30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

64. mál, friðun æðarfugla

Guðjón Guðlaugsson:

Mikið skánar frumvarp þetta, ef að breytingartillögur hinnar háttv, nefndar verða samþyktar, og mun jeg því greiða atkvæði með þeim. En þó verða einstaka greinar eftir, sem jeg tel óheppilegar, sú að banna að gefa æðaregg, og að banna að hirða dauðan æðarfugl, og mun jeg um það efni greiða atkvæði með breytingartillögu háttv. 3. kgk. þm. (Steingr. J.) og með þeim tillögum, er hann tók upp, en nefndin tók aftur.

Jeg ætla ekki að svara miklu um eggjagjafirnar eða eggjatökuna. Framsögum. (Sig. Stef.) sagði, að það væri orðið trúaratriði hjer, að æðarfuglinum mundi fjölga, ef eggin væru tekin. Jeg skal ekkert þrátta um það, þó jeg haldi raunar, að svo sje ekki. En jeg held, að svo megi segja, að það líti út fyrir að vera orðið trúaratriði hjer í háttv. deild, að varpeigendur sjeu skynsemi gæddar verur, er ekki þurfi að svifta fjárforræði með sjerstökum lögum, og þetta er eðlilegt, þar sem heyrzt hefur hjer í umræðunum frá þeim mjög djúpsæ speki, þar sem t. d. háttv, þm. V.Skaftf. (Sig. Egg.) fræddi á því, að enginn ungi kæmi úr því eggi, er væri tekið, og að ekkert varp væri til, ef að enginn bliki væri. Hið fyrra var raunar gamalt, slitið og lánað, og fer því að verða lítið varið í það, en jeg, hygg, að þetta bendi fullkomlega á, að það sje ekki nauðsynlegt, hvað slíka vizkusala snertir, að svifta þá fjárforræði.

Mjer finst það vera sjálfsagt, að leyfa þeim, sem finnur dauðan æðarfugl, að hirða hann, og háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) færði greinileg og ljós rök fvrir því.

Jeg get ekki skilið það, er sumir hafa haldið hjer fram, að þetta komi í bága við venjuleg lög, því ef að svo væri, þá kæmu lögin í bága við venjulega skynsemi, og það má ekki vera. Og mjer finst þetta ákvæði vera hart gagnvart þeim mönnum, er finna dauðan æðarfugl á landi sínu, því það á ekki að banna annað en drepa æðarfuglinn. Jeg veit ekki betur, en að ef maður er sakaður um glæp, þá verði hann því aðeins dæmdur sekur, að sekt hans verði sönnuð; ef svo er ekki, þá er hann sýknaður, og það jafnvel þótt miklar líkur sjeu, og ef hann með vitnum eða öðru, t. d. fjarveru, getur sannað sýknun sína, þá er hann ekki eingöngu sýknaður af Iögunum, heldur líka sýknaður af almenningsálitinu. Ef t. d. að maður er kærður fyrir, að kind, er hann ekki á, sje í fjárhúsi hans, og hann getur sannað með vitnum, að hún hafi verið látin þangað honum óafvitandi, þá er hann sýknaður, það er yfirleitt ekkert ákvæði í löggjöfinni, er heimili að sakfella menn, er geta sannað sýknu sína. En eins og h. 3. kgk. (Stgr. J.) benti svo ljóst og skilmerkilega á, og leiddi dæmi að, þá getur það oft borið við, að maður, sem hirðir dauðan æðarfugl, getur sannað, að hann hefur ekki drepið hann.

Það getur líka komið fyrir, eftir frv. þessu, að tveir menn verði sektaðir fyrir sama æðarfuglinn, þannig verður sektin tvöföld.

Dæmi til þess að sýna þetta, skal jeg taka:

Maður skýtur æður, en það eru vitni við, svo að hann þorir ekki að hirða hana, og hún liggur dauð eftir, en maðurinn fær sekt, svo kemur annar; hann finnur æðurina, og hirðir hana, vegna þess að hann ber litla virðingu fyrir þessu ósanngjarna lagaákvæði. En svo sannast það, og hann fær líka sekt. Hjer eru því tveir menn sektaðir fyrir sama fuglinn; sektin verður því 10 kr. alls eða 5+5 kr. í stað 5 kr. Og ef nú svo ber við, að ekki er hægt að vita, hver hefur skotið fuglinn, og hirðandinn fær sekt, þá liggur mjer við að segja, að það sje sá saklausi, sem er sektaður.

En oft er það svo, að menn geta sannað, að þeir hafi ekki drepið fuglinn. Jeg veit, að það er svo í minni sveit, að það er varla 9 af hverjum 10 mönnum, er eiga byssu, og það eru jafnvel ekki 9 af 10, er eiga net og þessir menn geta hæglega sannað það, að þeir hafi ekki drepið æðarfugl. Ennfremur geta menn sannað það, þegar 2–3 menn finna dauða æður í Iöglega lögðu neti.

Yfirleitt mun vera lítil tilhneyging til þess að drepa æðarfugl, og jeg get sagt það, hvað sjálfan mig snertir, að jeg hef sett fram bát til þess að bjarga æðarunga, er ætlaði að drepa sig í neti. Og sjálfur hef jeg aldrei meðhöndlað byssu, og aðeins einusinni skotið í mark.

Það er ekki hægt að vita, hvort hjer sje lítið um að vera; vanalega mun það þó, en benda vil jeg þó á, að það sje ekki altaf. Árið 1902, þegar hafísinn fylti firðina í Strandasýslu, þá drap hann æðarfuglinn unnvörpum. Jeg er sannfærður um, að fiður og jafnvel eitthvað af dún af þessum fugli hefur als við flóann numið einum 120 fjórðungum. Að það hafi verið um 30 heimili, sem hafi fengið fiður, sem svarar í eina sæng, eða 40 pd., þegar þau heimili við flóann, sem lítils nutu, eru lögð ofaná. Og þetta voru allt Iögbrot. Af þessu má sjá, að þetta getur verið mikilsvirði. Þetta ár minkaði varpið á Hellu við Steingrímsfjörð úr um 75 pd. niður í um 25 pd., en nú er það aftur komið uppi 75 pd., að jeg held, en eggjataka hefur jafnan verið þar lítil, en þó gefin egg, auðvitað til einskis skaða fyrir varpið, þar sem hjer er um mikinn ráðdeildarmann að ræða.

Jeg fylgi því að málum breytingartillögu háttv. 3. kgk. þm. á þingskj. 156 og þeim breytingartillögum nefndarinnar, er háttv, 3. kgk. þm. (Steingr. Jónsson) tók upp, en ef þær ná ekki fram að ganga, þá mun jeg líklega greiða atkvæði móti frumvarpinu.