21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Björn Þorláksson, framsm.:

Háttv. umboðsmaður ráðh. (Kl. J.) virtist vilja vita þau ummæli, að verið væri að kaupa rektor úr embætti. En það voru ekki mín orð, jeg sagði aðeins, að það liti út, sem þetta væri tilgangur stjórnarinnar, og er mjer kunnugt, að margir háttv. þm. hafa talað í líka átt sín á milli, þó að jeg hafi einn haft einurð til að segja það upphátt hjer í deildinni. Jeg get ekki að því gert, þótt meðferð stjórnarinnar á þessu máli hafi verið svo óhöndugleg, að slíkur grunur hafi vaknað. — Háttv. umboðsmaður ráðh. mintist á fordæmi, og er ekki annað um það að segja, en að fordæmi geta verið bæði góð og ill. En þetta álít jeg ilt fordæmi, sem gæti leitt til þess, að farið væri að láta embættismenn, sem segðu af sjer, halda fullum launum, þótt litil eða engin ástæða væri til þess. Háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) undraðist mjög meðferð málsins hjer í deild. Kallaði hana bæði óvenjulega og óeðlilega. Að segja þetta, til þess hefur hann engan rjett. Efri deild á ekki að vera bergmál af neðri deild og er ekki skyld að segja já og amen til alls þess, sem Nd. kann að hafa samþykt og það í hugsunarleysi. Jeg álít, að enginn þingmaður sje skyldur að fara eftir öðru en sannfæringu sinni, í hvaða máli sem er, og þannig vil jeg reyna jafnan að koma fram.

Enn einu sinni vil jeg taka fram, að það sem hjer er aðallega deilt um, er ekki fjármál fyrir mjer eða nefndinni. Hitt látum við okkur mestu skifta, á hvern hátt eigi bezt við að sýna þeim sæmdarmanni, sem hjer er rætt um, viðurkenning. Háttv. umboðsmaður ráðherra talaði um, að hjer ætti að fara að gera skáldinu vanvirðu; þetta eru röng og ástæðulaus ummæli. Miklu heldur mætti segja, að stjórnin með orðalagi sínu á frumv. væri að gera honum vanvirðu. Við höfum viljað koma frv. í það lag, að skáldinu væri sannur sómi sýndur með því.