30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

56. mál, sala á þjóðjörðinni Fossi í Suðurfjarðarhreppi

Hákon Kristoffersson, framsögum.:

Jeg er þakklátur háttv. 2. kgk. þm. (E. Br.) fyrir ummæli hans um málið.

Jeg skil ekki, hvernig háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) fer að halda því fram, að stjórnarráðið hafi betur vit á þessu máli, en deildin. Hvaða skjöl hefur stjórnarráðið haft, sem nefndin hefur ekki sjeð? Hvað er það kunnugra staðháttum þar en hún? Hvað veit það meira um fossinn? Hvað veit það meira um námuna? Og um álit hreppstjóra er það að segja, að þó virða beri mikils ummæli hans um, að það geti rekið sig illa á, að sinn væri eigandi að hverju, jörðu, fossi og námu; þá er það að líkindum ekki það, sem vakað hefur fyrir honum, heldur hitt, að hann missir umboðslaun af jörðinni, ef hún verður seld. Ef ábúanda jarðar þessarar verður synjað kaups á jörðinni, verður hann beittur misrjetti, ef borið er saman við aðra ábúendur þjóðjarða, er fengið hafa jarðir sínar keyptar. Jeg vona, að það verði ekki heldur endirinn á málinu.

Jeg þykist hafa fært nokkurnveginn góð rök fyrir því, bæði hjer í deildinni og í nefndinni, að það sje svo margt, sem mæli með því, að ábúandanum verði ekki synjað kaups á jörðinni, að jeg geti gert mjer beztu vonir um, að málið fái æskileg úrslit.