30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

93. mál, hallærisvarnir

Guðjón Guðlaugsson, flutningsmaður:

Það getur vel verið, að sumum hv. þm. virðist um frv. ráð, er hjer liggur fyrir, að ekki sje gild ástæða eða brýn nauðsyn til að bera það fram á þessu þingi. En við, sem flytjum það, lítum svo á, að það sje orð í tíma talað. Við lítum svo á, að það verði að finna eitthvert ráð eða koma einhverju því, er geti verið vörn, er hallæri og óáran ber að höndum. Og það er nauðsynlegt, að gera eittvað nú, þó að nú ríki góðæri í landinu. Þess ber að gæta, að lög þessi verka ekki á sömu stund, sem þau verða til, ná ekki tilgangi sínum undir eins. Til þess þarf langan tíma. Því er ástæða til að samþykkja slík lög sem þetta frv. nú, enda þótt svo standi á nú í bili, að það þurfi ekki á þeim að halda. Þeim mun fyr, sem lög þessi eru samin og samþykt, því fyr koma þau að notum. Það er líka „seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann“. Í góðærinu verður að hugsa fyrir hallærinu. Það er of seint að hugsa fyrir því böli, er af harðindunum leiðir, þegar þau eru komin.

Að vísu má segja, að margt sje nú gert til að afstýra hallæri, t. d. má benda á miklar samgöngubætur, er gerðar hafa verið hjá oss á seinni árum. Þessu verður ekki neitað. En þá er góðar samgöngur teppast af völdum náttúrunnar, þá þarf einhver ráð til þess að bæta úr því böli, er af slíku leiðir. Þá er náttúran leikur oss svo hart, og fólkinu líður illa í landinu, getum við ekki haft not af peningunum, ef peningana vantar. Þó að skipin komi, geta menn ekki keypt vörur, nema þeir hafi peninga. En nú vita það allir, að hafísinn teppir oft allar samgöngur og þeirra verður als engin not.

Þetta frv, er nú tilraun til, að tryggja okkur gegn því, að fólkið þoli hungur í hallæri eða skepnur falli. Þótt fólkið hafi nú lengi ekki fallið úr hungri, þá hefur þó stundum verið mjótt á mununum, og það vita allir, að það hefur þurft mörg ár til að reisa það við aftur, er fallið hefur eða gengið til þurðar í hörðu árunum.

Þetta viljum vjer flutnm. girða fyrir, og því er þetta frv. framkomið.

Þetta frv. er nefnt frv. til laga um hallærisvarnir. Það er í rauninni ekki nema ein grein um þetta, 1. gr., sem ákveður, að safna fje, er verður landsmönnum til hjálpar í hallæri. Kjarninn í frv. er í fám orðum sagt sá, að koma á stofn öflugum hallærissjóði.

Við höfum verið svo heppnir nokkur undanfarin ár, að hið mesta góðæri hefur ríkt í landinu, að kalla má stöðugt síðan 1887, enda þótt hörð veðrátta hafi stundum sýnt sumum landshlutum í tvo heimana, einkum árin 1902 og 1910. 1902 lá hafís fyrir öllu Norðurlandi frá miðjum febrúar fram í miðjan júní. Afleiðingarnar urðu raunar ekki mjög átakanlegar, sem stafaði af því, að sumarið áður var gott, heyskapur þá góður, og veturinn ekki snjóasamur. Af þessu leiddi, að heybirgðir voru nógar þar, sem jeg þekkti til. En samgöngur teptust. Á Húnaflóa kom ekkert skip frá því um haustið, þangað til í júnímánuði, Þó varð reynslan sú, að öll matvara, er til var, gekk ekki út. Menn voru því ekki svo illa staddir, sem búast hefði mátt við. Og þó kom ekkert skip á Borðeyri fyr en í júlímán.

8 árum seinna, 1910, reyndist þetta nokkuð á annan veg. Þá kom skip á hverja höfn í febr. Svo í marz átti annað skip að koma, Laura, en hún strandaði. Snjóar voru miklir, og það var ekki hægt að hafa skepnur úti. En það er álit mitt, að fram að jólum hafi veturinn ekki verið harður. En þá var þó, þrátt fyrir þetta, ástandið þannig, að bjargarskortur varð í heilum hjeruðum. Jeg ætti að geta munað þetta, því að það lá við, að jeg stofnaði mjer í lífsháska til að ná í skemdar vörur úr Lauru, til þess að afstýra bráðum bana búpenings á nokkrum bæjum. Jeg fór á mótorbát til Skagastrandar. Og þetta var gert til þess, að nokkrir bæir fengju hjálp til þess að lengja líf búpenings síns í 3–4 daga, þangað til Vestri átti að koma. Og þá er hann kom, fór þannig, að allar vörur, sem hann hafði meðferðis, auk fiskæta o. fl. frá Isafj.djúpi seldist alt upp á 3 dögum. Þegar Vesta kom 5. maí, þurfti aftur ekki nema 3–4 daga til þess, að alt, sem hún hafði að færa, væri uppgengið. Svona breyttist á standið á 8 árum.

Reynslan sýnir, að mönnum hefur ekki vaxið fyrirhyggja á þessum tíma. Og sumstaðar feldu menn skepnur úr hor. Hjer er því um alt annað en forsjálni að ræða. Það er því ekki ófyrirsynju, að þingið reyni að koma í veg fyrir slíkt. Síðan hafa verið beztu ár og ekki hægt að komast í vandræði. Veturinn 1911–1912 var óminnilegur gæðavetur.

1. gr. frv. ákveður, eins og jeg sagði, að stofna skuli hallærissjóð. „Auðurinn er afl þeirra hluta, er gjöra skal“, og það getur. því arla leikið efi á, að það sje rjett byrjun að stofna hallærissjóð. Það geta verið skiftar skoðanir um, hvernig gjalda eigi til þessa sjóðs, hvort menn eigi að gjalda í hann eftir efnum og ástæðum.

Slíkt getur komið til athugunar síðar, en fyrst og fremst er þess að gæta, að nógu er hlaðið á dugnaðarmennina, og á þá, sem eitthvað geta, þótt ekki sje alt af verið að hlaða ofan á. Hjer er líka verið að útbúa trygging, sem á að ná til allra, en fyrst tryggingarrjetturinn er jafn fyrir alla, þá er líka eðlilegast, að skyldurnar nái jafnt til allra. Þegar um tryggingar fyrir hallæri er að ræða, þá nær hún fyrst til fátæklinganna, og er þýðingarmest fyrir þá; en hún nær þó líka til hinna efnuðu, því að hallærið gengur ekki fram hjá neinum, þar sem það legst á. Jeg tel því jettast, að gjald það, sem hjer ræðir um, sje lagt á sem nefskattur. Hitt getur orðið miðlunarmál, hvort jafnhátt gjald eigi að leggja á alla eða ekki. Það á ekki við að fara langt út í það mál nú við þessa Í umræðu; það sem mestu varðar nú, er að hefjast handa og safna saman fje til að hafa til að grípa, þegar mögru árin koma og eta upp afurðir feitu áranna; þar næst þarf að hafa fyrirhyggju um það, hvernig fjenu skuli verja, þegar á þarf að halda. Þá þarf að hafa gott eftirlit með því, að fjeð sje ekki brúkað um skör fram, því að sje aðgangur að því mjög greiður, er hætt við, að gripið verði til þess, nærri hvað lítið sem á bjátar. En það yrði til að ala upp í mónnum hugsunarleysi og fyrirhyggjuleysi, og gæti þá verið ver farið en heima setið.

Málið er svo umfangsmikið og margbrotið, að jeg tel nauðsynlegt, að nefnd sje skipuð í því. Hjer liggur að vísu ekki fyrir nema einn kafli hallærismálsins, en það ætti meðal annars að vera verk hinnar fyrirhuguðu nefndar, að taka hina tvo þætti þess einnig til íhugunar, ef hún sjer það fært.

Eins og jeg sagði, er málið stórt, og þarf að athugast vel af þingi og þjóð, áður en það er leitt til lykta, enda er það ekki höfuðatriðið, að það verði leitt til lykta á einu þingi; hitt er höfuðatriðið að rekspölur komist á það, og að það sje sem vandlegast skoðað og undirbúið bæði á þingi og utan þings. Leyfi jeg mjer svo að stinga upp á, að 5 manna nefnd sje skipuð í málið, að loknum umræðum.