstök eftirlaun“, en ætti að standa: „Frumv. til laga um heiðurslaun því það stendur beint í greininni, að það eigi að vera heiðurslaun.

Nefndin hefur hugsað og talað svo mikið um eftirlaun vegna þess, að þetta stóð í fyrirsögn frv , og því hefur alt farið á ringulreið, það hefur vilt henni svo sjónir, að hún fer að tala um eftirlaun, sem aldrei hefur verið ætlun að veita, því ætlunin er að veita heiðurslaun. Jeg áskil mjer rjett til þess, að koma fram með breytingartillögu við fyrirsögn frumv. til 3. umr.

Ef þetta frumv. gengur hljóðalaust gegnum þingið, tel jeg það hina mestu sæmd, sem við getum sýnt þessum gamla og góða heiðursmanni. Það væri eins og við segðum við hann; „Þú hefur slitið kröftum þínum í þarfir þjóðarinnar. Þú getur haldið fullum launum, þótt þú látir af embætti þínu, því þú ert mikils góðs maklegur fyrir starfsemi þína í þarfir þjóðarinnar“.

Jeg felli mig því óendanlega miklu betur við frv. stjórnarinnar en við frv. nefndarinnar. Það er ekki rjett, að það sje nokkuð í þessu frv., er knýi hann til þess að segja af sjer, og orðrómur sá, er háttv. framsögum. (B. Þ.) talaði um, hefur því ekki við neitt að styðjast. En jeg hef heyrt, að hann sje að hugsa um að segja af sjer, og mjer finst það vera mjög eðlilegt; hann er orðinn háaldraður maður, er þarf að fá hvíld frá starfi sínu, og mjer þykir undarlegt, að mentamaður, sem er kunnugur ástæðum öllum, skuli halda öðru fram.

Sem sagt, eins og á stendur, get jeg ekki, sjeð að við getum heiðrað skáldið betur en með því, að samþykkja frumv. stjórnarinnar.

Jeg hlýt að taka svo djúpt í árinni, að þetta nýja frv., sem fram hefur komið, er til hneisu fyrir Ed., verði það samþ. Hjer er farið fram á, að veita Stgr. Thorsteinsson, 83 ára gömlum, einar 4000 kr. fyrir alt það stóra og fagra starf, sem hann hefur unnið. Ef svo óheppilega skyldi fara, að stjfrv. yrði felt, mun jeg koma fram með brtill. við þetta nýja frv. um að hækka þessa fjárhæð til muna. En ef stjfrv. verður vísað til 3. umr., áskil jeg mjer rjett til að koma fram með brtill. um að breyta fyrirsögn þess.