30.07.1913
Efri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

24. mál, siglingalög

Jósef Björnsson:

Jeg vil aðeins gera örstutta athugasemd við 1. gr. frv. Jeg vildi óska, að orðalagi hennar yrði breytt. Það er óviðkunnanlegt, að skip, sem nefnd eru íslenzk, geti verið eign danskra manna, heimilisfastra í Danmörku. Slík skip væru þó sannarlega ekki íslenzk nema að nafninu til, en af greininni verður þó ekki annað sjeð, en að gert sje ráð fyrir að skip hlutafjelags sje íslenzkt, þótt það sje eign danskra manna, sem allir hafi búsetu í Danmörku.

Jeg get ekki greitt þessu atkv. mitt, og vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að breyta þessu til 3. umr.