10.07.1913
Efri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

46. mál, veiði á Íslandi

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal játa það, að jeg stórgladdist, er jeg sá þetta frumvarp. Jeg segi þetta vegna þess, að jeg er líklega sá hjer í háttv. deild, sem hef mesta reynslu í þessu efni. Því jeg hef nú yfir 30 ár haft æðarvarp undir höndum á sömu eynni og horft daglega á alla hætti æðarfuglsins um varptímann, og jeg verð að telja það eitt hið allra nauðsynlegasta fyrir efling varplandanna, að eggjatökunni sje alveg hætt. Alger friðun er nauðsynleg bæði á fuglum og eggjum.

Það er öllum kunnugt, að áður en æðarfuglinn var friðaður, árið 1847, var sama sem enginn arður af æðarfugli. Æðey við Ísafjörð er ein mesta varpjörð landsins; árið 1805 fengust þar, samkv. Jarðatali Johnsens, 2 pd. af æðardún, og þá var varpið í Vigur 18 pd. og í Borgarey nokkru minna. Þessar eyjar gefa nú af sjer yfir 600 pd. í meðalári. Þeim mun meiri friðun, sem er á æðarfuglinum og æðareggjunum, þeim mun betur dafnar þessi atvinnuvegur.

Síðan jeg kom að Vigur, hef jeg altaf tekið lítið af eggjum, og miklu minna en áður var. Jeg sá að vísu lítinn árangur af því fyrslu árin, en síðan hefur varpið aukizt, þrátt fyrir það þó æðarfuglinn sje miskunarlaust drepinn ár frá ári.

Það er ekki hægt að segja, að með þessu frumv. sje heft atvinnufrelsi manna, því eftir núgildandi lögum er bannað að selja og kaupa æðaregg. En þau eru gefin og enda seld á laun. Það er sorglegt að þurfa að friða með Iögum varpið fyrir varpeigendum sjálfum; en það er ekki sorglegra en að þurfa að friða búpeninginn fyrir bændunum sjálfum, en hvað eru allar bollaleggingarnar um lögvarnir gegn horfellinum á Íslandi annað en friðunartilraunir á búpeningnum gegn slæmri meðferð og horfelli?

Veit jeg það vel, að það eru skiftar skoðanir varpeigenda um það, hvort eggjatakan skaði varplöndin eða ekki. Sumir segja, að eggjatakan spilli ekkert æðarvarpsræktinni, en ekki hafa þeir mikið til síns máls, er svo mæla, því að það er öllum ljóst, að með eggjatökunni eru strax í fæðingunni drepnir jafnmargir fuglar og egg eru tekin. Auk þess fylgir eggjatökunni sá mikli galli, að það er miklu hættara við því, að egg þau, sem skilin verða eftir, deyi en ella. Þegar gengið er um varpið til eggjatökunnar, þá styggist fuglinn, og þegar eggin eru handleikin, þá deyja mörg egg fyrir þá sök, að ógætilega er með þau farið. Jeg býst við því, að margir hafi fundið æðarhreiður út um haga eða á afskektum stöðum, og jeg hef aldrei orðið þess var, að í slíkum hreiðrum væru fúlegg, þetta tel jeg ljósa sönnun fyrir því, að það ríki sama lögmál náttúrunnar um æðarfuglinn sem aðra fugla, að hann ungi út öllum þeim eggjum, er hann á, ef hann fær að hafa sem bezt næðið. En þess næðis getur hann ekki notið, þar sem eggjatakan er, þá þarf að skygna eggin, svo ekki verði tekin unguð egg, og þá er ekki farið jafn varlega með þau og þyrfti. Auk þess getur ónæðið oft orðið til þess, að fuglinn beinlínis yfirgefur hreiðrið, einkum fýrri hluta varptíðarinnar.

Því er haldið fram af sumum, að æðarkollan geti ekki ungað út öllum þeim eggjum, er hún á, en þessari skoðun mótmælir náttúran sjálf. Þau mistök. eiga sjer ekki stað í náttúrunni, þar sem hún er einráð, og eins og jeg tók áðan fram, þá sýna æðarhreiður þau, er finnast á afskektum stöðum bæði í varplöndum og annarsstaðar, þar sem fuglinn hefur verið í algerðum friði, að þessi skoðun er ekki rjett. Þetta er álíka viturlegt, eins og þegar fólk, sem ekkert þekkir til æðarvarpa, er að tala um það, þegar kuldatíð gengur, að nú viðri vel fyrir varpið, af því að fuglinn reiti þá meiri dún af sjer, en þegar hlýtt er, og þó er þetta afsakanlegra en hitt. En sannleikurinn er sá, að æðarfuglinn reitir sig ekkert. Dúnn sá, sem er í hreiðrunum, dettur laus af honum við fæðingu eggjanna án þess veðráttan ráði þar nokkru um. Náttúran býr hjer sem annarsstaðar, þar sem hún er sjálfráð, í haginn fyrir sjálfa sig.

Eggjatakan hefur sjálfsagt minkað mikð síðustu ár, en er samt altof mikil enn, þótt lítið sje tekið af eggjum í hverju einstöku varplandi, þá verður samanlögð tala hinna teknu eggja samt geysi há í öllum varplöndunum. Í einu stærsta varplandi Vestanlands hefur eggjatekjan verið mikið minkuð um mörg undanfarin ár; varla tekið eitt úr hreiðri að meðaltali. Samkvæmt þessu mun ekki ofmikið í lagt, þótt sagt sje, að tekin sjeu hjer á landi 100 þúsnnd æðaregg árlega, en hvað eru margir æðarfuglar drepnir með því í fæðingu? Eru það ekki jafnmargir og eggin, sem tekin eru, eða 100,000 fuglar á ári ? Það er sagt, að sumir varpeigendur hafi reynt að taka ekkert æðaregg, en varpið hafi ekki aukizt við það, en það sannar ekki mikið; þeir hafa máske reynt það í eitt eða tvð ár, og þá er engin von um, að þeir sjái þess árangur með auknu varpi og dúntekju, til þess að svo geti orðið, þá verða þeir að halda því áfram um lengri árabil.

Því er haldið fram af þeim, sem mest drepa æðarfuglinn, að æðarvarpseigendurnir sjeu verstu æðarfuglamorðingjarnir, þar þeir taki svo mikið af eggjunum. Það er í sjálfu sjer ekki svo óeðlilegt, þótt þessu sje kastað fram. En sje hætt að taka egg, þá er þetta vopn slegið úr höndum þeirra manna, sem nota það til varnar lögbrotum sínum. Vitaskuld er það ekki víst, að með öllu tæki fyrir eggjatökuna, þótt hún væri lögbönnuð; en sjálfsagt mundi hún stórum minka, og mönnum verða erfiðara fyrir með hana, væri hún lagabrot.

H. fltm. (5. kgk.) tók það fram, að ákvæði gildandi laga hefðu ekki reynzt nægileg til að sporna á móti ofmikilli eggjatöku og til verndar æðarfuglinum. Þetta mun rjett vera, en þá sýnist líka sjálfsagt, að reyna að ráða bætur á því og breyta lögunum. Ýmsum kunna að finnast ákvæði frv. nokkuð hörð gagnvart varpeigendum; en svo er í raun rjettri ekki, þegar þess er gætt, hvernig sumir þeirra spilla fyrir sjálfum sjer og öðrum með eggjatöku. Í frv. er ekki gengið inn á þá braut, að spilla atvinnuvegi nokkurs manns, því að eftir núgildanði lögum er eggjasala óleyfileg. Jeg vona því, að h. d. verði því samþykk, að frv. þetta verði að lögum.

Jeg veit það vel, að almenningsálitið hefur altaf verið fremur óvinveitt friðunarlögunum, sjálfsagt mest vegna þess, að aðalarðurinn af varplöndunum lendir mest í höndum einstakra manna. En þröngsýni á hinn bóginn svo almenn, sem ekki kemur auga á neitt almenningsgagn, sem ekki veitir beinlínis fje í hennar eigin vasa. Hinu vilja menn gleyma, að varpeigendurnir eru að jafnaði stoð og stytta sveitarfjelaga sinna, því að vel flestir eru þeir í beztu bændaröð og gjalda háa skatta og sveitarsjóð og landssjóð.

Víst er um það, að varpjarðir mundu stórum hækka í verði, ef nýtt jarðamat færi fram. Jeg vil þar taka til dæmis, að milli 1830 og 1840 var hundraðið í Æðey selt á 4 spesíur, en nú er það 2–3000 kr. virði. Á þessu sjest það, hve mikils virði varpjarðirnar eru fyrir þjóðfjelagið, og hversu það eykur þjóðareignina, að hlynt sje að þeim. Þessa ættu þeir að gæta, sem hafa ýmugust á friðunarlögunum; þeir ættu að gæta þess, að með þeim lögum er verið að vernda og efla atvinnuveg, sem er næsta arðsamur ekki einungis einstaklingunum, sem hann stunda, heldur og allri þjóðinni. Ýmsir hugsa sem svo, að þeir sjeu nógu ríkir þessir stóru varpbændur, og að eigi muni miklu, þótt fugli sje dálítið fækkað fyrir þeim. En hjer kemur fram greinilega athugunarleysið og skammsýnin ; þeir hugsa ekkert út í það, að þeir eru að spilla arðsömum atvinnuvegi og rýra þjóðareignina.

H. flutn.m. (5. kgk.) mintist á það, að þðrf væri á, að taka veiðilögin til athugunar og færa saman í eina heild þau ákvæði, sem nú eru á víð og dreif Þessu er jeg sammála. En jafnframt þarf þar að breyta ýmsu og koma samræmi á. 4 viðaukalögunum frá 22. marz 1890, er ákveðin 10–100 kr, sekt fyrir hvern æðarfugl, sem drepinn er af ásettu ráði, auk sektanna, sem ákveðin er í veiðitilskipuninni, en þær sektir eru 48 skildingar fyrir fuglinn.

Svona lagað ákvæði er hálfóviðkunnanlegt að haldist lengur, enda mun sektarákvæðum veiðitilskipunarinnar ekki hafa verið fylgt síðan 1890 að þessu leyti. Ýmislegt fleira í eldri lögunum þarf sjálfsagt breytingar við. Meðal annars mun þörf á að hækka sektirnar fyrir æðarfuglsdráp. Helzt hræðir það menn, ef þær eru settar háar fyrir hvern drepinn fugl. Að öllu athuguðu verð jeg að mæla með því, að frv. þetta verði samþykt með slíkum viðaukum, sem nauðsynlegar kunna að reynast.