09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

93. mál, hallærisvarnir

Steingrímur Jónsson:

Jeg gat þess við 2., umr., að jeg mundi gera nánari grein fyrir skoðun minni á þessu máli við 3. umr. — Jeg get nú verið stuttorður, því að hv. þm. Ísaf. hefur tekið margt af því fram, sem jeg vildi sagt hafa. Þó kemur okkur ekki saman í öllum atriðum. Hv. 6. kgk. sagði við 1. umr., að það væri saga þjóðarinnar, sem hefði knúð sig til þess að hreyfa þessu máli. Líf þessarar þjóðar hefði altaf gengið upp og ofan, góðæri og hallæri og drepsóttir hefðu jafnan skifzt á. Við annað tækifæri líkti hann íslenzku þjóðinni við Sisyfus. — Það er nú rjett, að hjer hefur oltið á ýmsu, hagur þjóðarinnar hefur oft eins og stungizt á endum. Mestu hefur loftslagið og tíðarfarið valdið um það. Það tjáir ekki að treysta á veðrið á voru landi, hjer verður aldrei gengið að neinu vísu, hjer er ekkert víst nema umhleypingarnir. Auðvitað hefur þetta haft hin mestu áhrif á þjóðina og að mörgu leyti mótað skapferli hennar — en þessu verður ekki breytt; við þetta verðum við að búa. Hin óblíða náttúra landsins hefur knúð fram alt hið bezta í þjóðinni, en líka margt, sem er miður gott. Af þessu miður góða vil jeg aðeins minna á eitt: hvað við erum lausir á kostunum, látum okkur lítið ant um landið og hlaupum burt í aðra heimsálfu, ef svo bíður við að horfa. En þó er rangt að segja, að vinna þjóðarinnar á móti harðindum og hallærum hafi ekki verið annað en Sisyfusarstrit. Þjóðin hefur að vísu lengi verið að stritast við mikið og þungt bjarg, en það er ekki rjett, að hún hafi ekkert komizt áleiðis, fremur en Sisyfus. Mjer stöndumst nú miklu betur harðæri, en fyr hefur verið: Á harðindaárunum 1881–1887 rýrnaði' að vísu efnahagur manna viðast um land en fólkinu fækkaði þó ekki til mikilla muna, og þar auki sendum vjer 6–7 þús. manns til Ameríku.

Mjer virðist, að menn verði að gera. sjer grein fyrir, að til er tvenskonar hallæri. Önnur tegund hallæranna stafar af þeim orsökum, sem koma eins og þjófur á nóttu, t. d. hafís, eldgos, landskjálftar o. s. frv. Það er miklu hægara að reisa rönd við afleiðingum slikra hallæra, heldur en hinna, sem stafa af langvinnum harðindum, eins og t. d. 1881–1887, eða þegar afli bregst mörg ár í sjávarsveitum. Það er erfitt að hjálpa mönnum til að standast, þegar árferði versnar og efnahag þeirra hnignar ár frá ári. Þá getur ekkert hjálpað nema kraftur einstaklingsins. Hallærisvarnirnar ættu því aðallega að miða að því, að hjálpa mönnum til að hjálpa sjálfum sjer.

Hv. 6. kgk. talaði um hinn versta förunaut harðæranna: manndauðann. Jeg vil í því sambandi leyfa mjer að benda á alt það stóra verk, sem hjer á landi hefur verið unnið til þess að vinna bug á drepsóttum og kippa heilbrigðismálefnum þjóðarinnar í betra horf. Læknaskipun landsins hefur tekið stórskostlegum breytingum Í frá því í upphafi 19. aldar, og þó ekki sje farið lengra aftur í tímann en til 1880. Læknunum hefur orðið mjög mikið ágengt í því, að auka og glæða áhuga almennings á þrifnaði og að kenna mönnum að haga lífernisháttum sínum betur eftir kröfum heilsufræðinnar, en áður hefur verið. Hjer er því einmitt eitt af þeim verkum, sem þjóðin hefur unnið á móti hallærishættunni.

Þá má minnast á hinar stórbættu samgöngur vorar, sem ekki síður vinna í sömu átt. Í því efni getum vjer gert mikið enn þá. Það er hægt að útvega skip, sem komast í kringum landið, þótt ís liggi hjer alt árið. Slík skip eru til og eru víða notuð. Þau kosta auðvitað mikið, en samt sem áður væri gerlegt að útvega þau.

Enn má minnast á eina allra beztu hallærisvörnina, en það er aukin menning í búnaði, sem gerir bændur að forsjálli og betri búmönnum. Í því efni hefur þegar verið gert mikið, og mikið hefur áunnizt, svo að jeg efast ekki um, að það muni sjást bezt í næstu harðindum, hvað framfarirnar eru miklar. Þýðingarmesta atriðið er hjer öll meðferð búpenings. Þegar hverjum bónda á landinu hefur verið innrætt sú óhagganlega sannfæring, að það sje ekki eingöngu hyggilegast heldur einnig siðferðisleg skylda, að fara vel með skepnurnar, þá er fundin bezta vörnin móti horfellinum.

Þetta er í mínum augum aðalatriði málsins. Jeg álít, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, miði í rjetta átt, og því hef jeg greitt því atkvæði mitt, þó að jeg sje ekki allskostar ánægður með það.

En bráðasta nauðsynin virðist mjer þó það, að landssjóður takist á hendur að ábyrgjast, að jafnan sjeu nægar kornbirgðir fyrir hendi hjer á landi. Það varðar þó mestu, að bæði menn og skepnur hafi mat, og ef nóg er hjer af rúgi, þá mun alt komast af. Þetta mundi að vísu kosta mikla peninga, en kleyft ætti það þó að vera. Og ef landssjóður tæki að sjer einkasölu á rúgi og rúgmjöli, og skuldbindi sig til að hafa jafnan nægar birgðir af þeirri vöru á öllum höfnum landsins,

þá mundi. öllu vera borgið. Ef þetta væri gert, þá er jeg ekki viss um, að neinn hallærissjóð þyrfti, en jeg greiði atkvæði með frv. í því trausti, að málið komist á einn eða annan veg í þessa stefnu.