24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Jón Jónatansson:

Jeg er annar flutningsmaður brtill. á þgskj. 160, og þess gerist engin þörf að flytja langa ræðu fyrir henni. Jeg vona, að öllum háttv. þingdeildarmönnum sje augljóst, hvað hjer er um að ræða. Þessi litla brtill. okkar háttv. þm. Barðstr. vill koma í veg fyrir þá ósvinnu, sem mjer og mörgum öðrum þykir hin mesta misþyrming á íslenzku máli, að alíslenzkir menn skuli rita föðurnafn sitt á undan fornafninu. Þetta er allmjög tekið að tíðkast í seinni tíð, og skrár hafa verið gefnar út, t. d. talsímanotendaskráin, sem þannig hefur verið ritaðar. Þetta er og mjög óþægilegt. Til þess að geta notað slíkar skrár, verða menn fyrst að læra að gleyma íslenzkri málsvenju. Við flutningsmenn brtill. viljum eyða þessum andhælishætti. Og úr því að hjer eru á döfinni lög um þessi efni, vildum við nota tækifærið til að skjóta inn í frv. ákvæði, er komi í veg fyrir þennan ósið og ósóma.