25.07.1913
Efri deild: 16. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

78. mál, veiðiskattur

Júlíus Havsteen:

Það er ætíð svo, að fyrst er maður les nýtt frumvarp, þá verður manni litið á fyrirsögnina, og fyrirsögn þessa frumv. er: frumvarp til laga um veiðiskatt, en þó eru ekki, er nánar er gætt að, nema tvær greinarnar um þennan skatt.

Hjer er um nýjan skatt að ræða, og það fælir mig frá frumvarpinu. Og þó að þessi nýi skattur sje ekki stór upphæð á ári, þá hvílir nóg byrði af allskonar sköttum á fátæklingunum, þótt ekki sje bætt við þá. Og eftir tilskipuninni frá 20. júni 1849 um veiði á Íslandi, sem er ágætlega samin, sem von er, eftir þann mann, sem þar vann að, þá á hver landeigandi veiðirjett á landi sínu, og jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að það sje ekki krafizt ofmikils, þótt þess sje krafizt, að þeir sjálfir gæti sin. Og landeigendurnir gera það, að minsta kosti sjer maðnr það, að landeigendurnir hjer í nánd við Reykjavík, eru iðulega að auglýsa í blöðunum, að þeir banni öllum veiði í landi sínu. Hvað eftirlitið snertir, þá geta þeir líka framkvæmt það, því löndin eru ekki svo stór, að þeir geti ekki sjeð til ólnglegra veiða og hverjir það geri.

Háttv. flutningsm. (G. B.) talaði um þetta frumv., eins og það væri einskonar viðauki við fuglafriðunarlögin. En jeg held, að það sje bezt að hafa fuglafriðunarlögin út af fyrir sig, og þennan viðauka fyrir sig, því hjer er ekki um annað að ræða, en hvernig menn eiga að veiða.

Háttv. flutningsm. (G. B.) var ennfremur að tala um það, að fuglarnir hefðu áður verið veiddir með bogum og örvum, og svo með snörum, er voru hættulegar fyrir fuglinn, og mjög ómannúðleg veiðiaðferð. Svo komu byssurnar, en ekki tel jeg, að þær hafi gert neinn verulegan skaða, eins og háttv. flutnm. (G. B.) taldi, heldur verði að telja framför að þeirri veiðiaðferð; hún er miklu mannúðlegri, en snörurnar og aðrar veiðibrellur. Bogar hafa aldrei verið notaðir hjer í landi.

Þegar verið er að tala um það, hvort lítið sje um fugla hjer á landi, þá vita menn lítið eða ekkert um það. Það er t. d. sagt hjer í einu nefndaráliti, að örninn sje, orðinn mjög sjaldgæfur hjer. Þetta er ekkert nýtt, því hann hefur alt af verið hjer sjaldgæfur. Það var líka sagt um daginn hjer í háttv. deild, að rjúpan væri að hverfa, en um það vita menn ekkert, og hefur oft áður verið áraskifti að því, hvort mikið eða lítið er af rjúpunni. Þetta sýndi jeg fram á við umræðurnar síðast um það mál hjer í háttv. deild. Hið sama má segja um sendlinga, er sumir telja að sjeu að hverfa.

Fuglar fælast yfir höfuð mennina, þeir fælast bygðina, og stundum fer það eftir veðuráttu, hvort þeir sækja í bygð eða ekki. Svo er t. d. sjerstaklega um rjúpuna. Auk þessara almennu athugasemda, gæti jeg komið fram með margar fleiri aðfinningar við hinar einstöku greinar frv., en það á ekki við við 1. umr. Jeg mun því geyma mjer það til 2. umr., sem jeg býst við að verði, þó að jeg óski þess ekki, að frv. komist svo langt.