02.08.1913
Efri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

93. mál, hallærisvarnir

Sigurður Eggerz:

Jeg get ekki neitað því, að mjer þykir nokkuð mikið hallærishljóðið í deildinni, þar sem háttv. 6. kgk. þm. taldi þetta aðalsjálfstæðismál þjóðarinnar, en önnur mál að eins stássmál.

Það neitar því víst enginn, að það sje gott að eiga sjóð. En þess verður að gæta, að hjer er að ræða um allálitlega upphæð, 60 þús. kr. En jeg vil biðja menn að athuga, hvað hægt væri að gera við þetta fje á annan hátt, hve mjög væri hægt að bæta atvinnuvegi þjóðarinnar með bættum samgöngum á sjó og landi og fleiru, svo að hún verði á þann hátt færari til að rísa undir hallærum, er þau ber að hendi. Það er auðsætt, að því betur sem þjóðin er efnum búin, því betur fær hún staðizt aðköst hörðu áranna, og jeg endurtek það: Jeg bið menn að athuga, hvað gera megi með þessu fje á annan hátt en hjer er farið fram á, til eflingar atvinnuvegunum.

Háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) fór mörgum hjartnæmum orðum um, að það yrði að sjá fyrir fátæklingunum, ef hallæri bæri að höndum. En mig furðar á, að hinn sami háttv. þm. (G. Bj.), sem hugsar svo mikið um fátæklingana í framtíðinni, skuli hugsa svo lítið um fátæklinga í nútíðinni. Allir sjá, hvílíkt himinhrópandi ranglæti nefskattur er. Fátæklingurinn, sem varla getur sjeð fyrir fjölskyldu sinni til næsta máls, skilur ekki hollu ráðin ríka mannsins, um að leggja fje í sjóð. Hvaðan koma honum peningar til þess? Fátæklingurinn verður fyrst að hugsa um, hvernig hann eigi að fá mat til næsta máls, áður en hann fer að hugsa lengra fram, fyrir löngu ókomnum tímum. Það verður að fara með gætni í að leggja skatt á öreigana. Og hvaða nauðsyn er til að fara þessa leið ? Hví má ekki leggja þessa skatta á eftir einhverjum rjettlátari mælikvarða. Eða ef þörf er á sjóðum, því má þá ekki taka þetta fje úr landssjóði? Jeg sje enga ástæðu til að koma þessu mikla hallærissjóðsstjórnarbákni á fót. Ef menn finna ástæðu til að veita fje til hallærisstyrks, hví má þá ekki láta sýslunefndir og hreppsnefndir og stjórnarráðið hafa með þetta að sýsla, eins og venjan er. Því þarf að búa til nýjar stjórnir og langa skrifstofuleið ?