29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Sigurður Eggerz, framsögumaður:

Jeg vil leyfa mjer að fara fáeinum orðum um það atriði, sem helzt hefur risið ágreiningur út af hjer við þessar umræður. Nefndinni er það að vísu ekki kappsmál, að fella burtu það ákvæði stj. frv., að leggja skuli hinar lægri atkvæðatölur, sem fulltrúaefni fær á þeim listum, sem til greina geta komið samkvæmt atkvæðamagni, við þá atkvæðatölu, sem hann hefur fengið á þeim lista, sem hann hefur mest á. En ef svo er, að hver listi er borinn upp og studdur af sjerstökum flokk, þá virðist eðlilegast og enda sjálfsagt, að sá hinn sami flokkur ráði einn, hverjir sjeu málsvarar hans. Það getur verið mikið komið undir þeim mönnum, sem fara með umboð flokkanna. Það virðist því ekki vera hættulaust, að menn utan flokkanna geti haft áhrif á, hverjir sjeu málsvarar þeirra. Slíkir menn, sem hafa hylli margra manna í öllum flokkum, eru oft þýðlyndir menn, en lingerðir og ófærir til þess að standa í broddi fylkingar. Það er því áríðandi, að flokksmenn einir ákveði, hverjir skuli bera áhugamál þeirra fram í slíkum efnum sem þessu er það mikilsvarðandi, að „principunum“ sje haldið hreinum. Í þessu máli er það fyrsta megin reglan, að hlutfallið milli listanna sje rjettilega ákveðið, og önnur, að hver einstakur flokksmaður geti ákveðið röð nafnanna innan listans. En ef utanflokksmenn geta haft áhrif á röðina, þá er vikið frá hreinu „principi“.

Háttv. ráðh. ljet í Ijós þá skoðun, að ef blindir og fatlaðir kjósendur mættu velja hvern, sem þeir vildu, sjer til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna, þá mætti óttast, að atkvæðasmalar notuðu sjer þetta sínum flokki í hag. Jeg játa, að þetta gæti komið fyrir, en hitt getur líka hent, að kjörstjórn sje svo óráðvönd, að hún misbrúki þann einkarjett til aðstoðar, sem stj.frv. heimilar henni. Jeg hygg einnig, að flestir sjeu svo skapi farnir, að þeir vilji helzt ákveða sjálfir, hverjum þeir fela launungamál sín.

Háttv. ráðh. hjelt því fram, að heppilegra væri, að kjósandinn táknaði atkvæði sitt með striki heldur en með krossi, því að hægra væri að gefa bendingar með krossinum, auðveldara að gefa til kynna með honum, hvernig hver einstakur greiddi atkvæði. En jeg held, að ekki geti stafað mikil hætta af krossinum, því að ef það færi alment að tíðkast, að menn vildu gefa vísbendingar um atkvæði sitt, þá mundi verða örðugt að finna „variationir“ við krossinn fyrir hvern einstakan. Þar að auki eru kjósendur nú orðnir vanir krossinum og virðist því hjer engin ástæða til þess að breyta til.