09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

25. mál, sjódómar og réttarfar í sjómálum

Brtill. við 9. gr., b-lið, getur nefndin aðhylzt, a:

að í stað orðanna: „muni rækja“ komi: „skuli rækja“. Það er lítill munur og varðar engu, hvort orðalagið er haft. En um a-liðinn, þar sem um er að gera að útvega túlk, þegar enginn sjódómsmanna „getur og vill túlka“, þá lítur nefndin svo á, að það muni að vísu litlu, hvort sagt er: „getur og vill“, eða „getur nje vill“. En hún hyggur þó, að rjettara sje að hafa „og“, því að það getur hugsazt, að maður geti túlkað, en vilji það ekki, eða vilji túlka, en geti það ekki. Nefndin getur því ekki mælt með þessari artill.

Brtill. við 10. gr. aðhyllist nefndin.

Þá er brtill. við 12. gr., að í staðinn fyrir „óforsvaranlega“ komi: „óhæfilega“. Lögfræðingar hafa sagt mjer, að í lagamálum sje ekki sama merking í þessum orðum. Jeg þykist vita, að háttv. þm. hafi komið fram með þessa tillögu af umhyggju fyrir móðurmálinu, og skal jeg sízt lasta það. Móðurmálið virði jeg mjög mikils og er honum þakklátur fyrir umvöndun hans í þá átt. En jeg held nú samt, að „óforsvaranlega“ sje forsvaranleg íslenzka; tel þó ekki forsvaranlegt, að fara lengra út í þá sálma. Víst er það, að þá væri vel, ef aldrei hrytu verri orð af vörum eða á pappírinn en þetta er.

Síðustu brtill. við 14. gr. aðhyllist nefndin. Það eru því 3 brtill., sem nefndin fellst á, en hinar getur hún ekki sjeð að sje nauðsynlegar.