02.08.1913
Efri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Björnsson, framsögumaður:

Nefndin, sem hafði þetta mál til meðferðar, hefur í nefndaráliti sínu, sem prentað er á þingskj. 263, gert fulla grein fyrir skoðun sinni og helztu breytingartillögum sínum, og jeg tel enga ástæðu til að bæta mörgu þar við að svo stöddu.

Þó breytingarnar sjeu nokkuð margar, þá raska þær ekki efni eða eðli þessa frumv., en að nefndin kemur með þær, er að miklu leyti sprottið af umræðum þeim, er haldnar voru hjer við fyrstu umræðu þessa máls.

Það var ýmislegt þá tekið fram, er nefndin hefur viljað taka sem mest tillit til, og væntir hún, að hún hafi gert það svo, að háttv. þm. geti ljeð frumv. fylgi sitt.

Gjaldið er lækkað í breytingartillögum nefndarinnar úr 1 kr. á kvenmann niður í 60 aura, og landssjóðstillagið er lækkað úr 50 aurum niður í 40 aura.

Nefndin hefur fallizt á, að sjóðurinn sje ávaxaður í Landsbankanum. Það er rætt. um það bæði utan þings og innan, að hann þurfi meira starfsfje, og nefndin lítur svo á, að með þessu frumv. aukist starfsfje hans mikið. Hinsvegar leit nefndin svo á, að setja yrði einhverja tryggingu fyrir því, að fjeð væri til taks, þegar á þyrfti að halda. Margir hafa látið í ljósi, að hallærissjóðinn allan þyrfti að geyma í handbærum verðbrjetum, sem hægt væri að taka til, hvenær sem þyrfti.

Þá er breytingartillagan við 6 gr. Nefndin áleit, að betur færi á, að stjórnarráðið hefði einhvern fyrir sína hönd til að hafa á hendi gæzlu hallærissjóðsins og hefur því gert þessa breytingartillögu. Hún álítur, að gæzlan verði tryggari með því.

Helzta breyting nefndarinnar er sú, að fjórar greinar (um gjaldmátann) eru teknar burtu, en í stað þeirra settar fjórar nýar greinar. Nefndin lítur svo á, að fyrirkomulag sóknargjaldalaganna sje hjer hentugra en hin vafningsmikla aðferð í ellistyrktarsjóðslögunum.

Nefndin hefur rætt um það, hvort ekki mundi ráðlegt, að sleppa nefskatti og hafa gjaldið eftir efnum og ástæðum. Nefndin áleit rjettast, að láta sveitarstjórnirnar sjálfráðar; um það er 8. grein. Samkvæmt henni geta sveitastjórnirnar lagt gjöldin á með þrennu móti: 1. greitt alt gjaldið úr sveitarsjóði, og látið það vera innifalið í útsvörum; — 2. lagt það á eftir efnum og ástæðum; 3. lagt það á sem nefskatt.

Nefndin áleit affarasælast að sveitarstjórnirnar fengi að ráða þessu. Í sóknargjaldalögunum og ellistyrktarsjóðslögunum er gjaldið fastbundið persónugjald. Nefndin áleit bezt að nota þær aðferðir, er mönnum eru kunnar, og þá er engum blöðum um það að fletta, að sóknargjöldin eru miklu einfaldari.

Mjer hefur verið bent á það, að það þyrfti að takast fram í 2. gr., hvenær gjaldið fjelli í gjalddaga, og er það rjett og verður athugað á undan þriðju umræðu.

Í 6. breytingartillögu, a, við 11. grein hefur orðið prentvilla. Innheimtulaun fyrir: Innheimtumenn.

Eftir efni fer nú bezt á því, að 12. grein verði 11. gr. og 11. grein 12. grein.

Í 14. gr. frumv. var gert ráð fyrir, að sýslunefndir og bæjarstjórnir mættu hækka gjaldið upp í 2 krónur; en nefndin leggur til, að þessari heimild sje breytt svo, að eigi megi hækka upprunalega gjaldið meira en um 50%, eða á karlmanninn um 50 sura og kvennmanninn um 30 aura. Ef ein sýsla þarf að jeta upp alla sjereign sína, og auk þess taka lán, þá getur hún haft hag af því, að hækka gjaldið, til þess að komast sem fyrst úr skuldinni.

Nefndin gerir sjer von um, að frumv. fái góðar viðtökur hjer í háttv. deild, eins og það hefur átt góðum vinsældum að fagna hjá þjóðinni.