21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Björn Þorláksson, framsögumaður:

Háttv. 3. kgkj. var að reyna að bera í bætifláka fyrir frv. og hafði ekkert við það að athuga, nema hvað honum fanst, að ekki hefði átt að nefna í fyrirsögninni eftirlaun, heldur heiðurslaun. Það hefði að vísu mátt orða fyrirsögnina svo, en samt sem áður hefði hjer ekki orðið um nein heiðurslaun að ræða, því að það er ekki hægt, að sýna neinum manni sóma á þann hátt, sem frv. ætlast til. Jeg mintist áðan á það, að það væri engu líkara, en verið væri með þessu frv. að fá Steingrím rektor til þess að segja af sjer. Af því að svo hörðum orðum hefur verið farið um nefndina, og jafnvel sagt, að hneyksli væri fyrir þingið, að samþykkja eins lagað frumv. eins og nefndin hefur komið fram með í stað þessa, þá finn jeg líka ástæðu til að herða á mínum orðum og segja: með þessu frv. lítur út fyrir, að verið sje að kaupa rektor til þess að segja af sjer. Það er því í mínum augum alt annað, en að honum sje sýndur nokkur heiður með þessu frv. Það er engu líkara, en að stjórninni þyki hann ekki standa vel í stóðu sinni og vilji því reyna til að losna við hann á þennan hátt. Svona litur það út fyrir þjóðinni. Og jeg verð að halda því fram, að hjer með geti skapazt hættulegt fordæmi. Það gæti orðið siður, að menn færu að bíða von úr viti með það að segja af sjer embætti í þeirri von, að þeim kynnu á sínum tíma að verða boðin sömu kjör og rektor eru nú boðin, — að þeir yrðu keyftir úr embættinu. Jeg get ekki sjeð, að það væri nein sæmd fyrir þingið, að skapa slíkt fordæmi. — Háttv. 3. kgkj. fann það að uppástunga okkar um 4000 kr. heiðursgjöf, að upphæðin væri of lág. Nefndinni er alls ekki fast í hendi með þessa upphæð, hún mundi sjálfsagt geta verið með því, að hún væri hækkuð, því að í okkar augum er það höfuðatriðið, að einhver heiðursgjöf verði veitt; hitt skiftir minnu, hvort hún er þúsundum krónum hærri eða lægri. Ef háttv. deild sýnist svo, þá er henni í lófa lagið, að hækka upphæðina við 2. umr.

Háttv. 3. kgkj. þm. spurði, hvernig oss þætti það til afspurnar, ef svo færi, að þetta frv. lenti í hrakningi milli deilda og lognaðist út af. Nefndin getur ekki kent sjer um, þótt svo kynni að fara, hún þykist þvert á móti hafa gert sitt til að bjarga málinu við, og er jeg sannfærður um, að þjóðin mun fallast á, að nefndin hafi farið rjett að í þessu máli.

Háttv. 2. þm. N.-M. hjelt því fram, að þjóðin mundi fallast á og telja það vel farið, ef stj.frv. yrði samþykt. Það getur vel verið, að svo sje, en ef þjóðin vissi, hvernig frv. þetta er tilkomið, og hvernig aðdragandi málsins hefur verið, þá mundi annað verða ofan á. Jeg veit að vísu, að það er siður í öðrum löndum, að láta verðleikamenn halda fullum launum, þegar þeir verða að hætta við embætti vegna elli eða vanheilsu. En þá mun ekki slík aðferð höfð vera, sem hjer hefur átt sjer stað. Málið hefði horft alt öðru vísi við, ef rektor hefði verið búinn að segja af sjer, — þá hefði miklu fremur getað komið til mála, að láta hann halda fullum launum. En þar sem við erum fátækir, og fje vantar til óteljandi þarflegra fyrirtækja, þá er full ástæða til þess, að hugsa sig vel um í hvert skifti, sem farið er fram á að hækka há eftirlaun. Og í þessu tilfelli þarf að gera sjer vel ljóst, hvort nokkur þörf sje á fjárveitingunni, og hvort nokkur sæmd fylgi henni, eins og hún er orðuð og eins og hún er komin.