21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Einar Jónsson:

Því er haldið fast fram hjer í deildinni, að verið sje með þessu frv. að knýja rektor til þess að segja af sjer. Allir vita þó, hve háaldraður maður hann er, og að hann þess vegna innan skamms hlýtur að segja af sjer. Jeg get engan veginn sjeð, að hann sje hvattur til þess með frv., hann getur þvert á móti haldið starfi sínu svo lengi sem hann vill, þrátt fyrir frv. Frumv. tryggir honum aðeins heiðarleg laun fyrir langt og merkilegt æfistarf, hvenær sem honum sýnist að láta af embætti. Að frv. geti skapað fordæmi í þá átt, að menn hjer eftir fari að sitja svo lengi í embættum, sem unt er, til þess að verða keyptir úr þeim, — það óttast jeg ekki. Úr því að slíkar umræður hafa getað orðið um þetta frv., þá býst jeg ekki við, að neinn gruni alþingi um að verða of leiðitamt í viðlíka málum eftirleiðis.