09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

93. mál, hallærisvarnir

Sigurður Stefánsson:

Jeg kann ekki vel við, að mál þetta fari svo út úr deildinni, að jeg geri ekki grein fyrir afstöðu minni til þess.

Jeg lái hv. flm. ekki, þó að hann hafi komið fram með þetta frv. Jeg kannast fúslega við, að hjer sje um hið mesta og alvarlegasta mál að ræða. En það er ekki aðeins hið næsta alvörumál, það er líka hið mesta vandamál. Það er svo vandasamt, að jeg fæ ekki sjeð, að neitt eitt þing geti afgreitt það, svo að í góðu lagi sje. Ef það er nokkurt mál á þessu landi, er þyrfti eigi aðeins undirbúning eins þings, heldur undirbúning allra stjórnarvalda landsins, þá er það þetta mál. Ákvæði þess ná til allra einstaklinga landsins. Því væri það áriðandi, eins og jeg sagði, að öll stjórnarvöld, alt frá hreppsnefndum upp í stjórnarráð, væru spurð ráða. Jeg er þess viss, að sveitastjórnirnar mundu taka þetta merkilega mál til alvarlegrar íhugunar, ef það kæmi til þeirra kasta. Þær mundu flestar finna til þeirrar ábyrgðar, er þær bökuðu sjer, ef þær köstuðu slíku stórmáli frá sjer hugsunarlaust. Það er því siður en svo, að jeg telji mál þetta lítilsvert. Jeg tel það þvert á móti svo stórfelt og mikilsvert, að eigi megi hrapa að því að afgreiða það hugsunarlítið, áður en heyrðar eru tillögur þeirra manna, er sjerstaklega eiga að hafa framkvæmd laganna á hendi.

Annars lít jeg svo á, að alt of mikið hafi verið gert úr hallærishættunni, er vofa á yfir landinu, í umræðum um þetta mál hjer í deildinni. Flm. hafa málað hana með alt of svörtum litum. Það hefur komið mjer svo fyrir sjónir, sem þeir töluðu eins og þeir fremur væru uppi á 18. öld, heldur en þeir væru uppi nú í byrjun 20. aldar. Það voru áður á öldum ekki altaf eldgos og hafís, sem öllu hallæri í landinu, heldur eins opt siglingaleysi til landsins. Langt fram á 19. öld kom aðeins eitt skip í sýslu á ári. Nú er þessi orsök til misæris að mestu leyti horfin. Nú koma skip svo hundruðum skiftir árlega til landsins, hlaðin lífsnauðsynjum landsmanna. Enginn getur heldur talið mig á þá skoðun, að hafís sje eins geigvænlegur nú, og hann áður var. Skipakostur er nú allur annar en í gamla daga; þá var siglt hingað á seglskipum, og þeim flestum illa útbúnum við það sem nú er. Nú eru slík skip horfin. Vjer vitum það, að seglskip þykja nú ófær í ís, enda þött þau sjeu mjög góð og vönduð. Gufuskipum og gufuskipaferðum stafar miklu minni hætta af hafís en áður. Þetta vil jeg taka fram gegn því, er talað hefur verið um allar þær skelfingar, er vofa eiga yfir landinu af hafísnum. Og enn vil jeg bæta því við, að því er svo varið og hefur verið það frá alda öðli, að það eru stór svæði á landinu, þar sem aldrei þarf að óttast að hafísinn tálmi skipagöngum. Á jeg hjer við strandlengjuna frá Horni og sunnan um land alt austur undir Austfirði. Á þessu svæði teppast samgöngur og siglingar aldrei af hafís, eða að minsta kosti örsjaldan. Á hinu svæðinu, þar sem samgöngur geta tepzt, er hættan miklu minni en áður var. Hafísinn er ekki gufuskipaferðunum eins hættulegur í því efni, og hann var áður seglskipaferðunum. Jeg get sagt dæmi þess, hver munur er á dirfsku og dugnaði skipa í hafísnum, en var fyr. Kringum 1884, kom jeg á „Lauru“ norðan af Sauðárkrók og ætlaði til Ísafjarðar. Skipstjórinn var Christjansen, duglegur maður, eins og menn vita. Þegar kom vestur fyrir miðjan Húnaflóa, sáust nokkrar ísspengur fyrir stafni, og áræddi skipstjóri þá ekki að halda áfram, heldur sneri við og hjelt kringum land. Daginn eftir fóru 2 norsk skip í gegnum þann ís, er „Laura“ hörfaði frá. Árlega fara gufuskip nú gegnum stórar hafísspildur. Hafíshættan fyrir siglingar að landinu er því áreiðanlega miklu minni nú, en hún hefur verið áður, og minkar ár frá ári eftir því, sem öllum útbúnaði gufuskipanna fer fram. Mjer dettur samt ekki í hug að neita. að það geti komið fyrir, að ís geti tept skipagang til landsins, en það má ekki gera of mikið úr henni. Samgöngur eru nú stórkostlega bættar frá því sem var. Hættan stafar miklu meir frá öðru en náttúrunni, og það er fyrirhyggjuleysi landamanna sjálfra. En á henni verður ekki ráðin veruleg bót með lagasetningu, eða jeg hef, að minsta kosti, litla trú á, að það takist.

Jeg hef ekki gert neinar brtill. við frv. Jeg hef satt að segja ekki treyst mjer til þess. Málið er svo umfangsmikið, og hinsvegar ekki þannig undirbúið, að jeg hafi treyst mjer til að leggja út í slíkt. Samt tel jeg ýms ákvæði frv. mjög varhugaverð, og það undireins í 1. gr., þar sem sagt er, að sjóðurinn skuli vera til hjálpar í hallæri, er hlýzt af hafís eða eldgosum eða öðrum stórfeldum orsökum. En það eru til fleiri stórfeldar harðærisorsakir en hafís og eldgos, t. d. landskjálftar. Svo kemur það og fyrir í stórum sjávarhjeruðum, að fiskafli bregst, af því að fiskur gengur ekki inn á grunnmið um langan tíma. Af þessu getur orsakazt harðæri eða bjargarskortur á stærri og minni svæðum landsins. Heyrir það þá undir stórfeldar orsakir? Víst er um það, að mönnum eru fiskigöngur eins óviðráðanlegar og eldgos, hafís og landskjálftar.

Þá er gjaldið. Það hefur verið allmikið talað um það við fyrri umr. Jeg kann illa við, að einum nefskattinum sje enn bætt við; þeir eru mjög óvinsælir og koma illa niður. Þó verð jeg að taka undir með hv. frsm., að hjer er um litla upphæð að ræða á móts við það, sem er í húfi. En mjer finst þetta gjald samt mjög ísjárvert. Það yrði mjög óvinsælt. Það, sem t. d. gerir sóknargjöldin svo óvinsæl, er það, að þau eru tekin jafnt af fátækum, voluðum, vönuðum, höltum og blindum, eins og af efnamönnum og þeim, sem alheilir eru. Hjer á að gera sama. Þá eru þó betri ákvæði ellistyrktarsjóðslaganna, þó þar sje líka um nefskatt að ræða. Hjer eru engir undanþegnir, þeir sem eru orðnir 20 ára að aldri. Jeg hefði kunnað betur við, að aldurstakmark þessa frumvarps hefði verið lægra að neðan, t. d. 18 ár, en verið eitthvað aldurstakmarkað að ofan, og eins að undanþegnir því væru þeir, sem þiggja af sveit.

Annars er mikil eyða í þetta frv. Það stendur ekkert um, hvað gera skuli við sjóðinn, annað en ávaxta hann í Landsbankanum. Jeg heyri sagt, að hv. nefnd hafi frv. í smiðum um þetta, er ráði bætur á gloppunum í þessu frv. (Stgr. J.) Það er í neðri deild). Nei, það er nefndin hjer. Jeg hefði kunnað betur við, að það frumvarp hefði komið á undan þessu frv.

Jeg hef trú á því, að með bættu eftirliti með heyásetningu og meðferð manna á búpeningi megi gera mikið til að koma í veg fyrir skepnufelli og þar af leiðandi harðæri, og hvað sem sagt er um horfellislögin, þá hafa þau áreiðanlega gert mikið gagn í þessu efni, og hefði þó mátt vera miklu meira, ef þeim hefði verið vel framfylgt.

Mjer þykir, hallærisumdæmin samkv. frv. of stór. í sömu sýslunni getur verið mismunandi hallærishætta fyrir hina einstöku hreppa, og er meiri hvöt fyrir þá hreppa, sem hættan mest vofir yfir, að sjá sjer fyrir hallærisvörnum, heldur en fyrir hina. Ef umdæmin væru minni, yrði þar að auki öll framkvæmd þessa máls auðveldari og vafningaminni. — Jeg mun nú ljúka máli mínu, og vona jeg, að enginn skilji framkomu mína á þá leið, að jeg vilji frv. illa, því að svo er ekki. En hitt er satt, að jeg álít málið ekki tímabært nú sem stendur. Slíkt nýmæli sem þetta ætti stjórnarráðið að undirbúa og afla allra nauðsynlegra upplýsinga, áður en það er lagt fyrir þingið. Það skal vel vanda, sem lengi á að standa, og hjer er um eitt hið þýðingarmesta málefni þjóðarinnar að ræða.