30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

56. mál, sala á þjóðjörðinni Fossi í Suðurfjarðarhreppi

Eiríkur Briem:

Það er rjett, að nefndin leggur það til, að háttv. Ed. vísi málinu til stjórnarráðsins með meðmælum sínum. Málið er svo vaxið, að stjórnarráðið neitaði um söluna aðeins að svo stöddu, en nú hefur ábúandinn boðið, að undan megi skilja sölunni allstóran landskika, og jafnvel meira síðar, ef þess álitist þörf. Í fyrra bjuggust menn jafnvel við, að eitthvað kynni að verða innan skamms af námugrefti á þessari jörð, en nú eru þær vonir víst horfnar. Fossinn, sem jörðinni fylgir, er svo lítill, að hann verður víst tæplega notaður til iðnaðar. Það kynni að mega nota hann til heimilisþarfa, en ekki meira. Hjer verður að líta á það atriði, hvort meina megi ábúendum að kaupa ábýlisjarðir sínar, ef einhverjir möguleikar eru fyrir hendi um námugröft eða starfrækslu fossa í framtíðinni. Í slíkum tilfellum álít jeg ekkert í hættu, ef að eins hæfilega mikið land er undanskilið til væntanlegra iðnaðarfyrirtækja. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að stjórnin verður að tryggja sjer það á alla lund, að eigandinn geti ekki gert slíkum fyrirtækjum neitt til tálmunar.