22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

64. mál, friðun æðarfugla

Sigurður Stefánsson, framsm.:

Jeg vil fyrir nefndarinnar hönd leyfa mjer að gera grein fyrir frv. og þeim breytingum, sem nefndin hefur gert á því. í 1. grein er farið fram á, að sektir fyrir æðarfuglsdráp sjeu hækkaðar til muna; nú eru þær 10 –100 kr. fyrir hvern drepinn fugl, en samkvæmt frv. eiga þær að vera 50–100 kr., og skal sektin tvöfaldast við hverja ítrekun brotsins. Um þetta ákvæði má auðvitað margt segja. Nefndinni duldist ekki, að menn kynnu að verða tregari til að ljósta upp brotum, ef sektirnar væru svona háar, því að margir mundu af brjóstgæðum vilja hlífa fátækum mönnum við slíkum fjárútlátum. Einnig ber þess að gæta, að sá hugsunarháttur er almennur hjer á landi, að mönnum sje óvirðing að því, að Ijósta upp lagabrotum; en sá hugsunarháttur sprettur af engu öðru en kæruleysi um almennings hag og alment velsæmi, og væri betur, að hann hyrfi sem fyrst. Það er vegna þessa kæruleysis, að mönnum getur haldizt hjer uppi, að drýgja lagabrot ár eftir ár án þess að yfirvöldin fái nokkra tilkynning um það. En nefndin lítur svo á, sem það ákvæði, að uppljóstarmaður eigi að fá 2/3 af sektunum, muni vega nokkuð upp á móti þessu, því að flestir líta þó fyrst og fremst á eigin hagsmuni sína. Nefndinni gekk það ennfremur til að hækka sektirnar, að reynslan hefur sýnt, að lögreglustjórar hafa ríka tilhneigingu til að dæma menn í hina lægstu sekt, einnig þegar um ítrekuð brot er að ræða.

Um 2. gr. er það að segja, að þar er tekið upp það ákvæði úr því frv., sem upphaflega var flutt hjer inn í deildina, að öllum er bannað, að selja eða kaupa eða á nokkurn hátt að láta af hendi æðaregg til annara utan heimilis síns. Þetta ákvæði hefur sætt nokkrum mótmælum. Menn hafa sagt, að varpeigendur muni sjálfir bezt kunna að sjá hag sinn, og að rjettast sje, að leyfa þeim að gera af frjálsum vilja alt það, sem þeir álíti að atvinnuveg sínum sje fyrir beztu. Menn geta þó ekki neitað því, að eggjatakan er stórkostlega skaðleg fyrir varpið, og að ekki er ýkjamikill munur á því, að ræna eggjunum og að drepa fuglinn. Því fleiri egg sem skilin eru eftir í hreiðrunum, því fleiri verða fuglarnir. Jeg hef raunar ekki allsjaldan heyrt þá furðulegu kenning, að varpið vaxi ekkert frekar fyrir það, þótt eggin sjeu tekin. En sú skoðun er alveg gagnstæð öllu náttúrlegu eðli. Það er eins og ef sagt væri, að sauðfjenu fækkaði ekkert við það, að lömbin væru drepin. — Reynslan hefur margfaldlega sýnt og sannað, að margir varpeigendur taka miklu fleiri egg en góðu hófi gegnir. Það er þessi smuga í lögunum, að þeir mega gefa egg, sem þeir hafa notað sjer. Þeir hafa selt egg undir því yfirvarpi, að þeir gæfu þau. Það tjáir ekki, að vjefengja þetta; þeir taka svo mikið af eggjum sumir, að það er óskiljanlegt annað en að þeir selji talsvert af þeim. Greindur og sannorður maður hjer hefur sagt mjer, að árlega komi hingað til bæjarins svo þúsundum skiftir af æðareggjum ofan af Mýrum. Er það nú trúlegt, að Mýramenn sjeu að senda hingað gefins heila bátsfarma af eggjum? Jeg fyrir mitt leyti verð að játa það, að jeg mundi ekki tíma því, að gefa svo dýrmæta eign. Jeg á marga kunningja og mundi mjer þykja vináttan við þá fulldýr, ef jeg ætti að gefa þeim öllum egg, eins og þeir hafa lyst á. Nei, samkvæmt núgildandi lögum er ágjörnum varpeigendum mögulegt að gera sjer stundarhag af eggjasölu, og þessvegna er sjálfsagt að breyta lögunum. Nefndin vonar, að með 2. gr. frv. muni takast að girða fyrir þennan ósið. Hitt er auðvitað ekki bannað, að taka þau egg úr hreiðrunum, sem tilgangslaust er að liggi þar, og jafnvel nauðsynlegt er að taka burtu. Slíkt heyrir til góðrar hirðingar á varpi og stundum geta þessi egg verið vel æt, þótt oftast sjeu þau óborðandi. — Nefndinni þótti rjett að bæta því við þessa grein, að mönnum skyldi þó heimilt að láta af hendi eggskurn til vísindalegra þarfa. Bæði skólar og einstakir vísindamenn leggja mikla stund á að koma sjer upp eggjasöfnum, og er sjálfsagt að styðja það. Nefndin er ekkert hrædd við, að slík heimild yrði nokkurn tíma misbrúkað.

3. gr. er tekin orðrjett upp úr núgildandi lögum, en 4. gr. er um sektir fyrir brot gegn 2. og 3. gr. Þótt eggjataka og fugladráp sje í rauninni hjer um bil hið sama, þá þótti nefndinni samt ráðlegast að hafa eggjatökusektirnar helmingi lægri. En tvöfaldast eiga þær við ítrekun, alveg eins og sektirnar fyrir dráp á æðarfugli.

5. gr. er tekin úr veiðitilskipuninni frá 1849, mað töluverðum breytingum. Í tilskipuninni er bannað, að „skjóta úr fallbyssu nær friðhelgu æðarfugla eggveri, en í hálfrar mílu fjarlægð, og úr annari byssu nær, en fjórðungur mílu sje til eggvers“. þetta bann nær yfir alla tíma árs. Nefndinni þótti þetta fullhart ákvæði og vill aðeins láta bannið ná yfir tímabilið frá 15. apríl til júlímánaðarloka. Nefndin vill rökstyðja þessa breytingu með því, að utan varptíma er fuglinn ekki bundnari við varplöndin en aðra staði, hann dreifist þvert á móti eftir varptímann vegna þess, að í varplöndunum er þá orðið svo lítið um fæðu handa honum. Nefndinni þótti ekki þörf á að takmarka veiðirjett manna frekar en þetta, og þótti því rjett að rýmka ákvæði tilskipunarinnar í þessu efni, svo að menn t. d. gætu óhindraðir skotið seli sem lengstan tíma ársins. Mílum og föðmum hefur í frv, verið breytt í kílometra. Það er satt, að 4 km. eru dálítið meira en 1/2 míla, en sú útfærsla friðunarsvæðisins nemur svo litlu, að nefndin vonast eftir, að engum mótmælum verði hreyft út af því.

6, gr. frv. er tekin úr veiðitilskipuninni með dálítilli breyting. Þar er bannað, að „leggja hrognkelsanet eða önnur veiðinet nær eggveri friðhelgu, en tvö hundruð faðma tólfræð sje þangað á báðar hliðar og á sjó út frá grynnra hálsi netanna að stórstraumsfjörumáli“. Þetta bann gildir um tímabilið frá aprílmánaðarlokum til 1. dags ágústmánaðar. Nefndin vill nú gera þá breyting á þessu, að tíminn sje færðar fram að vorinu, þannig að bannið gildi frá 1. apríl, en hins vegar vill hún ekki láta það ná lengur en til júnímánaðarloka, því að þá má gera ráð fyrir, að varptíminn sje á enda. Vitaskuld liggur þá einstaka kolla enn þá á eggjum, en allur meginhluti fuglsins er þá horfinn frá varplöndunum. Nefndin vill ennfremur giðra þá breyting, að net megi leggja á þessu tímabili, ef leyfi varpeiganda er til, því að netin eru, að hennar hyggja, varpinu ekki nærri eins skaðleg og menn hafa haldið. í Það eru oft ekki fleiri en 2–3 fuglar, sem flækja sig í neti alt vorið. Það hafa oft verið mörg hundruð faðmar hrognkelsa- neta kringum Vigur og hefur aldrei neinn bagi hlotizt af því. Það má auðvitað drepa fuglinn hópum saman í netum, ef egnt er fyrir hann og aðrar veiðibrellur við hafðar, — þá geta netin verið margfalt háskalegri en byssurnar. — Úr veiðitilsk. er það ákvæði tekið, að varpeigandi megi láta taka upp net, sem ólöglega eru Iögð, en skila verður hann þeim aftur, þegar sá, sem lagði, hefur goldið sekt sína og kostnaðinn við upptöku netanna eftir óvilhallra manna mati.

8. gr. frv. er að efni til samhljóða 13. gr. veiðitilskipunarinnar, nema hvað sektarákvæðin hafa verið gerð harðari. Nefndin vildi hafa sektirnar háar, því eins og jeg tók fram áðan, má drepa fuglinn unnvörpum, ef hrognkelsahrognum og öðru því, sem honum þykir lostætast, er egnt í netin.

Þá kemur 9. gr. frv. Hún er að mestu leyti samhljóða 9. gr. veiðitilskipunarinnar 20. júní 1849, og er um það, að sýslumenn skuli friðlýsa öllum æðarvörpum í lögsagnarumdæminu. Þetta ákvæði er nokkru fyllra í tilskipuninni. Ef einhver háttv. þingm. vildi hafa þetta ákvæði öðru vísi, og vildi, að hlutaðeigandi hefði gert meira, en segjast ætla að taka upp æðarvarp, og að hann hefði sýnt einhver merki þess í verki, áður en hann fengi varpi friðlýst, má koma með breyttill. um það.

Þá kemur 10. gr. Í 17, gr. tilskipunarinnar var hafnsögumönnum gert að skyldu, að leiða athygli útlendra skipstjórnarmanna að friðunarákvæðum veiðitilskipunarinnar. Nefndin hefur tekið þetta ákvæði inn í 10 gr. frv., en þótti það ekki nægja, heldur vildi hún gera lögreglustjórum og hreppstjórum hið sama að skyldu. Því nýmæli er bætt hjer inn í, að lögin skuli þýdd á útlendar tungur og vera til útbýtingar hjá lögreglustjórum landsins, á íslenzku, dönsku, þýsku, ensku og frönsku. Það er enginn efi á því, að mörg brot útlendinga á friðunarlöggjöf vorri stafa af vanþekkingu. Jeg veit vel þetta frá Ísafirði. Eitt sinn kom skipstjóri þangað með 20 æðarfugla, sem hann hafði skotið. Aumingja maðurinn hafði ekki neina hugmynd um, að fuglinn var friðaður. Ef lögreglustjóri og hreppstjórar Ijetu sjer umhugað um, að vekja athygli útlendinga á þessum friðunarlógum, mundu brotum gegn þeim fækka meðal löghlýðinna útlendinga. Hitt er aftur vafamál, hvort dráp á æðarfugli mundi fækka meðal útlends trantaralýðs, er hefst við hjer við land. Jeg á hjer við norska hvalveiðamenn, ekki við yfirmenn þar, heldur undirmenn þar. Þá er þeir komu til Vestfjarða, hófst þar byssuöld. Þeir seldu hverjum, sem vildi, byssu fyrir litið verð, fyrir brennivín og þess háttar, og og þá gerðist mikil breyting á í þessu efni frá því, sem áður hafði verið. Áður voru í hæsta lagi 2–3–4 byssur í hreppi, og þær voru í höndunum á ráðnum og rosknum mönnum, er notuðu þær til refaveiða og selveiða, en nú urðu þær 20 –30 og flestar í höndum óráðinna unglinga, sem skutu á alt, sem fyrir varð, og síðan hefur þessi óöld haldizt við á Vestfjörðum, æðarvarpinu til stórtjóns, og stafar hún í fyrstu frá hvalveiðamönnunum.

Ákvæði 11. gr. eru eins og ákvæði um þetta eru í gildandi lögum.

Um 12. og 13. gr. þarf ekki að fjölyrða.

Þá er eitt, sem mjer hefur dottið í hug, en sem jeg hef þó ekki leitt í tal við nefndina, og það er, hvort það ætti ekki að taka það fram í lögum, að það heyrði undir hegningarlögin, er farið er í varp og stolið þar bæði dún og eggjum og drepinn æðarfugl. Jeg fyrir mitt leyti álit slíkt ekkert annað en þjófnað. Það getur vel verið, að varpeigendum sje nú innan handar að hefja sakamálskærur fyrir slík brot, og að sýslumenn gætu farið með slík mál sem sakamál. Jeg skal ekki segja neitt um, hvort ágreiningur er meðal lögfræðinga eða ekki um þetta efni. En mjer finst, að það hljóti að vera rjett og heilbrygð skynsemi, að segja hverjum manni, að það sje glæpur að fara í annara manna lönd og stela þar eggjum og dún. En jeg veit, sem sagt, ekki, hvernig farið er með slík mál. Það fer, ef til vill, eftir, hvernig málin eru uppborin. En mjer finst að lögreglustjórar hljóti að fara með þesskonar mál sem sakamál. En sem ólögfróður maður skal jeg ekki fara meira út í þá sálma.

Jeg skal svo ekki þreyta háttv. deild með lengra máli að þessu sinni. Jeg skal ekki tala um þær brtill., sem fram hafa komið við frv. nefndarinnar, fyr en jeg hef heyrt háttv. flutnm. þeirra færa ástæður fyrir þeim.