16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (189)

14. mál, vitagjald

Björn Kristjánsson:

Eg álít br.t. nefndarinnar vera frumv. til bóta, en vil þó ekki ganga svo langt, að afnema með öllu vitagjald af skemtiferðaskipum. Eg vil gera greinarmun á „skemtiferðaskipum“ og “skemtiskipum„. Flutningaskipum, sem höfð eru í förum í ágóðaskyni, má skifta í þrjá flokka aðallega: 1. Skip, sem flytja vörur eingöngu. 2. Skip, sem flytja vörur og farþega. 3. Skip, sem flytja farþega eingöngu. Fjórði flokkurinn er svo það sem eg kalla skemtiskip, þ. e. a. s. skip, sem eru eign einstakra manna og einstakra manna og einungis eru notuð til skemtiferða fyrir þá sjálfa. Eg skoða þessi tvö þýzku skip, sem hér voru nýlega, ekki sem skemtiskip. Þau eru gerð út af félögum að eina í hagnaðar-skyni. Munurinn á slíkum skipum og öðrum mannflutningaskipum er að eins sá, að lestin er tóm. Þess vegna finst mér ekki ástæða til að undanskilja þessi skip öllu vitagjaldi, heldur ættum við, ef við vildum vera kurteisir við útgerðafélögin, að færa gjaldið niður, t. d. um helming. Eg er alveg viss um, að félög, sem hafa byrjað ferðir hingað til landa, mundu verða harðánægð með þá tilslökun.

Eg vildi leyfa mér að skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vildi ekki taka upp þessi orð aftan við orðið „skemtiferðaskip“ í 2. málsgr.: „sem ekki taka borgun fyrir farþega“, en bæta aftan við málagreinina: „Skemtiferðaskip, sem taka borgun fyrir farþega, greiði hálft vítagjald“. Mér finst, að þetta ætti að geta orðið að samkomulagi, en lengra finst mér að deildin geti ekki farið. Eg tel enga hættu á því, að þetta verði til þess að skipin hætti að koma hingað. Þau hafa komið undanfarin ár þrátt fyrir ið háa vitagjald. Og það eru ekki útgerðarmennirnir, sem ráða því, hvert skipin fara, heldur eru það farþegarnir.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en Vænti að þessar athugasemdir mínar verði teknar til greina.