29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

128. mál, friðun fugla og eggja

Jósef Björnsson:

Út af umræðum þeim, sem orðið hafa um málið, ætla jeg sjerstaklega að minnast á eitt atriði, Það hafa bæði við þessa umr. og við fyrri umr. verið bornar töluverðar brigður á, að rjúpur sjeu að fækka. Það má að sjálfsögðu lengi um það þrátta, en mín skoðun er sú, að henni fækki. Þetta er ekki heldur undarlegt, þar sem kunnugt er, að í öllum sveitum landsins gengur út fjöldi manna með byssur til að skjóta rjúpur. Og þó vitnað sje í útflutningsskýrslurnar og sagt, að þær sýni, að eigi sje minna flutt út af rjúpum nú en áður, þá sannar það harla lítið um það, hvort jafnmikið sje nú til í landinu af rjúpum sem áður; því að það er augljóst, að því fleiri sem á veiðar fara, því meira mun að öðru jöfnu veiðast. Það getur því vel verið, að jafnmargar rjúpur sjeu enn skotnar sem áður, þótt fuglinn sje nú miklu strjálli. Það er fyrst, þegar fer að nálgast gereyðingu, að útflutningsskýrslurnar fara að segja til um eyðinguna fyrir alvöru. Af því að jeg hygg, að rjúpan sje að fækka, lít jeg svo á, að það sje tímabært, að vernda rjúpuna, einmitt til að vernda atvinnuveg þeirra, sem rjúpnaveiði stunda.

Jeg skal geta þess, að jeg get eftir atvikum felt mig við niðurstöðu nefndarinnar, að hafa friðunartímann styttri, en til var ætlazt í hinu upphaflega frv., og mun jeg því greiða atkvæði með tillögu hennar um það. Hv. 1. kgk. (J. H.) benti á, að rjúpur kæmu misjafnlega í Ijós í ýmsum sveitum á vetrum, og að það færi eftir veðráttu og snjóálögum. Jeg játa, að þetta er rjett; en þótt snjóljett muni hafa verið að jafnaði á Suðurlandi undanfarna vetur, þá hefur eigi verið svo um alt land. Og víst er það, að þótt fannfergi hafi lagzt á og jarðbönn, þá hefur minna orðið vart við rjúpu nú en áður. Ekki er jeg hræddur um, að friðunarlög þessi muni reynast jafn óvinsæl, og hv. 1. kgk. gefur í skyn, að þau muni verða. Jeg held þvert á móti, að þau mundu reynast vinsæl; byggi jeg það á því, að margir hafa sagt við mig, að það væri nauðsynlegt, að reisa skorður gegn því, að rjúpur yrðu framvegis drepnar eins gegndarlaust, eins og nú gerist. Og þótt mjer væri kappsmál að halda þingmannssæti, þá mundi jeg ekki vera hræddur við að missa það fyrir það, að jeg fylgi þessu máli.

Að öðru leyti skal jeg játa það, með hv. 6. kgk. (G. B.), að það er vandi, að semja heppileg friðunarlög. Fyrir það sje jeg þó ekki fullgilda ástæðu til að setja sig móti málinu við þessa umr. Það hlýtur að vera til bóta, að málinu sje velt sem bezt fyrir sjer.