24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Nefndin hefir leyft sjer að gera töluverðar breytingar við þetta frv., eins og það var samþykt við 2. umr. Þessar breytingartillögur eru þó meira að tölunni til en efninu, og stafa af því, að nefndin hefur viljað taka til greina sem flestar þeirra bendinga og athugasemda við frv., sem fram komu við 2. umr., eftir því, sem hún sá sjer fært.

Jeg skal svo snúa mjer að þessum brtill. 1. brtill. er við 1. gr., síðustu málsgrein hennar, og fer fram á, að orðin „frá stjórnarráðinu“ falli burtu, með því að þau eru óþörf og þýðingarlaus. Þar sem orðið nafnfesti nær til allra leyfisbrjefa bæði þeirra, sem gefin eru út af stjórnarráði, og líka til konunglegra leyfisbrjefa. Þá er 2. brtill. nefndarinnar við 3. gr. um, að í stað orðsins „skal“ í 1. málsgr. komi „má“. Nefndin leit svo á, eftir því, sem kvenfrelsismálinu nú er komið, að það væri ekki rjett, að skylda konur til þess, er þær giftast, að taka upp ættarnafn manns síns, ef til væri, heldur veita þeim að eins heimild til þess. Þær geta þá sjálfar valið um, hvort þær vilja heldur halda alnafni sínu eða taka upp ættarnafn manns síns, ef til er.

Þá kemur b. liður þessarar brtill., að í stað orðanna „sinnar ættar“ komi „sínu“. Um þetta hef jeg ekki annað að segja fyrir hönd nefndarinnar en það, að þetta er nauðsynleg breyting, ef konan hefur verið tvígift. Þá á hún að mega taka upp ættarnafn sitt, en ekki ættarnafn fyrra manns síns.

C.-liður þessarar brtill. fer fram á, að í stað orðanna „mega ná“ komi: „getur stjórnarráðið, ef sjerstök ástæða er til, leyft að nái“ og snertir það ákvæði, er nokkur deila varð um við 2. umr., sem sje, hvort nafnskifti konu, sem skilur við mann sinn, ætti að mega ná til barna hennar eða ekki. Nefndinni þótti eðlilegast, að þetta nafnskifti mætti með sjerstöku leyfi stjórnarráðsins ná til barna hennar.

Þá er 3. brtill. við 4. gr. Hún er í 3. liðum; a-liðurinn fer fram á að fella burt orðin „heimilt og“. Í greininni er sagt: „öllum er heimilt og skylt að nota löglegt ættarnafn föður síns“. Að slíkt sje heimilt liggur í orðinu „skylt“. Það er því með öllu óþarft.

B.-liður fer fram á, að fyrir „jafnt“ komi „einnig“, og í staðinn fyrir „sem skilgetinna“ komi: „ef faðerninu er játað“. Það er samkvæmt bendingum, sem fram hafa komið um þetta efni, að nefndin leggur þetta til.

4. brtill. er við 6. gr., og er líka í þrem liðum. Jeg skal fyrst leyfa mjer að benda á, að í a-lið hennar er prentvills. Þar stendur, að orðin í 1. málsgr. „og þar búsettur“ eigi að falla burtu. Það á að standa: „og þar er búsettur“; „er“ vantar. Þessi brttill. stendur í sambandi við næstu brtill., að á eftir „eða ættarnafn“ bætist inn í: „hjer á landi“.

C. liðurinn fer fram á, að aftan við síðustu málsgrein bætist: „eftir 18 ára aldur“. Það er með öðrum orðum farið fram á, að enginn geti breytt nafni sínu oftar en einu sinni eftir 18 ára aldur.

Þá er brtill. við 8. gr., að á eftir tölul. komi nýr liður, er svo hljóðar:

„Skrá yfir góð, íslenzk, forn og ný fornöfn karla og kvenna, er sjerstaklega sýni, hvernig eigi að mynda konunafn af karlmannsnafni og karlmannsnafn af konu nafni. Liðatalan breytist svo eftir því. Þetta getur verið mönnum til mikillar leiðbeiningar.

Þá er 6. brtill. við 11. gr.

Fyrstu tveir liðirnir eru að eins orðabreytingar. 3. liðrinn fer fram á, að orðin: „og skylt“ í síðari málsgrein falli burtu, að prestum sje með öðrum orðum veitt heimild til, en ekki gert að skyldu, að neita að skíra börn nöfnum, er telja verður hneykslanleg. Það er og farið fram á, að bæta aftan við greinina orðunum: „eða rangmynduð“. Því er bætt inn hjer samkvæmt bendingu. Jeg skal bæta því við, að það mun næsta erfitt að segja, hvaða orð sjeu rángmynduð. Það er því og tvísýnt, hvort mikið er varið í þessa viðbót.

7 brtill. fer fram á, að eftir 12. gr. komi ný grein, er verði 13. gr. Hún hljóðar svo:

„Fullveðja mönnum, sem nú eru uppi, er frjálst að rita fornafn sitt eða fornöfn á þann hátt, sem þeir hafa tíðkað.

Útlendingum, sem hingað koma, er frjálst að rita löglegt heiti sitt á vana hátt“

Við fyrri málsgrein þessarar brttill. er fram komin brtill. á þgskj. 155 að í staðinn fyrir „fornafn“, komi „nafn“. Nefndin hefur ekkert að athuga við þá brtill.

Eins og háttv. deildarmenn hafa heyrt, þá er síðari málsgrein þessarar nýju greinar um það, að útlendingum sje leyft að rita nafn sitt á venjulegan hátt.

Afleiðingin af þessari brtill. er næsta brtill., að 13. gr. verður 14. gr. og 14. gr. 15. gr.

Þá er hjer komin brtill. frá tveim háttv. þingmönnum á þgskj. 160. En jeg skal ekki minnast á hana, fyr en jeg hef heyrt færðar ástæður fyrir henni.