22.07.1913
Efri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

41. mál, samgöngumál

Sigurður Eggerz, flutningsmaður:

Það þarf ekki langt mál til að rökstyðja þessa tillögu.

Eins og kunnugt er, var samgöngumálum á sjó ráðið til lykta á síðasta alþingi, án þess efri deild ætti neina hlutdeild í því. Lít svo á, að svo mikilvægt mál eigi að takast til íhugunar í báðum deildum. Þjóðin öll lætur sig mál þetta miklu skifta, ef til vill meir en nokkurt annað mál.

Augu þjóðarinnar vaka yfir gerðum þingsins í því og miklum óhug mundi slá á alla, ef afturkippur kæmi í samgöngur þessar. Því meiri ástæða er til, að taka mál þetta til alvarlegrar athugunar nú þegar, sem verið er að marka nýtt spor í samgöngumálum vorum með stofnun innlends fjelags, Eimskipafjelags Íslands, sem ætti senn að taka samgöngurnar í hendur sjer. Ekkert mál hefur átt jafnmiklum vinsældum að fagna og þetta, og vænti jeg því, að alþingi taki í þann streng í máli þessu, að fjelag þetta gæti magnazt svo, að samgöngum vorum yrði borgið í höndum þess.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala frekara um mál þetta að sinni, læt þess aðeins getið, að háttvirt neðri deild hefur skipað nefnd til að íhuga mál þetta og væri æskilegt, að samvinna gæti tekizt um málið milli deildanna.