08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er algerlega samdóma hv. þm. Ísaf. (Sig. Stef.) og hv. 3. kgk. (Stgr. J.) um, að rjett sje að samþykkja þetta frv., vegna þess að það kemur algerlega í bága við afnám eftirlauna, því eg get ekki fallizt á það, sem hv. 2. þm. Skgf. sagði, að hjer væri um alt annað en eftirlaun að ræða. Jeg get ekki sjeð, að brtill. nefndarinnar hafi mikla þýðingu, því þótt ákveðið sje, að tillag landssjóðs skuli falla niður, að 9 árum liðnum, getur þetta ákvæði orðið þýðingarlítið. Á þeim tíma verða haldin 4–6 þing, sem hafa ráð á að breyta þessu og framlengja tillagið og mjer þykir ekkert líklegra, en að það verði orðið tvö- eða þrefalt, að þeim tíma liðnum. Að tala um þetta sem ellistyrk, er hin mesta fjarstæða, því að hjer er aðeins um eftirlaun að ræða, og sjezt það beint á því, að í 3. gr. er ákveðið, að ef kennari andist, megi veita ekkju hans eða börnum styrk þann, er hann hefði getað orðið aðnjótandi. Þetta er alveg sami andinn og í eftirlaunalögunum. Jeg mun því verða frumvarpinu samþykkur, vegna þess að jeg álit, að það gangi í alveg rjetta átt, og það gleður mig, að þeir menn, sem hæst tala við kjósendur sína um afnám eftirlauna, en flytja svo annað eins frv. og þetta inn á þingið, geta orðið sjer til athlægis og minkunar fyrir fylgi sitt við þetta mál, annað hvort í nútíð eða framtíð.