09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

93. mál, hallærisvarnir

Guðmundur Björnsson, framsögnmaður:

Jeg get í raun og veru verið þakklátur fyrir þær viðtökur, sem þetta frv. hefur fengið hjá háttv. deild. Næstum því allir hafa viðurkent, að hjer væri um mikið nauðsynjamál að ræða, og það er í mínum augum aðalatriðið. Jeg get því verið stuttorður, en verð þó að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið í umræðunum. Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) lagði mikla áherzlu á, hvað þetta væri mikið vandamál, og ætti því ekki að ráða því til lykta, án þess að leitað hefði verið álits manna víðsvegar um land. Þetta er nú að vísu rjett, en jeg vil þó leyfa mjer að benda á, að fult eins stór mál hafa verið borin upp hjer á þingi og ráðið til lykta að þjóðinni fornspurðri. T. d. voru lögin um sóknargjöld ekki lögð undir atkvæði almennings. Sama er að segja um vörutollinn, og er þó hvorugt þessara mála smámál. Ennfremur vil jeg benda á, að það mál, sem hjer liggur fyrir, er í raun og veru ekkert nýmæli, heldur hefur það um langan aldur verið á dagskrá þjóðarinnar. Hjer hafa verið samþykt þrenn horfellislög á alþingi og mikið hefur verið rætt og ritað um kornforðabúr. Þetta frv. er ekkert annað en stórt stig í sömu átt. Hinsvegar vil jeg alls ekki segja, að málið hefði ekki: átt að fá betri undirbúning, en það hefur fengið.

Samgönguteppan er ekki eina stóra hættan, sem stafar af ísnum, þó hún hafi oft gert mikið mein og geti enn gert mein í náinni framtíð, því að þó samgöngurnar sjeu, eins jeg hef áður tekið fram, miklu betri, en þær voru áður, þá þyrftu þær þó að vera enn betri en þær eru nú, til þess að allri hættu væri afstýrt. Nei, það er ekki rjett, að samgönguteppan sje höfuðhættan; það er önnur stærri hætta, sem stafar af ísnum, og hún er sú, að hann breytir gersamlega loftslaginu, svo að jarðargróðinn verður margfalt minni en vant er, vegna þess hve sumrin verða stutt og köld, og vetrarhættan margfaltmeiri, af því að vetrarnir verða miklu lengri og strangari; allur afrakstur landsins verður þessvegna stórum minni en ella. Það er öldungis ekki rjett, sem einum hv. þingdm. sagði, að stóru svæði af landinu, það er að segja öllu Suðurlandi, væri engin hætta búin af hafísnum. Hvernig geta menn farið að tala svona, þegar þeir vita, að margir eru enn á lífi, sem muna, hvílíkan hnekki síðustu hafísár gerðu öllu Suðurlandi, vegna þess, að veðráttan var miklu verri en ella. Nei, þegar hafísinn kemur í almætti sínu, stafar sannarlega af honum hætta fyrir alt. landið, því að veðráttan spillist alstaðar, og búskaparerfiðleikarnir aukast, jafnt hjer á Suðurlandi, sem annarsstaðar á landinu. Hin vonda veðrátta, sem fylgir hafísnum, gengur jafnt yfir alt landið. Þetta er sú mikla hætta. sem stafar af hafísnum, og altaf fylgir honum jafnt fyrir það, þó að. við ættum hundruð skipa og hefðum síma heim á hvern bæ á landinu. — Einn háttv. þm. sagði, að til væru skip, sem gengju í gegnum ís. Þetta er alveg rjett. Jeg hef sjálfur sjeð þessi skip, þau heita ísbrjótar. En jeg hef aldrei sjeð skip, sem ganga í gegnum samfeldan hafís, og jeg veit líka, að þau eru ekki til.

Það er rjett, sem sagt hefur verið, að síminn er mikils virði til þess að afstýra hallærishættunni, en ef skip komast ekki inn á hafnirnar, þá fæst þó kornið ekki með símanum, og ekki sprettur grasið betur, þótt siminn sje kominn, nje heldur verða veturnir skemri fyrir þá sök. (S. E.) Veg grasið betur, ef sjóðurinn verður stofnaður?), Nei, sjóðurinn er ekki til þess, heldur til þess að hjálpa, ef grasvöxtur bregst (Sig. Eggerz: Það gerir síminn líka). Jú, jú, en ætli hungraðir aumingjar seðjist mikið á því, þó að sultarhljóðið heyrist í símanum. Háttv. þm. Ísaf. (S. St.) sagði, að eitt af okkar miklu meinum væri fyrirhyggjuleysið, þetta gamla þjóðarmein, sem allir vildu bæta, ef þær gætu, og háttv. þm. hefur sjálfur oft sýnt, bæði í orði og verki, að hann vill bæta þetta eins og mörg önnur mein, sem að þjóðinni ganga; en hann sagði, að það mundi ekki stoða, að setja lög til að bæta meinið. Getur ve1 verið, að margar tilraunir til þess að setja lög nm slíkt efni hafi mishepnazt. En þótt það mishepnist einu sinni, tvisvar, þrisvar, þá verður að halda áfram, kynslóð eftir kynslóð, þangað til meinið er bætt. Þessi háttv. þm. hefur sjálfur unnið að því að setja slík lög, nefnilega horfellislögin. Hann sagði ennfremur um 1. gr., að til væru fleiri stórfeldar orsakir til hallæris en hafís og eldgos. Já, einmitt rjett, og þessvegna stendur líka í greininni, að sjóðurinn eigi að vera til hjálpar í hallæri, sem stafar af hafís, eldgosum og öðrum stórfeldum orsökum. Það má deila um það, hvaða orsakir sjeu stórfeldar, og jeg er samdóma háttv. þm. Ísaf. (S. St.) um það, að langvint aflaleysi, sem veldur atvinnutjóni og þar af leiðandi hallæri, sje stórfeld orsök. Já, svo er verið að berja því við, að sá hængur sje á þessu máli, að það hafi í för með sjer aukna skatta, en þjóðin geti með engu móti þolað meiri skatta, og þegar þingmenn eru andstæðir einhverju nýju máli, sem hefur í för með sjer aukin útgjöld, þá segja þeir ávalt þetta sama það hljómar svo vel í eyrum; en þrátt fyrir þetta líður varla svo nokkurt þing, að eigi sjeu lagðir nýir skattar á þjóðina. Og þegar nú um það er að ræða, að leggja á nýjar álögur, verður að athuga, hvort þær eru nytsamlegar, og kannske enn nauðsynlegri en aðrar, sem fyrir eru. Þann samanburð óttast jeg ekki. Menn hafa líka fundið upp ráð til þess, að komast hjá því, að leggja nýja skatta á þjóðina, og það er að taka lán; en væri ekki vert að athuga það, hvort þessi lán eru nú í rauninni ekki ólán fyrir þjóðina. Það rekur þó að því, að lánin verður að borga, og hver er það þá, sem borgar ? Er það ekki þjóðin, sem að lokum verður að borga lánin ? Þetta úrræði, að hlífa þjóðinni við sköttum með því að taka. lán, er enn íhugunarverðara en að leggja á nýja skatta.

Loks eru þeir, sem hafa það á móti þessum skatti, að hann eigi að vera nefskattur; en það sjeu þeir ranglátustu skattar, sem hægt sje að leggja á þjóðina. En hvernig stendur á því, að þeir menn, sem eru svona mikið á móti nefsköttum, koma ekki fram með tillögu um, að nema burtu þyngsta og versta nefskattinn, sem á þjóðinni hvílir, sem sje sóknargjöldin. Maður hlýtur að efast um, að þessir menn tali af einlægni. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“, og þessir menn bera ekki þá ávexti, sem við mætti búast eftir tali þeirra. Einn háttv. þm. sagði, að það nauðsynlegasta væri, að koma á eftirliti með búskap og atvinnuháttum landsmanna. Jeg er honum alveg samdóma um, að þetta er afar mikilvægt atriði, og jeg álít að það sje einhver mesti vandinn að koma eftirlitinu nógu hyggilega fyrir. En jeg vil bæta því við, að hvað gagnar eftirlitið eitt, ef engin ráð eru til þess að hjálpa. Hvað gagnar það, að vita að menn vantar að borða; þeir verða að svelta eftir sem áður, ef engin ráð eru til þess að bæta úr hungrinu. En eftirlitið er undirstaðan; fyrst er að finna meinið, og síðan er að lækna það. En meinin verða ekki læknuð með eintómu eftirliti.

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) sagði, að jeg hefði haldið því fram, að þjóðin stæði ekki betur að vigi nú, en hún gerði áður fyr, og úr annari átt heyrði jeg sagt, að jeg talaði eins og maður á 18. öld. Mjer þykir leitt, að menn hafa ekki tekið betur eftir orðum mínum, en þetta. Jeg hef oft tekið það fram, að framfarirnar sjeu miklar hjá okkur, en að þær sjeu ekki nógu miklar til þess, að við sjeum úr allri hættu. Háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði ennfremur, að meira en nokkur hallærissjóður mætti sín kraftur mannsins sjálfs til þess að vinna sigur á erfiðleikunum. En þar talaði hann ekki eins og maður á 18. öld. heldur eins og maður á 10. öld. Þá þótti sá mestur maðurinn, sem treysti sjálfum sjer, trúði á mátt sinn og megin. Þá var þetta aðalboðorðið: „Sjálfur leið þú sjálfan þig“. En síðan eru liðnar margar aldir, og menn hafa smámsaman komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta sje ekki góð regla, heldur eigi hver að hjálpa öðrum. Menn eigi að sameina kraftana til þess að vinna bug á erfiðleikunum. Og hjer er um það að ræða, að sameina kraftana í öllum mönnum í einn stóran þjóðarkraft, til þess að vinna sigur á hallærishættunni.

Einhver háttv. þm. sagði, að þjóðinni hefði ekki fækkað í seinustu hallærum. Það er rjett, að á árunum 1881–1888 fæddust fleiri en dóu, en svo margt manna fór af landi burt til Ameríku, að fólkinu fækkaði á þessum árum um 3229. Til Ameríku fóru alls um 6000 manna. Ef góðæri hefði verið, mundi þjóðinni hafa fjölgað um 5 þús. í stað þess að henni fækkaði um rúm 3 þús., svo að munurinn á þessum árum er 8 þús., sem þjóðin hefði verið fjölmennari 1888, ef hallærið hefði ekki komið.

Jeg skal játa það, að hættan á því, að menn deyi úr hungri, þegar harðindin koma, er nú minni en áður, en það er komin önnur hætta í staðinn, hættan sú, að menn flýi land, fari til Vesturheims. Það er að vísu miklu viðkunnanlegra, að vita fólk fara af landi burt, en að sjá á eftir því ofan í gröfina, en jeg get ekki betur sjéð, en tjónið sje líkt fyrir þjóðina, fyrir þjóðarbúskapinn, og þeir, sem í grófina fara, taka þó ekki fje með sjer, en það gera þeir, sem fara af landi burt. — Við verðum því að leita allra bragða til þess að koma í veg fyrir, að fólk sje svona laust við landið. Við þurfum að búa til taug, sem tengir þjóðina Við landið, heldur kjarkinum í þjóðinni, svo að hún flýi ekki landið, þótt eitthvað á bjáti. Og jeg vona, að hallærissjóðurinn geti orðið einn þátturinn í þeirri taug.

Jeg get ekki sezt niður án þess, að minnast með örfáum orðum á það, sem var mesta nýungin í ræðu háttv. 3. kgk., þar sem hann mintist á nauðsynina á því, að tryggja þjóðinni nægar matvörubirgðir á vetrum. Jeg er honum fullkomlega samdóma um þá miklu nauðsyn, sem er á þessu, en jeg ætla ekki að fara frekar út í það hjer, af því að frv. um viðauka við lögin um kornforðabúr er brátt væntanlegt frá Nd., og mun þá gefast kostur á að ræða þetta mál frekar hjer í deildinni.

Um leið og jeg lýk máli mínu, vil jeg leggja áherzlu á það, að öll deildin er sammála um, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða, en að jafnframt sje málið vandasamt og þurfi nákvæmrar íhugunar við. Það er því bezt að afgreiða málið til Nd., svo að henni gefist kostur á að athuga frv. Það gleður mig, að sjá þann áhuga, sem deildin hefur á þessu máli og jeg vil þakka ræðumönnum fyrir góðar undirtektir þeirra.