21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Sigurður Eggerz:

Það voru aðeins örfá orð, sem jeg ætlaði að segja.

Það er gleðilegt að heyra, hve þingmenn unna skáldunum og skilja, hve dýrmæt þau. eru þjóðunum. En því miður hefur það komið í ljós við umræðurnar, að háttv.. þingdeildarmenn, bæði þeir, sem talað hafa með og mót frumvarpinu, hefur skort skilning á skáldaeðlinu, á viðkvæmni skáldanna. Þeir hafa sagt margt, er hlýtur að særa þann heiðursmann, er hjer á hlut að máli. Það er formið á frumvarpinu, er valdið hefur deilum og umræðum um það, og því hefur margt verið talað hjer, sem ekkert. kemur málinu við. Þetta mál er embættismanninum Steingrími Thorsteinsson óviðkomandi, Nefndin hefur ekki viljað, að þetta stæði í sambandi við, hvenær hann ljeti af embætti eða við embættisstörf hans. Enginn má skilja orð mín svo, sem jeg vilji gera lítið úr embættisrekstri þessa. sæmdarmanns, eða að hann hafi staðið svo í stöðu sinni, að hann ætti ekki þessa sæmd skilið. Síðan hann kom að skólanum, hefur einmitt alt verið þar í góðu lagi. og jeg vildi óska, að þar gengi alt eins vel framvegis. En það er samt ekki vegna embættisstarfa hans, að farið er fram á að veita honum þessa sæmd, er hjer er rætt um. Margir embættismenn okkar hafa staðið vel í stöðu sinni, og ættu þá heimting á slíkri sæmd. Það er vegna bókmentastarfa skáldsins, að þetta frv. er fram komið. Heiðurslaunin eiga eingöngu að miðast við þessi stðr£ Það er skáldið, eingöngu. skáldið, sem nefndin vill heiðra. (Jósef Björnsson: Heyr!). Deilan er aðeins um, hvaða form sje hjer bezt viðeigandi. Við getum varla spurt skáldið ráða í þessu efni. Og mjer finst frumv. stjórnarinnar ekki bezta leiðin. Ef heiðurslaunin, sem nefndin hefur stungið upp á, þættu oflág, mætti hækka þau. Að síðustu verð jeg að segja mjer það til mikillar sorgar, að umræður um. málið hafa á báðar hliðar verið sorglega smekklausar, og jeg tek það að síðustu fram, að allir hafa viljað heiðra skáldið Steingrím Thorsteinsson.