08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ef tillagan um Siglufjarðarsímann fær framgang, þá er jeg viss um, að mörg hjeruð koma á eftir með alveg eins rjett mætar kröfur eins og Siglfirðingar. Og hvernig á að fara að neita þeim, þegar hinir hafa fengið sínu framgengt ? Sje þeim veitt áheyrn — og hjá því er ekki auðvelt að komast — þá fer eins og jeg sagði áðan:

það kemst truflun á símalagninguna og við það vaknar óánægja, eða mjög mikil útgjöld lenda á landssjóði, fram yfir það, sem til var ætlazt.

En þótt það sje bagalegt, að komast inn á óheppilegar brautir með fjármál landsins, þá er þó annað, sem enn síður verður unað við, og það er, að landsmenn sjeu beittir misrjetti. Slíkt má ekki eiga sjer stað.

Úr því nú er verið að komast út á þá braut, sem leiðir til ívilnunar fyrir einstök hjeruð, þá verðum vjer svo sem mest má verða, að sjá um, að ekki komi fram misrjetti hjeraða á milli. Með þetta fyrir augum get jeg ekki annað en greitt atkvæði með brtill. á þgskj. 318; því hvorki get jeg nje vil ljá atkvæði mitt til að skapa misrjett. Meira að segja, verði málið tekið út af dagskrá, og komi fram brtill. um hjeruð, sem líkt er háttað, hlýt jeg að verða þeim fylgjandi bæði rjettsýninnar vegna, og til þess að hv. Nd. verði sem ljósast, hvaða dilk brtill. nefndarinnar um Siglufjarðarsímann hlýtur að draga á eftir sjer.