09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

93. mál, hallærisvarnir

Jón Jónatansson:

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, því það er öllum vitanlegt, að þar sem jeg er einn af nefndarmönnunum, og hef ekki gert neinn ágreining. muni jeg telja þetta gott mál.

Þó vil jeg minnast á nokkur atriði. Háttv. þm. V.-Skaft. (Sig. Egg.) hóf mál sitt með því að tala um, að það væri hallærishljóð hjer í háttv. deild. Mjer finst það vera misskilningur, að hjer sje um hallærishljóð að ræða, því hallæri tel jeg það, er gerir verðtjón, mannfelli og allskonar miklar skemdir, en hjer er að ræða um fyrirtæki til þess að tryggja atvinnu manna, svo þeir verði betur færir um að þola óvænt óhöpp. Þessi sami háttv. þm. sagði, að þetta hallærishljóð væri sjúkleiki nei, það er ekki sá sjúkleiki, er þjáir þjóð vora, það er annað, „sem er mesti sjúkleiki hennar, og það er fyrirhyggjuleysið, og jeg lít svo á sem það, að stofna þennan sjóð, sje eitt ráðið til að lækna þann þjóðarsjúkdóm.