01.08.1913
Efri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

72. mál, landskiptalög

Jón Jónatansson, framsögumaður:

Eins og nefndarálitið í þessu máli ber með sjer, hefur nefndin lagt það til, að frumvarpið verði samþykt, með nokkrum breytingum, sem hún leggur til, að á því verði gerðar. Skal jeg nú minnast lauslega á einstakar greinar frumvarpsins og jafnframt geta þeirra breytinga, sem nefndin leggur til að gerðar verði. Í fyrstu gr. eru ákvæði um, hvaða lönd komið geta til skifta, og það tekið fram, að hver eigandi geti krafizt skifta. Breytingartillaga nefndarinnar við þessa grein, er að eins orðabreyting, að í stað orðanna „sveitabýla, sem fleiri jarðir hafa til samnota“, komi „sveitajarða, sem fleiri býli hafa til samnota“. Við 2. gr. hefur nefndin ekki gert neina breytingartillögu. Ákvæðið um, að sýslumaður skuli nefna oddamann, er sett í því kyni að tryggja, að við skiftin sje, sem sjerþekkingu hefur, en á annan hátt virðist það tæplega verða trygt. Við 3. gr. er þess að geta, að rjett hefur þótt að láta ákvæðin um, að hver eigandi jarðar geti krafizt skifta, ekki ná til hlunninda, heldur skuli þá þurfa samþykki eigenda að meiri hluta landsins. Á þessari grein hefur nefndin ekki lagt til, að gerð yrði nein breyting. Þá er 4. grein. Brtill. nefndarinnar við þá grein er aðeinsorðabreyting. Í niðurlagi greinarinnar er sagt, að veðhafi geti heimtað yfirmat um 1 ár frá því að honum hafa verið tilkynt skiftin. En hjer þótti nefndinni þurfa skýrari fyrirmæli og leggur því, til að ákveðið sje beinlínis, að sýslumaður skuli tilkynna veðhafa skiftin. í stað orðanna „honum hafa verið tilkynt skiftin“ leggur því nefndin til að komi: „sýslumaður hefur tilkynt honum skiftin“. Um C lið þessarar breytingartillögu er það aðeins að segja, að nefndinni þótti fara betur á því, að ákvæðin um dagpeninga væru sett í sjerstaka grein, sem verður 5. grein. Um 5 gr. finn jeg ekki ástæðu til að segja mikið. Nefndin hefur ekki gert neina breytingartillögu við þessa grein. Ákvæðið um, að útektarmenn skuli kynna sjer nákvæmlega landamerki aðliggjandi jarðar er nauðsynlegt til þess, að fyrirbyggja að ágreiningur risi síðar um þetta efni. Um síðari lið greinarinnar er það eitt að segja,. að rjett virðist, að gefa í lögunum bendingu um, að úttektarmenn skuli reyna, ef þörf er á vegna skiftanna, að fá krókóttum og óhagkvæmum landamerkjum. breytt með samkomulagi við hlutaðeigendur.

6. gr. er aðeins bending um, að skifta skuli, svo að land hverrar jarðar liggi sem mest í samhengi, og að tilgreina skuli ástæður. ef þessu verður ekki við komið; er það einkum nauðsynlegt vegna yfirmats, er krafizt kynni að verða. Við 7. grein hefur nefndin gert 2 breytingartillögur. Greinin ræðir um, hvernig að skuli fara, þegar einn af eigendum að óskiftu sameignarlandi hefur tekið blett til ræktunar án samþykkis hinna. Nefndin vill leggja það til, að það sje aðalreglan, að hann fái að halda landinu, en verði því ekki komið við, sjeu honum metnar hæfilegar bætur í ræktunarkostnað, sem þeir greiði, er fá það land, sem hann hefur ræktað. Þá er 8. grein. Það hefur þótt rjett, að gefa bendingu um, að athugað væri við skiftin, hvernig fara skuli um þá vegi, sem liggja um sameignarlandið, og hvar þar skuli vegi leggja síðar meir, ef þörf gerist, til þess að fyrirbyggja, að það valdi vandræðum eftir á. Þá leggur nefndin það til, að bætt sje við þessa grein tveim nýjum málsgreinum. Þykir rjett að gefa þeim, er skifta, bendingu um að taka tillit til þess við skiftin, ef landinu er hætta búin af skemdum af völdum náttúrunnar, svo að síður verði hætt við ágreiningi, ef landspjöll verða eftir að landinu hefur verið skift. Um síðari málsgreinina er það sama að segja, að hún gefur bendingu um, að þess sje gætt við skiftin, að þau hindri ekki framræslu þar sem hennar er þörf. Það getur vel komið fyrir, að votlend landspilda lendi í hlut, eins þeirra, er landið áttu saman, og er þá nauðsynlegt, að hafa ákvæði um þetta efni. — 5. breytingartillaga nefndarinnar við 9. gr., er aðeins orðabreyting. Við 10. grein hefur nefndin ekki gert neina breytingartillögu. Það, sem þar er kveðið á um, að úttektarmenn skuli láta setja glögg merki fyrir því, hvernig þeir hafa skift, er aðallega gert vegna yfirmatsins, til þess að þá verði ekki vilzt um, hvernig undirmatsmenn hafa ákveðið merkin; en að skiftunum fullloknum, fer að sjálfsögðu um merkjagerð eftir því, sem landamerkjalögin skipa fyrir. Samkv. 11. grein eiga leiguliðar að hafa rjett til þess að krefjast, að skift sje milli þeirra slægjum og beit í óskiftu landi, en þau skifti geta auðvitað að eins orðið afnotaskifti. Þá er 12. grein. Það hefur þótt rjett, að heimila landeigendum, að gera skiftin sjálfir, ef þeir geta komið sjer saman um það, og aðrir hlutaðeigendur samþykkja. Þá hefur og þótt nauðsynlegt, að skiftin sjeu skráð greinilega og þeim síðan þinglýst. Breytingartillögur nefndarinnar við þessa grein eru aðeins orðabreytingar. Seinni liður þessarar greinar fer fram á það, að ef einhver hefur látið meira land af hendi, en hann fjekk á móti að rjettri tiltölu, skuli það tilkynt sýslumanni, svo að hann geti breytt skattgreiðslunni eftir því. 13. grein var upphaflega sett í frumvarpið í því kyni að veita leiguliða, ef hann telur afnotum sínum spilt við skiftin, rjett til að láta úttektarmenn skera úr málinu og meta sjer sanngjarnar bætur. Hefur þetta verið gert til þess að hindra málaþras. Nefndin hyggur, að þetta muni mjög sjaldan koma fyrir og hyggur nægja, að taka upp í 4. gr. ákvæði um, að bjóða skuli leiguliðum að vera við skiftin, í stað þess að heimila þeim að heimta bætur eftir á; gerir hún ráð fyrir, að þeir, sem skiftin gera, taki svo mikið tillit til hagsmuna leiguliða og athugasemda þeirra, sem hann gerir, að varla muni koma fyrir, að hagsmunum hans sje spilt. Leggjum vjer því til, að 13 gr. sje feld burtu, en í stað hennar samþykt breytingartillaga nefndarinnar við 4. grein.

Við 14. grein hefur nefndin enga breytingartillögu gert. Það hefur þótt rjett, að setja ákvæði um, hvernig fara skuli um skógarhögg og mótak í óskiftum sameignarlöndum til þess að fyrirbyggja, að af því geti risið ágreiningur. í 15. grein er sagt, hvernig fara skuli um sambeit. Nefndin hefur ekki gert neina breytingatillögu við þessa grein, en þykir rjettara, að nánar sje kveðið á um, hvernig ítölu skuli meta. Leggur hún til, að orðin „fyrir sinn eigin búpening eða“ falli burt og að tveim nýjum málsgreinum verði bætt aftan við greinina, þar sem ákveðið verði, hver vera skuli grundvöllur matsins. Hyggur nefndin, að ef sumir hafa meira fje í haga, en þeim ber, geti svo farið, að hinir fari í kapphlaup við þá og yfirfylli svo hagana, ef engin takmörk eru sett fyrir þessu. Slíkt er ótækt, og þykir því jett, að setja inn í frumvarpið ákvæði um, að meta skuli, hve mikinn fjenað má hafa í högunum að skaðlausu. Eru engar líkur til, að nein vandræði verði með að meta slíkt, því úttektarmenn verða að jafnaði kunnugir jörðum þeim, sem þeir skifta og geta auk þess stuðzt við skýrslur annara kunnugra manna. Þá þykir og rjett, að ef einhver hefur minna fje í haga, en hann hefur rjett til, skuli sameignarmenn hafa forgangsrjett gegn endurgaldi, til að fylla ítölu hans fyrir öðrum út í frá.

Hef jeg nú minzt á einstakar greinar frumvarpsins og jafnframt getið þeirra breytinga, sem nefndin leggur til að gerðar verði, og finn jeg ekki ástæðu til að orðlengja frekar um frumvarpið að sinni, enda er í nefndarálitinu gerð glögg grein fyrir tillögum nefndarinnar og áliti hennar á málinu. Vona jeg, að háttvirt deild verði nefndinni sammála um að samþykkja frumvarpið og afgreiða það frá þessari deild.

Var þá umræðum lokið og gengið til atkvæða um einstakar greinar frumvarpsins.

1. brtill. á þgskj. 218 samþ. án atkvæðagreiðslu.

1. gr. frv. samþ. með 12 shlj. atkv.

2. og 3. gr. hvor um sig samþ. í einu hljóði.

2. brtill. á þgskj. 218, liðirnir a, b og c samþ. hver um sig án atkv.

4. gr. frv., þannig breytt, var því næst í samþ. með 11 samhlj. atkv.

5. og 6. gr., hvor um sig, var samþ. með 11 samhlj. atkv.

3. brtill. á þgsk. 218, a liður, var samþ. án atkv. greiðslu.

b liður var samþ. með 10 shlj. atkv.

7. gr. frv., þannig breytt, var samþ. með 11 samhlj. atkv.

4. brtill. við 8. gr. (þgsk. 218), fyrri liður, var samþ. án atkv.greiðslu; síðari liður með 11 samhlj. atkv.

8. gr. þannig breytt, var sþ. með 10. samhlj. atkv.

5. brtill. á þgsk. 218 við 9. gr. var samþ. án atkvæðagreiðslu.

9. gr. þannig breytt, var sþ. með 11 samhlj. atkv.

10. gr. frv. var sþ. með 9: 1 atkv.

11. gr. frv. var sþ. með 9: 1 atkv.

6. brtill. á þgskj. 218, liðirnir a, b og c við 12. gr. voru sþ. hver um sig, án atkvæðagreiðslu.

12. gr., þannig breytt, var sþ. með 11 samhlj. atkv.

7 brtil. á þgsk. 218 um, að 13. gr. falli burt, var sþ. með 11 shlj. atkv.

13. gr. frv. þar með fallin.

14. gr. frv., sem verður 13. gr., var sþ. með 10 samhlj. atkv.

8. brtill. á þgsk. 218 við 15. gr., a liður var sþ, með 11 shlj. atkv. og b liður sömul. með 11 samhlj. atkv.

15. gr. frv., sem verður 14. gr., þannig breytt, samþ. með 11 samhlj. atkv.

Fyrirsögn frv. var sþ. án atkvæðagreiðslu

Frv. var vísað til 3, umr. í einu hljóði