22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

72. mál, landskiptalög

Jón Jónatansson, flutningsmaður:

Jeg þykist vita, að háttv. deild komi ekki á óvart, þó að frumv. um þetta efni sje komið fram, því þó þetta frumv. sje að sumu leyti nýtt, þá er málið ekki nýr gestur hjer á þingi. Er þess skemst að minnast, að á þinginu 1911, er frumvarp um breytingu á ábúðarlögunum var hjer til meðferðar, tók nefnd sú, er skipuð var í það mál hjer í háttv. deild, uppi það frumvarp nokkur ákvæði um skiftingu lands milli sjerbýla. Það mál varð þá ekki útrætt hjer á þingi.

Til þess að tryggja framgang þessa máls hefur mjer og meðflutn.m. mínum þótt rjettara að koma með sjerstakt frumv. um þetta, því óvíst er, hve greiðlega gengur að koma ábúðarlögum fram, enda á þetta betur heima í sjerstökum lögum.

Samnotin á óskiftu landi eru oft erfið og óþægileg að ýmsu leyti, og þarf að setja reglur um skiftin á þessu landi, og þess er nú orðin brýn þörf. Við flutningsmennirnir höfum litið á þessa þörf, og því höfum við komið fram með frumv. þetta.

Um þörfina og ástæðuna fyrir þessu frumv. þarf jeg annars ekki að vera margmáll. Eftir því, sem ræktun landsins eykst, eftir því verður þörfin brýnni fyrir því, að hver einstakur geti búið að sínu í fullu sjálfræði um not landsins, en þar er sameignin og samnotin á óskiftu landi þröskuldur í vegi. Landaskifting þessara sameignarlanda greiðir fyrir því, að hver einstakur eigandi geti girt landið, ræktað það og notað eftir því, sem honum hentar bezt. Með þessu er til þess ætlazt, að hver einstakur geti krafizt skiftanna, og svo þarf að vera; vernda með því rjett lítilmagnans, svo hann geti farið með litla blettinn sinn, eins og honum bezt líkar. Eins og nú er, er rjettur hans fyrir borð borinn. Eins er það, að með því að fá landinu skift, yrði greiðara um úthlutun lands til nýbýla og nýyrkinga. Víða er til ræktunarhæft land, sem til þess væri vel fallið, en er óskift sameignarland fleiri manna, og sumir eigendanna vilja ekki láta neinn blett af hendi, en aðrir eru fúsir til þess. Þegar slíku landi er skift, er hver sjálfráður um sitt, einnig að þessu leyti. Eins og allir viðurkenna; þá er aukin ræktun landsins sjálfsagt skilyrði fyrir framförum þjóðarinnar, en eins er það líka sjálfsagt, að sjálfstæði í þeim efnum, er hjer ræðir um, er nauðsynlegt skilyrði til ræktunarinnar.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til, að fara fleiri orðum um frumv. og efni þess; jeg geri ráð fyrir, að það verði athugað í nefnd. Aðeins skal jeg geta þess, að 3., 4. og 11. gr. frv. eru teknar eftir frumv. ábúðarlaga-nefndarinnar hjer í háttv. deild 1911. Nýmælin í frv. eru helzt um það, hverskonar land geti komið til skifta, og hvernig eigi að framkvæma skiftin. Auk þess eru hjer ýms ákvæði um, hvernig eigi að fara með samnotalandið, á meðan að því er ekki skift.

Málið er svo mikilsvert, að það þarf að athugast í nefnd, og vænti jeg, að háttv. deild sýni því þann sóma, og legg jeg því til, að kosin sje 5 manna nefnd, til þess að íhuga mál þetta og fara með það hjer í deildinni, að þessari fyrstu umræðu lokinni.