30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

94. mál, kosningar til Alþingis

Hákon Kristoffersson, flutningsmaður:

Jeg hef ásamt háttv. meðflutningsmanni mínum leyft mjer að koma fram með þetta frv. um breyting á núgildandi kosningarlögum. Það hefur sýnt sig, að það eru ýmsir agnúar á þeim, er gott væri að laga, ef hægt væri. Það er sjerstaklega krossinn, er mörgum hefur gengið illa að gera, þó að það sje ekki vandasamt, og því hafa atkvæði margra manna orðið ónýt. Því líta margir svo á, að það sje skylda alþingis, að bæta úr þessu, að laga lögin. Því er það, að þetta frumvarp framkomið. Jeg hef borið málið undir ýmsa deildarmenn og líka utandeildar menn, og þeim hefur litizt vel á frum varpið.

Jeg fer ekki út í einstakar greinir frumvarpsins nú. Jeg býst við, að nefnd verði kosin til að íhuga það. Jeg álit því ekki þörf á að ræða það nú. Jeg vona, að háttv. deild verði mjer samdóma um, að það er ekki ófyrirsynju, að þetta mál er borið upp. Jeg býst við, að breytingartillögur komi fram við frumvarp okkar. Sjerstaklega er mjer kunnugt um 1. gr., að gera verður brtill. við hana. Mjer kemur á óvart, ef þær verða miklu fleiri.

Jeg skal og geta þess, að kjörseðill var til búinn nokkuð öðru vísi en jeg bjóst við eða ætlaðist til, en það má leiðrjetta síðar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira og sting upp á 3 manna nefnd.