21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Klemens Jónsson, umboðsmaður ráðherra:

Það er furðulegt ranghermi þetta, sem hjer hefur verið haldið fram, að verið sje með þessu frumv. að kaupa Steingrím rektor úr embætti. Ef nefndin hefði kært sig um það, hefði hún getað fengið sannar upplýsingar um þetta mál hjá stjórninni. Hjer er svo mál með vexti, að í vetur skrifaði rektor stjórninni, að hann hefði í hyggju að segja af sjer em. bætti, ef hann fengi að halda fullum launum. Jeg hef því miður ekki þetta brjef við hendina í svipinn, en get þó ef til vill lagt það fram fyrir háttv. deild, áður en þessum fundi er lokið. Auðvitað vissi rektor vel, að stjórnin hafði enga heimild til þess að veita slíka uppbót á eftirlaunum, heldur varð að fara þann veg, að bera málið fyrir alþingi. Frv. er því komið fram eftir ósk rektors sjálfs, og get jeg fullvissað háttv. deild um, að annað en þetta hefur ekki farið milli hans og stjórnarinnar í þessu máli. Jeg efast ekki um, að háttv. nefnd trúi orðum mínum, þó að jeg í svipinn ekki hafi brjefið í höndum.

Þá hefur verið talað um, að með þessu frv. gæti skapazt háskalegt fordæmi. Það þarf nú raunar ekki að skapa fordæmi, því að þau eru þegar til. Jeg man að minnsta kosti í svipinn eftir tveimur, sem vel mætti skoðast sem fordærni fyrir þessu frv. Sjera Matthíasi Jochumssyni voru fyrir mörgum árum veitt 2000 kr. skáldlaun, er hann segði af sjer prestsskap. Þegar Þorv. Thoroddsen sagði af sjer embætti og sótti um að fá að halda lögmætum eftirlaunum, sem hann átti ekki tilkall til, þá ekki einungis veitti alþingi það, heldur hækkaði jafnvel eftirlaun hans í viðurkenningarskyni fyrir starfsemi hans. Jeg hygg, að allir sjeu samdóma um, að alþingi hafi farið rjett að gagnvart þessum mönnum, en þá get jeg ekki skilið, hversvegna menn vilja gera Steingrími Thorsteinsson lægra undir höfði en þeim. — Það er annars furðulegt, að þetta frv., sem gekk svo fljótt og svo hljóðalaust gegnum Nd., skuli hafa sætt slíkri mótspyrnu hjer í deildinni. Menn verða þó að játa, að Nd. á jafnan að leggja þyngra lóð í vogaskálina í öllum fjármálum heldur en Fd., og því væri eðlilegt, að Nd. hefði tekið svo á móti viðlíka frumv. frá þessari háttv. deild, sem þessu frv. hefur verið tekið hjer. Sú aðferð, sem hefur verið beitt hjer í deildinni í þessu máli, er óvenjuleg og óeðlileg. Jeg átti tal við Steingrím Thorsteinsson einmitt sama daginn, sem frv. var afgreitt frá- Nd. Jeg óskaði honum þá til hamingju með, hvað frv. hefði reitt vel af, en hann spurði þá, hvort víst væri, að það mundi ekki sæta mótspyrnu í Ed. Jeg fullvissaði hann um, að það gæti ekki komið fyrir, það væri á móti allri venju, og svo hygg jeg, að flestir hafi litið á málið. Jeg vil því vona, að háttv. deild geri ekki þessum háaldraða ágætismanni þá skapraun og vanvirðu, að fella þetta frumv., því að það væri að vanvirða hann, ef deildin vildi ekki unna honum þeirrar sæmdar, sem hann sjálfur kýs sjer til handa. Og sem sagt, brjefið, sem sannar, að þetta sje hans vilji, geta þeir fengið að sjá, hvenær sem þeir vilja.