22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Sigurður Stefánsson, framsögum.:

Það er ekki rjett hjá háttv. 6, kgk. (G. B.), að jeg segði það við 1. umr. þessa máls, að jeg væri á móti að kaupa strax skip til landhelgisvarna, heldur taldi jeg, að við værum ekki svo miklir menn, að við gætum keypt skipið strax; hagur landssjóðs væri ekki svo góður, og svo verð jeg að játa það, að jeg hef ekki það sjálfstraust, að jeg eða aðrir værum svo miklir menu, að jeg treysti okkur til að undirbúa þetta mál á fáum vikum, svo vel sje. Jeg sje, að það koma hjer fram mörg frumv., sem ern illa undirbúin. Jeg verð að líta svo á, að það sjeu engin tök á því fyrir þingið, að rannsaka þetta mál, svo vel sje, sem maður segir en sje flanað að þessu máli, gæti það orðið til þess, að spilla fyrir framgangi málsins í framtíðinni, Þetta vona jeg að allir háttv. þm. skilji, einkum maður, sem er jafn velviljaður þjóðinni og háttv. 6. kgk. þm. (G. B ). En ef þeir háttv. 6. kgk. (G. B.) og háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) treysta sjer til þess að undbúa málið, svo vel sje, og koma fram með það, þá skal ekki standa á liðsinni mínu, en jeg tek það fram, að jeg vil ekki flana út í það illa undirbúið eða undirbúningslaust.

Hitt tók jeg líka fram við 1. umræðu, í að jeg teldi sjálfsagt, að við skildum ekki svo á þessu þingi, að við ekki skoruðum á stjórnina að undirbúa málið til næsta þings; það tel jeg hinn eina rjetta þinglega veg, til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Jeg er því fús til þess, að vera með háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) um tillögu um það efni, alveg eins og ef hann kemur með gott og vel undirbúið frumvarp nú.

Kann vel að vera, að það sjg rjett, að jeg sje of varfærinn. Jeg hef altaf varfærinn viljað vera. En það hygg jeg, að allir játi, að með frv. þessu sje stigið spor í áttina, spor, er þarf að stiga, samhliða því, sem málið er vel rannsakað, áður en það kemur til framkvæmda.

Það er ekki rjett, að segja, að sjóður þessi sje arðlaus, því þó að hann sje arðlítill fyrir landssjóðinn, meðan hann ekki er notaður, þá á hann að vera arðsamur fyrir bankann, því með honum er veltufje bankans talsvert aukið. Og hann yrði því lánaður út til arðs og hagnaðar fyrir viðskiftamenn bankans og kæmi að því leyti þjóðinni að notum.

Háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) sagði, að maðnr mætti ekki láta tölurnar í landhagsskýrslurnar villa sig, og er það alveg rjett. Maður má heldur ekki, eins og hann sagði, gera oflítið úr landbúnaðinum. En það hygg jeg, að nú orðið sje eins mikið flutt út hlutfallslega af landbúnaðarvörum og sjávarafla, því bændur selja sannarlega ekki alllítið af afurðum sínum út úr landinu. Hitt er annað mál; á það datt mjer ekki í hug að bera brigður, að landbúnaðurinn í raun og veru gefi meiri arð, þeim er hann stunda, tiltölulega, er lítið er á veltufje hans, en sjávarútvegurinn, og ummæli mín má enginn skilja svo, að jeg vilji kasta nokkurri rýrð á landbúnaðinn, siður en svo, því um hann má segja, að með honum standi og falli þjóðerni vort.

Mjer dettur því ekki í hug, að telja eftir Ræktunarsjóðinn eða styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands, jeg tel það meira að segja gott fyrir alþingi, að þurfa ekki að vasast í úthlutun hinna ýmsu smærri styrkveitinga, og jeg ber ekki þar eins gott traust til tillögu háttv. þm. og til tillagna frá þeim mönnum, er geta lagt höfuðið í bleyti alt árið, til þess að íhuga, hvernig fjenu verði bezt varið.

Jeg hef aldrei sagt, að alt hjer á landi væri komið undir framgangi og efling sjávarútvegsins, eins og háttv. 6. kgk. (G. B.) sagði (Guðm. Björnsson: Jeg sagði ekki það, heldur að það væri oft sagt), –þá er mjer nóg, en hitt sagði jeg, að landssjóður hefði nú margfalt meiri tekjur af sjávaraflanum en af landbúnaðinum, og við það stend jeg.

Þar sem háttv. 3 kgk. þm. (Stgr. J.) talaði um að kaupa skipið strax (Stgr. J.) Jeg sagði ekkert um það), þá hef jeg áður svarað því.

Jeg sagði ekki, að allur sjávarútvegur væri að fara í hundana, heldur að bátfiskiveiðum vorum væri háski búinn. En ef bátveiðin fellur, þá er höggvið stórt skarð í velmegun og tekjur þjóðarinnar.

Jeg hef þá ekki meiru að svara að sinni, en vildi óska þess, að við værum ekki að krukka í þessar 5 þúsund krónur, heldur lofuðum háttv. Nd. að hafa fyrir því; hún er líka aðalfjármáladeildin hjer. En jeg tek það jafnframt fram aftur, að komi fram vel undirbúið og gott frumv. um kaup á varðskipi strax, þá ljæ jeg því fylgi mitt, svo framarlega sem fjárhagur landsins leyfir það.