22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

64. mál, friðun æðarfugla

Guðmundur Björnsson:

Jeg skal vera fljótur, því að honum er fljótsvarað, háttv. þingm. Ísf. (Sig. St.). Það var raunar nóg af stórum orðum í ræðu hans, til skemtunar fyrir fólkið, en miklu minna af efni, og enn þá minst af sannleik og fróðleik. Og ekki mundi mig furða, þótt að hinn háttv. þm. kinokaði sjer við að láta hafa alt eftir sjer í þingtíðindunum, það sem hann var að segja. (Sig. Stefánsson: Hún skal standa þar, ef skrifararnir hafa náð henni). Því trúi jeg illa, því þó ræða hans hefði getað sómað sjer á hreppskilaþingi, þá átti hún illa við í þingsal. En mín ræða skal fá að standa þar óbreytt, eins og jeg talaði hana; það má hann vita. Það er ósköp alment úrræði að segja: „Þú hefur ekkert vit á þessu“. En það er ekki æfinlega nóg máli sínu til stuðnings.

Það væri reyndar fyrirgefanlegt, þó að jeg hefði ekki vit á þessu máli, en það er síður fyrirgefanlegt af bóndanum í Vigur, að hafa ekki vit á því, honum, sem hefur verið varpeigandi í 30 ár.

Ósköp var það broslegt, þegar þessi varpeigandi ætlaði að telja mönnum trú um það, að hann hefði talið æðarkollurnar og blikana í Vigur. (Sig. Stefánsson: Það er satt! Get komið með vitni!) Þau eru líklega ísfirzk, vitnin þau !

Þessi háttv. þingm. (Sig. St.) talaði líka um það, að blikarnir og kollurnar væru altaf jafnmargar, og bigði það á blikatalinu í Vigur; hann virðist ekki hafa tekið eftir því, sem allir aðrir vita vel, að þegar fuglinn sezt upp, þá er mikið eftir af blikum úti á sjónum; og oft verða líka miklar óeyrðir í varpinu, fyrst á varptímanum, af átroðningi blikanna.

Því miður virðist það vera svo, að þeir sem þessa atvinnu reka, hafa sumir ekki snefil af viti, á henni.

Jeg gleymdi að setja í 2. breytingartillögu mína, að sektirnar væru aðeins fyrir að drepa „friðaðan“ æðarfugl. Jeg skal játa. að þetta var yfirsjón, en það er hægt, að leiðrjetta það til 3. umræðu, ef breytingartillagan verður samþykt.

Mikið hefur verið skrafað um eggin, en þótt ýmsir hjer haldi fram, að ekki beri að taka æðaregg, þá eru þó aðrir, og það fróðir varpeigendur, sem halda því fram, að taka megi 2 egg úr hreiðri án skaða fyrir varpið.

Sje ráðgert, að 1 pd. af æðardún fáist úr 30 hreiðrum, og eggið virt á 10 aura, þá er, samkvæmt landhagsskýrslunum, lagður hjer 60,000 kr. skattur á varpeigendur, þar sem þeim er bannað að selja eggin. Og hvað kemur svo þar í móti? — Alls ekki neitt, enginn ávinningur, engin aukning á dúntekjunni, beint tjón.

Þetta er alvarlegt íhugunarefni.

Af því þetta skiftir miklu máli, þá vjek háttv. þm. Ísf. (S. St.) vitanlega ekki að því.

Háttv. þm. Ísf. (S. St.) ljet mikið yfir því, að eftir breytingartillögu minni mættu leiguliðarnir ekki gefa konu sinni, börnum og vinnufólki æðaregg, en þetta er vitanlega leiðinlegur útúrsnúningur hjá honum, og er mjög leiðinlegt, þegar gamlir og heiðvirðir þingmenn verða að nota slík neyðarúrræði, og þeim mun leiðara hjer, þar sem þessi sami háttv. þingm. (S. St.) varði af kappi frumv. það um breyting á lögum þessum, er var borið hjer upp í háttv. deild, en nú er tekið aftur, en þar var alveg samskonar orðalag um eggjagjafirnar og á breytingartilltögunni. Svona er samkvæmnin! En allir geta sjeð, að hjer er ekki ætlazt til þess, að leiguliðinn ekki megi taka egg til heimilisþarfa, heldur að koma í veg fyrir, að hann eyðileggi varpið með ofmikilli eggjatöku og eggjagjöfum.

Háttv. þingm. Ísaf. (S. St.) gat ennfremur um það, að það hefði tíðkazt hjer suður í Garði að drepa æðarfugl með netalagningum. Jú, þetta er rjett og því er nú hætt.

En hver er munurinn. Nú drepa þeir æðarfuglinn þar með byssum og drepa miklu meira, en þeir gerðu áður. Og það finnur enginn að því.

Það er satt, að það er lítill matur í dauðum æðarfugl, en í harðindum verða menn oft fegnir að notast við litla og slæma björg. Jeg hef átt tal við góðan og áreiðanlegan mann, sem allir hjer þekkja, þó jeg ekki vilji nefna hann á nafn. Hann lifði síðustu harðindin á norðurlandi, Hann hefur sagt mjer, að þá hafi fólkið í sumum útkjálkasveitum grafið upp í fjörunni, sjer til bjargar, leifar af krabbadýrum; það voru leifar, því að tóan var jafnan komin á undan og hafði nagað það, sem hún náði.

Jeg býst við, að það sem hrafninn skilur eftir, sje eins listugt og leifar refsins. Ekki vil jeg deila við háttv. þingm. Ísf. (S. St.) um guðrækni og brjóstgæði; jeg efast ekki um, að hann, sem er prestur, taki mjer þar eðlilega fram, en víst er um það, að honum eru mislagðar hendur samkvæmt framkomu sinni í gær. Og ekki býst jeg við því, að þessi berserksgangur verði honum til ánægju, þegar frá liður.

Það er sannarlega ekki ánægjulegt, að heyra gamlan og góðan þingmann fara með sundurlaust barnahjal um það, að enginn viti, hvað smábyssa er, hvort það sje riffill, haglabyssa eða stólpípa o. s. frv. En jeg vil benda honum á, að ef hann vill fara að hártoga orð manna, þá má ekki síður hártoga hans orð, þar sem hann er að tala um „skot“, því það eru margskonar „skot“ til. Jeg ætla samt ekki að fara að skemta fólki með því að skjóta á hann öllum þeim „skotum“, sem upphugsazt geta.

Þingm. Ísf. (S. St.) má sjálfur, næst þegar hann stendur upp skemta fólkinu með öllum skotunum sínum.