22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

64. mál, friðun æðarfugla

Framsögumaður (S. St.):

Það er stundum svo í mannlegum viðskiftum og orðræðum, að sagt er, að ómögulegt sje að eiga tal við suma menn, af því að þeir hafi ekkert vit á því, sem um er að ræða Þetta datt mjer oft í hug undir ræðu hv. 6. kgk. þm. (G. B.) svo greindur og glöggur maður, sem hann annars er. Mjer var mesta raun að ræðu hv. þm. (G. B.), því að meira hrúgald af vanþekkingu og sleggjudómum man jeg ekki til að jeg hafi nokkru sinni heyrt. Það var auðheyrt, að hann var að tala um mál, sem hann hefur ekkert vit á.

Það verður alllangt mál að fara gegnum allar br.till. hv. þm. (G. B.). Upphafið á 1. br.till. hv. þm. (G. B.) sýnir berlega mælgistilhneigingu hans. Fyrst enginn má að ósekju drepa æðarfugl, þá leiðir það af sjálfu sjer, að hann er friðaður, það er óþarfi að vera að taka það sjerstaklega fram. Ekki batnar þó, þegar framhaldið kemur. Eftir að sagt hefur verið, að æðarfugl skuli friðaður á öllum tímum árs, kemur þetta: Þó er heimilt að veiða æðarblika frá 15. júli til 15. september. Fyrir þessari heimskulegu brtill. ber hv. 6. kgk. þm. (G. B,) orð jafn skynsams manns eins og Eyjólfur Guðmundsson var. En hv. þm. (G. B.) rangfærir orð Eyjólfs. Í ritgerð hans um æðarvarp, sem kom út í Andvara — jeg man ekki hvaða ár (G. B., 1877, og það er ekki satt, að jeg ranghermi, jeg hef nýlesið ritgerðina). Í ritgerðinni segist hann geta aðhylzt það, að varpeigendur í mjög þröngum varplöndum hafi leyfi til að drepa æðarblika; en hann vill ekki, að þetta leyfi nái eitt hænufet út fyrir varplöndin. Mjer er kunnugt um, að hans skoðun var, að yfirleitt ætti að friða blikann jafnt sem kolluna. (G. B.: Þetta er ekki rjett, hann segir það geri ekkert, þótt blikinn sje drepinn). Ef svo er, þá er mjer spurn: hvar eiga takmörkin að vera. Tíminn frá 15. júlí til 15. september er einmitt hentugasti tíminn til að drepa blikann, þá er hann saman í þjettum hópum. Með þessu móti mundi hægt að gereyða honum á skömmum tíma. Það er ekki satt, að blikinn sje í varpinu fram til loka varptímans, hann fer í burtu, þegar æðarnar fara að leiða út fyrstu ungana. En það er ekki von, að hv. þm. (G. B) hafi vit á þessu. (G. B.: Eyjólfur Guðmundsson segir það). Það er ekki eftir nema einstaka bliki hjá kollum, sem seint hafa orpið. Það er ekki satt, að blikar sjeu að mun fleiri en kollur. Jeg hef nú um 30 ár talið blikana í varpi mínu, á stærri og minni svæðum, og má heita, að þeir sjeu jafnan nákvæmlega jafnmargir kollunum. Æðarfuglinn lifir í ströngu einkvæni, svo að hver bliki hefur sína kollu og ekki fleiri. Afleiðingin af því, að blikarnir væru drepnir, yrði sú, að svo og svo margar kollur yrðu geldar. Þetta veit jeg, að allir varpeigendur samþykkja með mjer, þó svo 100 6. kgk. þingmenn mótmæltu því. Hefur hv. 6. kgk. (G. B.) talið blika og kollur og komizt að sinni niðurstöðu við reynsluna. Það hef jeg gert. (G. B.: Nú ofbýður mjer). Það gerir mjer líka.

Það er satt, að það getur verið álitamál um sektarákvæðin, og þess gat jeg í fyrri ræðu minni; mun nefndin fús á, að taka það atriði til nánari skoðunar. Það var nálega eina ljóstýran í allri hinni Iöngu ræðu hv. 6. kgk. þm. (G. B.), það sem hann sagði um þetta. En viti menn, það logaði ekki lengi skært á týrunni þeirri. Hv. þm. (G. B.) vill láta færa sektirnar niður í 5 kr. En þessar sektir á alveg eins að gjalda fyrir blikadráp, þrátt fyrir það, þótt hv. þm. (G. B.) beri samtímis upp tillögu um, að drepa megi blika í lagaleyfi.

Hv. þm. (G. B.). fór í gær mörgum orðum um það, að ekki væri mikill vandi, að semja Iög, og lá nefndinni í málinu um landhelgissjóðinn á hálsi fyrir það, að hún hefði ekki aflað sjer allra upplýsinga um það mál, svo að hún gæti komið fram með frv. um það. Ætli að það sje nú til ofmikils mælzt við hv. þm. (G. B.), eftir að honum hefur verið bent á þetta stóra gat í lagasmíð hans sjálfs, já ætli það sje til ofmikils mælzt við hann, þótt hann sje í mesta bróðerni beðinn að kannast við það, að það er ekki auðhlaupið að því, að semja vönduð lög á litlum tíma — hitt er enginn vandi, að rubba einhverri vitleysunni á pappírinn, eins og þessar brtill. hans eru. Svo kemur nú þessi makalausa leiguliðagrein. Landsdrottinn má gefa og selja æðaregg eins og honum þóknast, en leiguliðinn, hann má ekkert egg gefa, ekki einusinni heimilisfólki sínu, þótt hallæri og hungur sverfi að, nema með náðarsamlegu leyfi landsdrottins. Þetta eru ekki brjóstgæðin úr Vigur, sem hv. 6. kgk. var að tala um í gær. Í þessu ákvæði kemur áþreifanlega fram drotnunarfýsnin og yfirgangssýkin yfir þeim, sem minna eiga undir sjer. Landdrottinn má lifa í vellystingum praktuglega; hann nú taka egg eins og honum þóknast, gæða sjer og sínum á þeim og selja þau, En leiguliðinn hans! Hann má ekki taka eitt einasta egg handa hungraðri konu og börnum, nema hann fái leyfi til þess hjá landsdrotni sínum. Þetta stendur á prenti eftir hv. 6. kgk. þm. (G. B.), brjógtgæðamanninn mikla.

Þá kemur 3. gr. frv. Hún á svo sem auðvitað að falla burtu, því að það er sjálfsagt sú grein, sem langmest gagn hefur gert í friðunarlögunum fra 1890. Áður stunduðu menn beinlínis æðarfuglaveiðar í net. Þá gengu menn um með heilar kippur af æðarfuglum og seldu. Kváðu þeir fuglinn hafa komið í net sín, og munu þeir hafa sagt það satt. En hvernig stóð á því? Jú. mennirnir höfðu beinlínis egnt fyrir fuglinn með því að bera niður fyrir hann lifur og hrogn. Það þykir honum svo mikið sælgæti, að hann gengur út í opinn dauðann til að ná því, þótt hann annars sje fremur varkár við net. Á meðan svo stóð, var fuglinn drepinn þúsundum saman, án þess lög næðu til. Ástandið, eins og það var fyrir 1890, er auðvitað fyrirmyndarástand í augum háttv. 6. kgk. (G. B.), sem vill sem allra minsta friðun. 3. gr. frv. er stýluð gegn gegndarlausri æðarfuglsveiði í net, og að hún muni nokkurnveginn ná tilgangi sínum, sjest á því, að þessi veiði hefur því nær lagzt niður síðan 1890, að bannað var að hirða dauða æðarfugla. Háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) talaði mikið um hallæri og aumingja, og hvílík björg gæti verið að dauðum æðarfugli í harðindum og hallærum.

Mjer er spurn. Eigum við að miða alla atvinnulöggjöf okkar við harðindi og stór ísaár, miða hana við undantekningarnar? Auk þess hygg jeg, að æðarfuglaræflar hafi aldrei bjargað Íslendingum frá hor og hungri. Ekki minnist jeg, að jeg hafi sjeð þess getið í annálum; en háttv. 6. kgk. (G. B.) getur máske frætt mig um það; hann mun hafa rannsakað það líkt og svo margt annað. Krummi og slíkir gentilfuglar munu oftast verða fljótari til að hirða æðarfuglsræflana en mennirnir. Það skyldi þá vera, að mennirnir ættu að hirða leifar krumma. En því trúi jeg ekki, að þær bjargi lífi margra. Að vera að koma með þessa brtill., það er fjarstæða. Mjer er sárast um þessa grein af öllu. Sektarákvæðin eða upphæð sektanna legg jeg minni áherzlu á, en þessi grein má áreiðanlega ekki missast úr frumv., svo gagnlegt hefur ákvæði hennar sýnt sig. Háttv. 6. kgk. (G. B.) stendur upp með mesta guðræknis- og góðmenskusvip og segist ekki vilja spilla þessum atvinnnveg. Af ávöxtunum skuluð þjer þekkja þá, en ekki orðum og svip. Heldur háttv. þm. (G. B.), að æðaregg muni verða aumingjum til bjargar í hörðum hafísárum? Jeg get frætt háttv. þm. (G. B.) um, að þá eru ekki til egg að hirða, því að fuglinn verpir alls ekki. Eða heldur hann máske, að fuglinn verpi í snjóskafla og á hafísjökum. Við eigum máske eftir að heyra hann halda því fram; það væri rjett eftir annari þekkingu hans á þessu máli.

Þá fór háttv. þm. (G. B.) að minnast á byssur, og mæla fyrir brtill. sinni um fallbyssur og smábyssur. Jeg get fullvissað háttv. þm. (G. B.) um, að nefndinni var kunnugt um, að til eru fallbyssur, byssur, barnabyssur, skammbyssur og vindbyssur, en henni þótti þarflaust, að setja þá greining inn í lögin, því að vitanlega nær orðið skot yfir hverskonar byssuskot. Hvað því viðvíkur, að skotbannið sje of yfirgripsmikið, þar sem það nái einnig til herskipa í konungsþjónustu, þá yfirlætur nefndin þeim, sem hafa vit á þeim hlutum, að gera út um það. Það var ekki meining hennar, að ganga út fyrir það, sem önnur lög og venjur heimila: og jeg skal fúslega játa það, að jeg hef ekki vit á öllum sköpuðum hlutum milli himins og jarðar, eins og háttv. 6. kgk. (G. B.) gefur í skyn að hann hafi.

Það getur verið, að einhver átylla sjé fyrir því, að segja, að fuglaveiðarjettur einhvers kunni að vera fyrir borð borinn með ákvæðum 5. gr. En ekki geta þó orðið mikil brögð að því, því að um varptímann eru allir fuglar friðaðir. nema hrafnar, ernir, valir, smirlar, kjóar, veiðibjöllur (svartbakar), uglur, himbrimar, teistur og skúmar. Það gæti hugsazt, að einhver góðviljaður náungi, og viðlíka vinveittur æðarvarpi eins og háttv. 6. kgk. (G. B.), fyndi upp á því, að segja, að hann ætlaði nú að taka upp þann atvinnuveg að skjóta hrafna, kjóa og skúma, og heimtaði vernd yfirvaldsins og skaðabætur hjá varpeiganda. Því er nú svo háttað, að fæstir af þessum fuglum, sem ófriðheldir eru, nálgast æðarvarp eða gera því tjón að mun; það er varla nema veiðibjallan, sem þar kemur til greina. Það er ekki svo arðsöm veiði, sem hjer er um að ræða, að nokkur meining sje, að æðarvarpið eigi að lúta í lægra haldi fyrir því, að einstökum mönnum kann að hepnast að slysa fáeinar veiðibjöllur, og störspilla með því atvinnu annara. Það getur verið, að eitthvað sje til í því, sem háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) segir um netalagnirnar; mun nefndin taka það að nýju til skoðunar. Þó ætla jeg, að það ákvæði geti ekki valdið miklum rnisrjetti um veiðirjeti manna. 250 faðmar eru ekki langur spölur og mun óvíða koma að tjóni, þótt svo mjó ræma út frá varplöndum sje friðuð fyrir netalögnum, Þó er jeg ekki svo kunnugur staðháttum allstaðar hjer, að jeg þori að fullyrða, að það kunni ekki einhversstaðar að vera, t. d. milli eyja á Breiðafirði. Þar sem jeg þekki til, gerir ákvæðið ekki skaða. Þessi brtill. er, sem sagt, ofurlitið í ætt við brtill. háttv. þm. (G. B.) um sektarákvæðið, og þannig löguð, að hún er skoðunarverð; Þó er þess að gæta, að ef menn vildu nota netalagningarjett sinn meinbægnislega, gætu þeir gert varpeigendum hin mestu óþægindi og kostnað; þeir gætu heimtað bætur fyrir veiðibann og mat á tjóni því, sem af því hefði stafað, og gert úr því mestu rekistefnu. Fyrir sjálfa netaeigendurna gæti þetta meira að segja haft meiri kostnað í för með sjer, en næmi hagnaðinum af veiðinni.

Mjer er sönn raun að því, hve óhönduglega háttv. 6. kgk. (G. B.) hefur tekizt með brtill. sínar. Það er að sönnu varla við öðru að búast; hann sem heldur, eins , og kom í ljós í gær, að hann sje fær um að tala um öll mál milli himins og jarðar og hafi vit á öllu.

Jeg játa það, að jeg vil vera varfærinn og hef fremur vantraust á sjálfum mjer. Þetta getur verið ókostur, en þann kost hefur það þó, að jeg losast við marga flanferðina þeirra, sem oftraustið hafa á sjer.