29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

128. mál, friðun fugla og eggja

Júlíus Havsteen:

Þetta er 7. frumv. um friðun fugla og eggja, sem er á ferðinni hjer í deildinni. Þau eru misjöfn að gæðum, en þetta er af verri endanum, og er sumt í því allnýstárlegt, t. d. að friða Örninn. Það er með öðrum orðum farið fram á að vernda ránfugla, og er það undarlegt nýmæli. En þó er sú undantekning gerð á þessu, að veitt er leyfi til að drepa hann, ef hann gerir einhverja óknytti. En hver á svo að dæma um, hvenær hann fremur eitthvað miður sæmilegt, svo að hann sje rjettdræpur. Það er yfir höfuð ekki svo hægt að sjá, hvernig örninn er „sítúeraður“ í þessu máli. Hann er bæði friðaður og dræpur.

Hjer á og að friða fugla, er flækjast hingað, og búizt er við, að þeir ilendist hjer, og að þeim fjölgi, ef ekki er amast við þeim. En jeg er því algerlega ósamþykkur. Fyrst átti og að friða himbrima, sem eru hinir mestu skaðræðisgripir, en nú er þó horfið frá því, og nú er lagt til að ófriða þá, sem er alveg nauðsynlegt. Fyrst átti og eftir tillögum flutningsmanna að friða rjúpur í 5 ár, en nú er friðunartíminn orðinn 2 ár. Hvorttveggja er rangt.

Eftir þessar almennu athugasemdir sný jeg mjer að brtill. okkar háttv. 2. kgk. þm. (E. Br.).

1. brtill. okkar fer fram á, að silkitoppar sjeu teknir úr tölu þeirra fugla, er friða á árið um kring. Þeir dvelja hjer á stangli, sem gestir, nokkra daga og fara síðan aftur.

Annars má skifta fuglunum í 4 flokka, að því leyti, er snertir verustaði þeirra. Í fyrsta flokki eru þeir fuglar, er dvelja hjer altaf. Í öðrum flokki eru farfuglar, þeir fuglar, er verpa hjer. Í þriðja flokki eru fuglar, sem fara hjer um, koma hjer við á leið til norðlægari landa, t. d. helsingjar, margæsir eða hrotgæsir og ef til vill hvítmáfar. Og seinast er að telja þá fugla, er flækjast hingað með höppum og glöppum, og í þeim flokki eru silkitoppar.

Þá höfum við lagt það til, að sumir aðrir fuglar í fyrstu gr. falli burt, sem sje svanir, hettumáfar, haftyrðlar, himbrimar, svölur, starrar og sendlingar. Nefndin hefur nú sjálf komið með brtill. um að taka himbrima burt úr þessari grein og á að ófriða þá. Um haftyrðla er það að segja, að þeir eru varla til annars staðar en í Grímsey. Jeg hef örsjaldan sjeð þá á Eyjafirði.

Þá leggjum við til, að 2. gr. frv. falli burt. Hún er um friðun á örnum, og hef jeg minst á það áður. Vil aðeins bæta því við, að það er skrítið ákvæði í þessari grein, að afhenda skuli hlutaðeigandi lögreglustjóra nef, vængi og klær hinna drepnu fugla. Til hvers eru þessi ákvæði sett ? Það getur varla orðið til annars en spilla hamnum, sem þó er dýr, kostar um 25–30 kr. Hjer er því ekki gert annað en eyða því gagni, er hafa mætti af fuglinum. Þetta ákvæði spillir, með öðrum orðum, atvinnu manna, ef það verður að lögum. Við komum því með brtill. um að setja örninn í 3. gr. Ennfremur viljum við bæta við í hana helsingjum, hrotgæsum og himbrimum. Helsingjar voru settir í lögin 1903. Það eru skaðlegir fuglar, skemma grasið, þar sem þeir koma. Það er allmikið af þeim í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu, á vorin, þegar þeir eru á leiðinni vestur og norður til Grænlands, og á haustin, þegar þeir koma aftur þaðan. En hrotgæsirnar leggja leið sína um Mýrarnar.

4. brtill. fer ekki fram á annað en það, sem er í lögunum 1903. Fyrst átti að alfriða rjúpur í 5 ár. Nefndin er það betri en flutningsmenn hins upphaflega frumvarps, sem er tekið aftur, að hún leggur til að friða þær ekki nema 2 ár. Það er og bót í máli, að þær eru ekki friðaðar nema fyrir skotum. Það má með öðrum. orðum snara þær. Jeg segi sama um þetta, sem jeg sagði við 1. umr., að þaðer synd, að spilla þannig atvinnu manna. Háttv. deild hefur sýnt, að hún vill styðja atvinnuvegi landsins yfirhöfuð, að minsta kosti sjávarútveginn og búnaðinn. En það má þá ekki gleyma öðrum atvinnugreinum, þótt minni sjeu. Jeg veit með vissu, að einstakir menn hafa talsverðan hag af rjúpnaveiðum. Sumir, er hafaveiðirjett á stórum jörðum, geta vel haft um 300 kr. upp úr rjúpnaveiðum á einum vetri. Og sumir sjá ekki aðra peninga en þá, er þeir fá fyrir rjúpur og aðra fugla, sem þeir skjóta. Jeg gef því ekki verið með því, að friðunartíminn sje lengdur. Það er bezt að láta sitja við það, sem ákveðið er í lögunum 1903.

Jeg verð að mótmæla því, að rjúpum fækki. Það er umhleypingasöm veðrátta, er veldur því, að svo virðist, sem þeim fari fækkandi. Þær koma ekki oft ofan í bygð. Í staðviðri, frostum og snjó koma þær ofan í sveitir. Jeg er viss um, að þetta frumv. verður óvinsælt, ef það verður samþykt.

Þá kemur brtill. við 5. gr. um að friða aðeins rjúpnaegg. Jeg er hræddur um, að alþýða þekki ekki öll þessi egg, sem hjer er um að ræða. Jeg vil friða rjúpnaegg, láta það nægja. Rjúpur eru mjög gagnlegar, og því er rjett, að varna fækkun þeirra á þennan hátt.

Við stingum og upp á, að orðin „nema fyrir egg arnar, skal greiða 10 kr.“ falli burt. Það væri nær að veita verðlaun fyrir að ná þeim, þar sem jafnskaðlegur fugl og ernir eiga í hlut. Hann legst stundum á lömb, sem kunnngt er. Auk þess er það erfitt og hættulegt, að ná arnareggjum.

Að síðustu er brtill. um, að sektarfje renni að hálfu leyti til landssjóðs, en hinn helmingur til uppljóstarmanns.

Jeg vona, að háttv. deild taki þessum brtill. vel. Ef þær verða ekki samþyktar, kýs jeg helzt, að frumv. falli.