31.07.1913
Efri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

26. mál, sparisjóðir

Steingrímur Jónsson:

Aðalástæðan til þess, að jeg stend upp, er sú, að jeg og háttv. 2. kgk. þm. (E. Br.) gátum ekki orðið háttv. samnefndarmönnum okkar samdóma um eitt atriði. Við lítum svo á, að til þess að þessi mikilsverða rjettarbót, sem hjer er um að ræða, gæti komið að þeim notum, sem æskilegt er, sje nauðsynlegt, að ákvæði stjórnarfrumvarpsins um umsjónarmann sparisjóðanna sje haldið. Við teljum þörf á þessum umsjónarmanni til að koma lögunum í framkvæmd og sjerstaklega til að byrja framkvæmd á þeim. Við lítum svo á, að með þessu móti komi lögin fyrst að gagni, að með þessu ákvæði sje það fyrst trygt, að lögin verði meira en pappírsgagn, að þau komi að gagni í raun og veru. Meirihlutinn sá ekki þörf á þessum umsjónarmanni, og telur hann mundi verða of dýran. Jeg mun því, ef til nafnakalls kemur, greiða atkvæði móti 4. brtill. nefndarinnar og brtill. nefndarinnar við 22. og 23. gr. frv., sem standa í sambandi við 4. brtill. En ef ákvæðið í stjórnarfrv. um umsjónarmanninn verður felt, tel jeg ekki. hægt að hafa heppilegra fyrirkomulag í þessu efni en það, sem farið er fram á í brtill. við 22. gr, og 23. gr.

Þetta var, sem sagt, það sem aðallega kom mjer til að standa upp. En úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, ætla jeg að minnast nánar á málið, ennfremur í tilefni af ræðu háttv. 2. þm. Árn. (J. J.).

Fyrsta spurningin, er svara verður, er þetta er rætt, er þessi: Hver er tilgangur sparisjóða? Þetta verða menn að gera sjer ljóst. Aðaltilgangur sparisjóðanna er að safna fje og tryggja það fje, sem safnað er. Það er ekki aðaltilgangur þeirra að starfa sem lánsstofnun. Það er nauðsynlegt að hafa þetta hugfast, en menn hafa, því miður, mist sjónar á þessu, en einblínt á hitt, að sparisjóðir hefðu fje til útlána. Og einkum hefur alþýðu manna ekki verið það ljóst, að aðaltilgangur sparisjóða er að safna fje.

Þá er litið er í síðustu skýrslur um peningastofnanir landsmanna, þá sjest, að 1200 þús. kr. eru geymdar í sparisjóðum. Hjer er slept því, sem geymt er í Landsbankanum og Íslandsbanka og útibúum bankanna. Það er óhætt að gera ráð fyrir, að þessi upphæð hafi vaxið að stórum mun seinustu 2 árin. Því verður ekki neitað, að nauðsynlegt er, að gera ráðstafanir til að tryggja þetta fje. Hingað til hefur sama sem ekkert eftirlit verið haft með þessum sjóðum. Stjórnarráðinu hefur verið sent afrit af reikningum þeirra sparisjóða, sem hlunnindi eru veitt, samkvæmt tilskipun frá 5. jan. 1874.

Aðalhlutverk sparisjóðanna er, sem sagt, það, að safna og tryggja fje. Aðalhlutverk nefndarinnar hefur nú verið að samrýma nauðsynleg tryggingarákvæði við önnur hlutverk sparisjóða, eins og hv.2. þm. Arn. (J. J.) líka benti á. Nefndin hefur orðið að hafa það hugfast, að fara ekki lengra í viðleitni sinni að samþýða þetta tvent, en aðalhlutverk frv. fyrir nægilegri tryggingu leyfði.

Það er satt, að það hefur ekki borið mikið á því, að sparisjóðsfje hafi farið forgörðum. En þess ber að gæta, að sparisjóðir hafa mestmegnia starfað með sjálfskuldarábyrgarlánum. Það getur gengið vel fyrstu árin. Þau tapast ekki strax. Það eru gömlu lánin, sem hættulegust ern. En það hefur þó komið fyrir, að sparisjóður hefur farið um koll. Að vísu ekki nema einn enn. Það er ekki mikið, en það er nóg. Og jeg er það kunnugur þessu máli, að mjer er óhætt að segja, að dálítill vafi leikur á lánum sumra sparisjóða, hve trygg þau eru. Þegar hagur danskra sparisjóða var rannsakaður, kom það í ljós, að margt var óglæsilegra og ótryggara, en menn hugðu. Mjer þykir ekki ólíklegt, að ástandið kunni að vera svipað hjer.

Það var eðlilegt, að háttv. 2. þm. Arn. (J. J ) mintist á 13. gr., og þætti þar gengið ot nærri útlánsstarfsemi sparisjóðanna. Eins og nú er ástatt, er það óhjákvæmilega nauðsynlegt, að þeir sjeu einskonar smábankar í hjeruðunum. Nefndin hefur í samræmi við hlutverk sitt, er jeg gat um áðan, reynt að liðka hjer nokkuð til frá því, er ákveðið er í stjórnarfrumv.; hefur farið hjer meðalveg. Eftir stjórnarfrumvarpinu mátti eigi lána nema 42% í sjálfskuldarábyrgð og víxlum. Nefndin fer fram á að breyta þessu í 50 %. En svo er hjer annað ákvæði, er háttv. þm. Árn. (J. J.) hefur, ef til vill, ekki tekið eftir, og það er það, að eftir 2. gr. er stjórnarráðinu leyft að veita undanþágu frá ákvæðum laganna, og eftir 8. brtill. má þessi upphæð, 50%, vera hvort heldur vill víxillán eða sjálfskuldarábyrgðarlán. Og enn verður að minnast þess, að hjer er eingöngu átt við lán, er trygð eru með ábyrgð einstakra manna, en undantekin eru þau lán, sem veitt eru til sveitasjóða, og einnig þau lán, sem sumpart eru trygð með sjálfskuldarábyrgð, en jafnframt með annari tryggingu: fasteignarveði eða handveði. Hjer eru því ekki lögð svo mikil höft á útlán sparisjóðanna, sem í fyrstu kann að virðast. Takmarkið ætti að vera það, að sparisjóðir störfuðu sem minst með víxillánum og sjálfskuldarábyrgðarlánum, heldur veittu aðallega lán, er betur væru trygð, t. d. gegn fasteignarveði, handveði eða þessháttar. Nefndin treystist samt ekki að fara lengra í þessu efni, en jeg hef nú gert grein fyrir. Eftir stjórnarráðsfrumvarpinu mátti samanlögð upphæð lána gegn sjálfskuldarábyrgð einstakra manna ekki nema meiru en 1/3 af innstæðufjenu, svo að hjer hefur nokkuð verið rýmkað til. Nefndin hjelt, að þetta væri óhætt, einkum ef gætt er niðurlags 2. gr.

Háttv. 2. þm. Árn. (J. J.) mintist á, að það þyrfti nokkur ár til að koma þessu í lag, og getur það satt verið. Og það er satt, sem hann sagði, að hjá sæmilega gætinni sparisjóðsstjórn geti víxillán verið mjög hagkvæm og trygg, einkum ef þau eru smá, og því etti nefndin saman í eitt víxillán og sjálfskuldarábyrgðarlán.

Það getur ekki gengið, eins og viðgengizt hefur, að sparisjóðir hafi ekki tryggingarfje, er hægt sje að grípa bráðlega til. Á því getur ekki leikið vafi. En um hitt má deila, hve há þessi trygging eigi að vera, hvort hún sje hjer sett of hátt eða eigi. Það liggur í hlutarins eðli, að sparisjóðir, er geyma 50 þús. kr. í innstæðufje eða meira, verða að hafa eitthvert tryggingarfje, sem hægt sje að grípa til, þegar á liggur. Jeg hef hugsað mjer, að bezt væri, að þeir hefðu með höndum verðbrjef, en síður að þeir hefðu það í hlaupareikningi í bönkum. Það getur auðvitað oft komið fyrir, að þeir verði að neita um lán, en þeim fer þar þá líkt og bönkunum. Þeir fást mest við það nú að neita um lán.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira að þessu sinni.