08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson, frsm.; Lýsa vil jeg yfir því, að nefndin getur ekki aðhylzt brtill. á þgskj. 318.

Til þess liggja aðallega tvær orsakir. Fyrri orsökin til þess er sú, að framlagið til að leggja símann er tiltölulega lítið úr hlutaðeigandi hjeruðum og minna en á ýmsum stöðum öðrum, miðað við alla upphæðina, er símalínan kostaði.

Hjeruðin lögðu til þessa síma 20 þús. kr., en í fjáraukalögunum er lagt til, að þeim verði endurborgaðar 5 þús. kr., og verður því framlag þeirra aðeins 15 þús. kr., en. sími þessi kostaði als 78 þús. kr. Hjeruðin hafa því lagt fram tæplega 1/5 hluta upphæðarinnar, og kemst ekki í neinn samanburð við framlag hjeraðanna til Siglufjarðarsímans, sem lögðu fram 10 þús. kr af 35 þús. als eða 2/7 upphæðarinnar. Ef hjeruðin vestra hefðu lagt jafnmikið hlutfallslega fram, þá hefðu þau átt að leggja fram óskornar 22 þús. kr. í stað 15 þús. kr.

Önnur orsökin er sú, að þótt símalína þessi borgi sig vel, þá er hún ekki með hinum fremstu í því efni, og hún gefur ekki tiltölulega við stofnkostnað jafn mikinn ágóða og Siglufjarðarsíminn. Það er því ætt við því, að ef brtill. verður samþykt, þá kunni hún að draga dilk á eftir sjer, og aðrar símalínur koma, er þykjast hafa og hafa eins mikinn rjett til þess, að verða 1. fl. lína og þessi. Vil jeg þar sjerstaklega nefna til símalínuna frá Breiðumýri til Húsavíkur, er stendur eins vel að vígi; annað hvort að verða þá tekin upp í 1. flokk, eða þá að fá endurgreiðslu á framlaginu að meira eða minna leyti.

Af þessum ástæðum er nefndin mótfallin breytingartillögunni, og leggur til, að hún sje feld.