16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (188)

14. mál, vitagjald

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Eg hirði ekki að hafa það upp aftur, sem nefndin hefir skrifað um þetta mál. Eg býst við að háttv. þingmenn hafi lesið nefndarálitið og kynt sér málið þar. Eg get því látið mér nægja, að drepa lauslega á ýmis atriði, sem við höfum lagt til að samþykt yrðu.

Eins og háttv. þingmenn sjá á nefndarálitinu, leggjum við það til, að frv. stjórnarinnar verði samþykt með nokkrum breytingum. En með því að breytingartillögurnar við þessa einu grein voru svo margvíslegar, kusum Við heldur að búa til alveg nýja grein, en það ætti ekki að standa í vegi fyrir því, að hæstv. forseti geti skift henni í sundur við atkvæðagreiðsluna, svo að menn geti felt það burt, sem þeir vilja og greinin verði svo samin upp samkvæmt atkvæðagreiðslunni.

Svo sem kunnugt er, hefir stjórninni borist málaleitun þess efnis að skemtiferðaskip, sem kæmu hingað til landsins, væru undanþegin vitagjaldi. Stjórninni skildist þessi málaleitun svo, og sama hefir ræðismaður Þjóðverja skýrt frá, að þessi skip, sem munu hafa gefið aðaltilefnið til þessarar málaleitunar. —þýzku skemtiferðaskipin sem koma hingað á hverju sumri — mundu ekki sjá sér fært að halda þessum ferðum áfram, nema þau yrðu undanþegin Vitgjaldinu. Nefndin tók þetta ekki sem neina ógnun, sem við yrðum að láta undan, heldur leizt henni sem hér væri að eins um fjárspursmál að ræða. Stjórnin hefir lagt það til, að þessi skip yrðu að öllu undanþegin vitagjaldi, en því sá nefndin sér ekki fært að fylgja. Enda væri það óhæfilegt, einkum þegar þess er gætt, að slík undanþága mun ekki eiga sér stað nema í einstaka löndum öðrum. Hinu vildi nefndi ganga að, að þau skip, sem kæmu hingað á þeim tímum, sem ekki væri kveikt á neinum vita, væru undanþegin gjaldinu. Það er ekki nema sanngirni. Og svo mun einnig vera, að skemtiferðaskip koma aðallega hingað til lands á sumrum, þegar engir vitar brenna. Eg vil taka það fram sérstaklega, að nefndin leggur þann skilning í orðið skemtiferðaskip, að það séu skip, sem gerð eru út í þeim einum tilgangi, að flytja ferðamenn hingað, en ekki hin, sem eru notuð til annars aðallega, þótt þau kunni að flytja ferðamenn með sér jafnframt, svo sem t. d. skip Sameinaða félagsins. Það er áreiðanlegt, að þessi skip flytja landinu meiri arð en vitagjaldinu nemur. Það sem farþegar þeirra hafa keypt af póststjórninni,nemur jafnmiklu og vitagjaldið. Fram yfir höfum við þá allan þann arð, sem Íslendingar hafa af því að leigja þeim hesta, selja mat, kaffi og ýmsa muni, sem þeir kaupa af kaupmönnum, á Thorvaldsens bazarnum o. s. frv. Persónulega er mér þetta ekkert kappsmál, en nefndin áleit rétt að taka að tillit til málaleitunarinnar að hún vill ganga að því, að slík skip, sem koma hingað á tímabilinu 14. Maí –15. Ágúst séu undanþegin vitagjaldi. Álít eg svo ónauðsynlegt að eyða frekari orðum að þessu atriði. HV. þm. munu sjá auðsæjar ástæður bæði með og móti.

Þá er annað atriði, nfl. það, hvort beri að undanþiggja vitagjaldi skip, sem leita hafna annaðhvort til viðgerða eða úr hrakningi.

Eg skal játa það, að sjálfum mér liggur það næst hjarta að undanþiggja þau ekki, vegna þess, að aldrei munu skipin njóta meira gagns af vitum eða annari leiðsögu, heldur en þegar þau eru í nauðum stödd. svo er það líka annað atriði, sem ber að líta á, og það er það, að við undanþiggjum ekki okkar eigin fiskiskip vitagjaldi, sem allar aðrar þjóðir gera. Englendingar undanþiggja jafnvel öll fiskiskip, hverrar þjóðar sem þau eru. Það virðist því harla ósanngjarnt að lækka byrðarnar á þessum skipum, sem hér er um að ræða, en standa einir uppi með það að heimta vitagjald af fiskiskipum okkar. En meiri hluti nefndar var því fylgjandi, að rétt væri að undanþiggja þessi skip. Ekki svo mjög vegna þess, að sanngirni mælti með því, heldur vegna, hins að það væri regla allra nágranna-þjóðanna og bæri því fremur að skoða þetta sem hæversku og vinsemd við þær. Einnig lítum við svo á, að þetta mundi aldrei geta bakað landssjóði verulegt fjártjón, vegna þess að flest af þeim skipum, sem hér leituðu hafnar í nauð, mundu samt sem áður fara inn á einhverja aðra höfn og borga vitagjald þar. Auðvitað gæti þetta komið nokkrum Skipum undan vitagjaldi, en þau yrðu tiltölulega mjög fá, vegna þess að við liggjum ekki í neinni þjóðleið, svo að lítið sem ekkert fjártjón gæti orðið að. Einu skipin, sem slíkt gæti hugsast um, væru t. d. hvalveiðamenn og selaveiðarar í Norðurhöfum, sem kæmu hér inn á neyðarhöfn, en ætluðu annars alls ekki að koma hér við — sem og Grænlandsför ástvina okkar. Væri það hart að fara að taka gjald af þeim, þegar þau kæmu hingað, án þess að hafa ætlað sér það og þess utan úr hrakningum. En þann varnagla vildi þó nefndin setja., að ómögulegt væri að nota þessa undanþágu sem skálkaskjól til þess að komast undan lögmæltum gjöldum. Til þess að koma í veg fyrir það, stingur nefndin upp á því, að þau skip ein komist undir þessi lög, sem geti sýnt fram á það við sjópróf, eða með annari lögfullri sönnun, að þau hafi verið í nauðum stödd. En hvenær skip séu í nauð, telur nefndin upp að sé, þegar þau hafa orðið fyrir árekstri af öðrum skipum eða rekist á sker, þegar þau hafa orðið fyrir skemdum af sjávargangi, þegar veikindi eru á skipinu eða það flýr undan voða, t. d. herskipi eða ræningjum.

Með nefndarálitinu fylgja prentaðar skýrslur um það, hver sé venja annara þjóða í þessum efnum. Því miður hefir þar fallið undan skýrsla um lagareglur Þjóðverja, en væntanlega hagar þar líkt til og hjá Englendingum, því að þeir eru fyrirmynd flestra annara þjóða í þessum efnum, bæði að frjálslyndi og að heppilegu fyrirkomulagi. Raunar er dálítið öðru máli að gegna um þessi lönd, sem liggja á þjóðleið, eins og t. d. England. Þar fara öll skip fram hjá, sem halda úr Eystrasalti eða norðlægari löndunum vestur eða suður og getur því verið ástæða fyrir þá að laða þessi skip til sín til kolakaupa með frjáislegri löggjöf. Um okkur er öðru máli að gegna. Við liggjum ekki í þjóðleið og þau skip, sem hingað koma, eru misst skip sjósóknara, sem ekki er ástæða til að hlífa við réttmætum gjöldum. Niðurstaða nefndarinnar varð því, eins og eg hefi sagt, að þetta skyldi einungis gert af hæversku og í vinfanga skyni.

Þá er þriðja breytingin, sem eg og margir aðrir leggja mesta áherzlu á. Það er viðvíkjandi vitagjaldi af íslenzkum fiskiskipum. Í gildandi lögum er svo ákveðið, að þau íslenzku fiskiskip, er aldrei fari utan, skuli að eins gjalda vitagjald einu sinni á ári. Nefndin leggur til, að þessi orð “aldrei fari utan„ verði feld burtu, vegna þess að með því ákvæði er íslenzkum botnvörpungum gert að skyldu að greiða vitagjald í hvert sinn og þau koma frá markaðinum í Englandi, er þau hafa selt afla sinn. Það er alveg óþolandi, að nokkur hluti af skipastól okkar verði harðara úti en annar. Sama reglan á auðvitað að gilda um öll íslenzk fiskiskip. Það er meira en nóg, að við undanþiggjum þau ekki þeim gjöldum, sem allar aðrar þjóðir leysa þau undan. Mér virðist satt að segja, að alveg sama máli eigi að gegna um vitagerð sem um vegabætur á landi. Mönnum er ekki gert að skyldu að borga sérstakt gjald í hvert skifti og þeir fara um einhvern veg, eða gjalda brúartoll eða þ. u. l., en sjómennirnir verða að borga sérstaklega fyrir hvern leiðarvísi. Þetta er misrétti, því að sjórinn er sannarlega ekki svo glögg gata, að síður sé ástæða til að varða hann en t. d. sandana. Nefndin lét þetta samt standa óbreytt. Hitt vildi hún ekki, að gert væri upp á milli einstakra skipa í skipastól okkar. Því að hvað er það sem vér gerum gagnvart botnvörpungunum með þessu ákvæði? Það er ekki annað en það, að við leggjum á þá fjársekt, jafnháa og vitagjaldinu nemur, í hvert skifti sem þeir flytja fisk sinn til Englands, og það einmitt þegar þeir eru að framkvæma þá hugsjón, sem lengi hefir fyrir okkur vakað og vakir enn, að flytja sjálfir okkar eigin vörur á heimsmarkaðinn. Þeir fá ekki verðlaun fyrir það, eins og þeir ættu skilið, heldur eru lögð á þá aukin gjöld. Og það er ekki af því að þeir slíti vitunum meira en önnur skip, sem kyr liggja, þegar þeir eru að gera gagn. Eg get ekki séð, að nokkur sannsýni né vit sé í þessu og vil mæla fastlega með því að þetta ákvæði laganna frá 1911 sé felt burtu.

Aðrar br.till., sem nefndin hefir komið fram með, eru ekki annað en orðabreytingar. T. d. viljum við heldur að standi í frumvarpinu orðin: “Sem landsmenn halda úti„, en orðin: “haldið út hér við land„ því að það er tvírætt og gæti valdið því, að fleiri kæmu undir þessa grein, en tilætlunin er.

Skal eg svo ekki orðlengja þetta meira, en leyfi mér að benda til nefndarálitsins og þeirra ástæðna, sem þar eru leiddar.