30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

93. mál, hallærisvarnir

Guðj. Guðlaugsson, flutnsm.:

Mjer þykir það illa farið, ef háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) skuli ekki geta verið hlyntur þessu máli, því að munar ætíð mikið um liðveizlu hans, og mjer þykir gott að geta verið honum sammála.

Jeg geri ekki mjög mikið úr þeirri grýlunni, að hjer sje verið að leggja ný göld á, og að það muni verða óvinsælt.

Jeg veit að vísu, að þeir, sem vilja njóta allra rjettinda án þess, að nokkrar skyldur fylgi, munu verða óánægðir með frv. þetta en varla mun heillavænlegt að sníða löggjöfina eftir vilja slíkra manna.

Það er lítið samræmi í því, að segja, að menn eigi að sjá fyrir sjer sjálfir, og vilja þó ekki stuðla að því, að þeir safni saman nokkru fje, er þeir geti gripið til, þegar á bjátar.

Mjer dettur í hug gamla sagan um Jósef og Egyptalandsmenn. Ekki kom hallæri þar í landi við það, að korninu var safnað á góðu árunum; en kornforðinn, sem fyrir var, þegar hallærið kom, bjargaði lífi manna. Eins mundi nú fara hjer, sem þar, því að sama lögmálið gildir nú, sem þá.

Háttv. 1. kgk. þm. (J. H,) veik þeirri spurningu að okkur, hver árangur hefði orðið að kornforðabúrslögunum og heyforðabúrslögunum. Í raun rjettri þarf jeg ekki að svara þessu, því að jeg átti ekki þátt í þeim lögum. En þó get jeg bent á, að þetta eru lög, sem aðeins leyfa að gera samþyktir, og því nálega sama sem engin lög. í öðru lagi er þess að gæta, að til þess að stofna þessi forðabúr útheimtist töluvert fje. Auk þess er það skökk hugmynd, að ætla sjer að safna heyforða saman á einn stað í hrepp. Það er mjög hæpið, að slíkt geti komið að verulegum notum. Það þarf varla að gera ráð fyrir, að mjög oft þurfi til þess að gripa, en altaf þarf helzt að endurnýja það, og hlýtur það að valda miklum erfiðleikum.

Kornforðabúri verður varla öðruvísi komið upp, en að kaupmenn eða kaupfjelög taki að sjer að birgja sig upp með korn handa þeim, sem forðabúrið stofna. En til þess þurfa fjelagsmenn að hafa sjóð til umráða. Því að með þeirri verzlunarsamkepni, sem nú er, og þeim gjöldum, sem á verzlun hvíla, þá má telja það víst, að verzlanir hvorki vilji nje geti tekið að sjer að birgja sig upp með korn, svo að örugt sjé, nema með því ð fá borgun fyrirfram. Þetta frv. er því alveg eins nauðsynlegt, þótt til sjeu samþyktarlög um kornforðabúr og heyforðabúr, því að það sannast, að þau koma aldrei að nærri fullum notum, nema í þeim sveitum, þar sem mestu eru ráðandi framtakssamir fyrirhyggjumenn. Horfellislögin eru að vísu ekki samþyktarlög, en það eru ómerkileg lög í öllum greinum. Fyrirskipanir þeirra eru hvorki heilt nje hálft. Þegar menn eru að verða heylausir, þá hefur það lítið að segja, þótt einn eða tveir menn labbi um sveitina til að skoða skepnur og heybirgðir. Það skyldi þá helzt leiða til þess, að fjenaðinum væri dálítið jafnað niður milli manna; þeir, sem nokkru birgari væru, fengnir til að taka fje af hinum óbirgari, og öllum þannig komið á kaldan klaka.

Háttv. 1. kgk. þm. (J, H.) talaði um árið 1882, og kvaðst vel hafa þekt ástandið þá. Hann heldur máske, af því jeg lít svo unglega út, að jeg muni ekki eftir því ári. Jeg þykist geta fullvissað háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) um, að jeg muni eins vel eftir því eins og hann. Það var fyrsta eða annað árið mitt í Strandasýslu, þeirri sýslunni, sem þá varð einna harðast úti. Harðindi voru þar mikil, en ekki hallæri eða sultur; og þótt skip kæmu ekki fyr en í ágústmánuði, voru matarbirgðir sæmilegar. Skepnurnar aftur á móti hrundu niður. Bændur, sem að undanförnu höfðu haft 2–300 ær í kvíum; reiddu þá ein 10 Iömb á fjall í kláfum og slík ótimgan var í þeim, að þau komu snoðin af fjalli um haustið.

Svona var það hjá bændum, sem nóg hey höfðu sjálfir, og meira að segja gátu hjálpað öðrum. Sá bóndi, sem jeg einkum, hef fyrir augum við lýsingu þessa, var Benedikt sál. Jónsson á Kirkjubóli; merkasti og bezti bóndi sýslunnar í mínu minni. Hann byrjaði á því, að skera jafnharðan annan tvílembinginn undan tvílembunum sínum ; en hann sá brátt, að það nægði ekki, og endaði með því, að hann ljet aðeins lifa undir vænstu ánum, undan öllum hinum skar hann, og var þó fullhart á, að þau tórðu af, þessi fáu lömb. Eftir kenningu þeirra eggjafriðunarmannanna hefði þetta ráðlag átt að vera hin mesta fjarstæða (S. St.: Fjölgaði fjenu máske við þetta?). Að vísu ekki; en minna tjón er að missa lambið eitt, en að missa bæði lambið og ána, og það sjá allir, að fjenu fjölgar fljótar aftur, ef ærin lifir af. Jeg man eftir því, að 28. ágúst það sumar ferðaðist, jeg til Steingrímsfjarðar; hafði þá fent svo á Bitruhálsi, að ekki sá í dökkan díl, og skegg mitt fraus á hálsinum. Svona var tíðarfarið þá. Þetta sumar var jeg vikutíma í Bæ hjá Sigurði sýslumanni Sverrisen. Þá viku var aldrei meira en tveggja stiga hiti á daginn, en frost á nóttum. Þetta voru veruleg harðindi. Jeg veit ekki um önnur hjeruð, eu jeg veit um mitt hjerað, að það mundi ekki afbera önnur eins harðindi nú, eins og það gerði þá. Jeg er sannfærður um, að hefði hafís komið um sumarmál vorið 1910 og tept skipagöngur, þá mundi bæði hafa orðið mannfellir og skepnufellir í Strandasýslu. Reyndar veit jeg, að ýmsir mundu hafa leitað til Ísafjarðar, því að þar var björg að fá, en margir mundu þó hafa setið eftir, hvorki þózt geta yfirgefið skepnurnar, meðan þær voru hjarandi, nje heldur viljað fara, heldur lifað í voninni um, að þá og þegar mundi tíð batna og rætast úr fyrir þeim. Það er misskilningur, að skip kæmi ekki fyr en í júnímánuði. Jeg vildi að eins sýna muninn á því, hvernig menn dugðu 1902, þótt skip kæmi seint, og hve miklu miður menn dugðu 8 árum seinna 1910. Þá kom skip með birgðir í febrúar, og þó horfði til stórvandræða, ef skipakoma hefði dregizt fram eftir vorinu. Og hvílíkur munur þá, eða 1882, þegar skip kom ekki fyr en í ágústmánuði, og menn björguðnst eigi að síður stórvandræðalaust, þrátt fyrir megn harðindi. Þetta ber ekki vott um það, að vjer megum treysta því, að bættar samgöngur bjargi oss undan hallæri og mannfelli.

Mjer finst okkur vera vorkunn, þótt við viljum reyna að finna ráð til að ráða bætur á fyrirhyggjuleysi manna og firra landið vandræðum.