24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

36. mál, nafnabreytingar og ný nöfn á býlum

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Við þetta frv. hefur nefndin leyft sjer að gera nokkrar brtill., og eru þær á þgskj. 146 og 149. Á þgskj. 146 eru 2 brtill. Hin fyrri þeirra er við 5. gr. frv. og er í tveim liðum. Fyrri liðurinn er um, að í staðinn fyrir leyfisbrjef skuli koma nafnfesti; er það í raun rjettri ekki nema orðabreyting og er í samræmi við það, sem samþykt var í frv. næst á undan. Liðinn b á þgskj. 146 tekur nefndin aftur, en í hans stað ætlast hún til að komi þeir tveir liðir, sem eru á þgskj. 149. Fyrri liðurinn fer fram á það, að sje býlisnafnið 10 árum eldra en lög þessi, þá skuli ekkert gjald greiða fyrir nafnfestina nema skrásetningargjaldið til sýslumanns og þinglestrargjaldið. Síðari liðurinn fer fram á, að sama gjaldákvæði nái til þess, þegar tekið er upp að nýju gamalt og úrelt heiti á býli; vona jeg að h. d. sýnist breytingar þessar sanngjarnar og rjettmætar. Loks leggur nefndin það til, að fyrirsögn frv. sje breytt, og það nefnt: Frumvarp til laga 4m bæjanöfn. Þessi fyrirsögn virðist vera fullskýr, en er styttri og viðkunnanlegri en hin fyrirsögnin. Það hefur slæðzt einkennileg prentvilla inn í brtill. á þgskj. 146. Hjer stendur bæjarnöfn í staðinn fyrir bæjanöfn, og þarf að sjálfsögðu að leiðrjetta það. H. 2. þm. Árn. (J. J.) hefur komið með brtill. við 6. gr. frv. Mun hann sjálfur gera grein fyrir henni; aðeins skal jeg geta þess, að nefndin í heild sinni hefur ekki tekið sjerstaka afstöðu til brtill., en þó hygg jeg, að hún muni henni ekki mótfallin.