08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Jósef Björnsson:

Jeg ætla að fara örfáum orðum um ræðu hv. þm. Strand. Hann sagði, að það ákvæði væri lítilsvert, að tillagið fjelli niður eftir ákveðinn tíma.

Hann ræður sinni meiningu um þetta atriði, og jeg skal ekki deila við hann um það, hvort þessi skoðun hans er rjett eða ekki, en jeg ætla aðeins að benda á, að slíkt má segja um öll lög, að þau eru ekki sett fyrir tíma og eilífð, heldur geta síðari þing breytt þeim eftir vild sinni, og þessu sama hljóta þau lög að lúta, sem hjer ræðir um. En þetta þarf ekki að hindra lagasetningu og gerir það ekki. Mörg lagaákvæði standa lengi, þótt hægt væri að breyta þeim, og má vel vera, að svo fari um þetta mál. Sami hv. þm. sagði, að það væri fjarstæða, að telja þetta ellistyrk, en jeg segi, að þetta er engin fjarstæða. Hann vildi rökstyðja þetta með því, að í frv. væri ákveðið, að ekkju og börnum látins kennara megi veita styrk þann, sem kennarinn hefði getað orðið aðnjótandi, ef hann hefði lifað. Það er alveg rjett, að þessum aðstandendum kennarans má veita styrk, en þetta er alt annað en ákvæði eftirlaunalaganna, því að þar er sagt, að ekki einungis megi heldur skuli veita ekkju og börnum embættismanna eftirlaunastyrk, og jeg vona, að þingmaðurinn skilji muninn á má og skal. Sami þm. sagði ennfremur, að hann mundi greiða atkvæði með þessu máli, vegna þess að með fylgi sínu yrðu þessir eftirlaunaglamrarar sjer til athlægis og minkunnar hjá þjóðinni. Jeg tek mjer það ljett, þótt þingmaðurinn tali þetta til mín eða nefndarinnar, en jeg verð að segja, að jeg öfunda hann ekki að þeim tvísýna heiðri, að greiða atkvæði með nokkru frv., aðeins til þess að samþingismenn hans verði sjer til minkunar og að athlægi, eins og orð hans lágu til. Ef til vill yrði slíkt nefnt einhverju miður fögru nafni.