29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Sigurður Eggerz, framsögumaður:

Með frumvarpi þessu, er hjer liggur fyrir, eru sumpart gerðar ýmsar breytingar á bæjarstjórparkosningarlögum og sumpart er komið fram með ýms nýmæli. Nefndin er sammála um það, að flestar þessar breytingar sjeu til bóta, og hvað tillögur nefndarinnar snertir að öðru leyti, þá skal jeg geta þess, að það er ágreiningur um eina þeirra, þó formaður nefndarinnar þm. Strand. (G. G.) ekki hafi ritað nafn sitt með fyrirvara. Mun jeg síðar víkja að þessum tyrirvara nánar.

Yfirleitt er það einkenni hlutfallskosninga, að þær tryggja minni hlutann gegn einræði meiri hlutans. Hver sæmilega stór minnihluti getur eftir þeim komið að fulltrúa, og verður það til þess, að málin verða þá betur rædd frá báðum hliðum, og því betur upplýst, þegar þau ganga í gegnum hreinsunareld röksemdanna.

Kosningarlögin nú byggja á þessum megin grundvelli, en eins og nú hagar, þá getur hver einstakur kjósandi aðeins stutt einhvern ákveðinn lista, en hann getur ekki ráðið því, hver sje málsvari þess flokks eða þeirrar skoðunar, er þeir, sem á listanum eru, halda fram. En þetta er mjög mikilsvert atriði, því á því getur oft og einatt oltið á miklu, að hafa góðan málsvara.

Úr þessu er bætt á tvennan hátt með þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi með því, að þegar kjósandi kýs einhvern lista er á standa t. d. 5 fulltrúaefni, þá getur hann ákveðið röð þeirra, með því að setja tölurnar 1, 2, 3, 4 og 5 fyrir framan nöfn þeirra, eftir því í hverri röð hann vill hafa þá, og fær þá sá, er talan 1 var sett við

1 atkvæði, sá er talan 2 var sett við 1/2 atkvæði, talan 3 fær 1/3 atkv., talan 4 fær 1/4 atkv. og talan 5 fær 1/5 atkv. Í öðru lagi getur kjósandinn strykað út nafn þess fulltrúa, er hann ekki vill hafa, og fær þá það fulltrúaefni ekkert atkvæði. Báðar þessar breytingar miða að því, að kjósendur listans geti ráðið því, hver skuli vera málsvari hans, en sameiginlegt er það fyrir báðar þessar breytingar, að þær eru innan listans, eða aðeins kjósendur listans, er ráða málsvaranum.

Þá er 3. nýmælið, en um það varð ágreiningur í nefndinni. Það nýmæli fer í þá átt, að fulltrúaefni, er stendur á fleiri listum, fái við úttölureikning á atkvæðafjölda sínum talin þau atkvæði, er hann hefir fengið á öllum listum, er koma fulltrúa að við kosninguna, og að þessi atkvæði verði talin til þess lista, eða lögð við atkvæði hans á þeim lista, er flest atkvæði fékk. Um þetta er fyrirvari hins háttv. formanns nefndarinnar (Guðjóns Guðl.).

Að því leyti, er þetta eins og hin nýmælin, er jeg nefndi áðan, að þessi atkvæði hafa engin áhrif á atkvæðamagn listans, heldur hafa þau aðeins áhrif á niðurröðunina á listanum. En hjer er sá mismunur á, að í hinum tilfellunum voru það kjósendur listans einir, er rjeðu málssvara listans, en hjer geta menn úr mótstöðuflokknum með gagnólíkar skoðanir ráðið því, hver verður málsvari mótstöðuflokks þeirra. Nefndin verður að játa, að í sjálfu sjer mæli nokkuð með því, að sá, sem hefur alment fylgi, fái að njóta þess á þann hátt, sem ræðir um í frumvarpinu, en hinsvegar er það ljóst, að þetta er brot á þeirri eðlilegu reglu, að kjósendur hvers lista ráði að öllu leyti niðurröðun á honum, og leggur því nefndin til, að þetta ákvæði frumvarpsins verði felt. Ef farið væri eftir þessari tillögu nefndarinnar, mundi hlutverk kjörstjórnar verða að mun ljettara. Hvað kjósendurna snertir, þá sje jeg ekki annað, en að þessi kosningaraðferð sje svo auðveld, að hún geti ekki orðið þeim að fótakefli við kosninguna.

Þá vil jeg minnast á 6. gr. Þar er mælt svo fyrir í frv., að ef einhver listi fær svo mörg atkvæði, að hann geti komið að fleiri fulltrúum, en fulltrúaefni standa á listanum, þá skuli kosið það fulltrúaefni, er næst kosningu stendur á þeim lista, er hefur mest atkvæðamagn. Nefndin lítur svo á, að einfaldast og rjettast sje, að fulltrúinn sje þá kosinn af þeim lista, er flest atkvæði hefur afgangs.

Að því, er kosningarathöfnina snertir, þá lætur nefndin sjer nægja að vísa til hinnar ítarlegu skýringar við stjórnar frumvarpið; aðeins hefur nefndinni þótt rjett, að benda á aðra einfaldari aðferð við niðurtalning atkvæðanna, og leyfi jeg mjer um það að vísa til nefndarálitsins.

Flestar brtill. nefndarinnar eru að eins orðabreytingar, að öðru en þær, er jeg hef vikið að, og finn jeg ekki ástæðu til þess, að telja þær upp hverja fyrir sig, en jafnframt vil jeg taka fram, að nefndin afturkallar brtill. sínar, sem eru undir stafliðunum:

b við 2. grein,

h við 3. grein og

e og f við 5. grein.

Að því, er snertir breytingartillögur þær, sem eru á þgskj. 192, þá aðhyllist nefndin þær allar, og greiðir atkvæði með þeim, nema brtill. a við 5. gr. Þessar brtill. eru flestar aðeins orðabreytingar, og ein þeirra er leiðrjetting á prentvillu, tillaga 1 c. Aðeins ein þeirra er viðauka- eða breyt.tillaga, og það er f. tillagan við 5. grein, er fer fram á það, að þegar atkvæði eru skakt talin niður, þá skuli líka fara yfir atkvæðaskrána, samhliða því, sem farið er yfir kjörseðlana, og getur nefndin fallizt á það.

Þá er brtill. nefndarinnar á þgskj. 196 við 3. gr., merkt a, um að í stað „stryk“ komi „kross“, og stafar sú breyting af því, að nefndin lítur svo á, að það sje heppilegast, að hafa krossinn áfram, bæði af því að kjósendurnir eru orðnir vanir honum, og eins af því, að rjettast sje, að allir seðlar við leynilegar kosningar sjeu eins merktir.

Nefndin hefur lagt til hjer í brtill. II e við 3. gr., að í stað orðsins „blindu“ komi „sjónleysi“, og í f. brtill. við sömu grein, að orðið „handarmeins“ falli burt, og loks í næstu brtill., að í stað orðanna: „af öðrum slíkum ástæðum“, komi: „annarar líkamsbilunar“, og verður þá þessi grein eftir tillögum nefndarinnar svohljóðandi:

„Nú skýrir kjósandi kjörstjórn frá því, að hann sakir sjónleysis eða annarar líkamsbilunar, er kjörstjórn telur gilda ástæðu o. s. fr.“.

Hjer er um mjög lítinn efnismun að ræða. Má vera, að skýringarreglum sje markað stærra svið samkvæmt ákvæðum stjórnarfrumvarpsins um þetta efni, þann ig, að fleiri eigi kost á að njóta aðstoðar við kosningarnar samkæmt þeim.

Með brtill. sinni II h við 3. gr. leggur nefndin til, að það ákvæði frv. sje felt í burtu, að þeir, er aðstoð þurfa við kosninguna, verði að fá til þess einhverja í kjörstjórninni, Nefndinni hefur þótt eðlilegra, að kjósandinn geti valið hvern, sem hann helzt vill til þess að greiða atkvæði fyrir sig, eða rjettara sagt, aðstoða sig við kosninguna.

Sje jeg ekki ástæðu til þess, að gera frekari grein fyrir breytingum nefndarinnar að sinni, að minsta kosti ekki fyr en mótmæli koma fram, en vænti þess, að hin háttv. deild samþykki þær, og láti frv. þetta ná fram að ganga, því í því felst mikil rjettarbót.