09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

93. mál, hallærisvarnir

Háttv. þm. V:

Skaft. (Sig. Egg.) sagði enn fremur, að hann teldi frumvarp þetta vott um, að menn vantaði trú á landinu, en þetta er rangt. Þeir sem hafa fulla trú á landinu verða að gera sér grein fyrir því, af hverju trú þeirra er sprottin, og hún á að vera bygð á þekkingu á landinu, kostum þess og löstum; án þeirrar þekkingar geta menn ekki lifað eftir þessari trú sinni, og ef menn sjá, að einhversstaðar sje hætta á ferðum, þá er skylda þeirra að reyna, að finna ráð til að fyrirbyggja hana, að vera viðbúinn til að standast hana. Sje þetta gert, geta menn fremur horft djörfum augum beint framan í hættuna. Og þetta er einmitt það, sem hjer er verið að gera, hjer er verið að reyna að tryggja sig gegn hættunni.

Sami háttv. þm. (Sig. Egg.) sagði, að þetta hallæristal gæti orðið til hættu fyrir lánstraustið út á við. Jeg vil nú spyrja hann að því, hvað hann hugsi um bónda, er ver jörð sína vel fyrir hættum, Ef t. d. bóndi, sem verður þess var, að jörðinni hans er einhver hætta búin, t. d. af vatnságangi, hættu, sem öðrum hefur dulizt, og .hann tekur sig til og gerir ráðstafanir og ver fje sínu til að fyrirbyggja þessa hættu, og hann sjer, að ef hann gerir þetta, getur hann tekið miklu ókvíðnari við ókomnum tímum, mundi þá háttv. þm. fara til hans og segja: „Blessaður vertu, þetta máttu ekki gera, enginn sjer þessa hættu nema þú, en ef þú ferð að starfa í þessu, fá aðrir grun um hana, jörðin fellur í verði, og þetta spillir lánstrausti þínu“.

Jeg hygg, að háttv. þm. mundi ekki segja þetta, heldur þvert á móti, og eins og þessi forsjálni bóndans mundi efla, en ekki veikja lánstraust hans, eflir það lánstraust landsins, en veikir ekki, að þjóðin gerir ráðstafanir til að tryggja sig gegn hættunni, svo hún geti unnið en öruggari að umbótastarfi sínu, að bæta landið.

Það hefur verið sagt, að þetta væri ástæðulaust hjal; það væri nú búið að búa svo vel í garðinn, að þjóðin geti tekið hverju sem á dynur. En þótt svo væri, sem ekki er, að enn geti ekki orðið samgöngutepping af hafís, þá er það víst, að hann getur valdið hjer afskaplegu misæri. Hv. 2. kgk. þm. (d. Hav.) sagði, að hafísinn flytti okkur sól og sumar, hita og gróðursæld. Þegar hafísinn væri kominn að landi á vorin, þá þyti upp grasið og sóleyjar og fíflar klæddu túnin fögru litskrúði. Mjer skilst, að hv. 1. kgk. þm. vildi, ef unt væri, panta handa oss enn meiri hafís, til þess að fá alt þetta góðæri. En þrátt fyrir þessa skoðun þessa hv. þm., þá held jeg, að allir þeir, er hugsa um ræktun landsins og hafa fengizt við hana, sjeu sammála um það, að hafísinn og veðráttubreytingar þær, er af honum stafa, sjeu eitt hið mesta mein, og að þetta land væri eitt hið bezta á hnettinum, bara ef hafísinn væri ekki. Vjer getum ekki, því miður, með neinni ráðstöfun varnað því, að hafísinn komi að landinu, en vjer getum gert ýmislegt, sem gerir oss betur færa um að þola mikla og skyndilega óáran, er af honum stafar.

Sumum finst þessi sjóðsstofnun ekki vera rjetta ráðið, og er eðlilegt, að um það geti verið misjafnar skoðanir. En finst mönnum það vera óskynsamlegt af einstökum manni, að leggja til hliðar fje til þess að tryggja sig gegn hættum? Ef mönnum finst það ekki vera, og um það býst jeg við að allir sjeu samdóma, þá er það ekki óhyggilegt fyrir þjóðina í heild sinni. Það er jafnrjett af henni sem heild, sem einstaklingnum, að leggja eitthvað til hliðar á góðu árunum, til þess að gripa til, er slæmu árin koma. Og jeg held, að við hefðum orðið þakklátari og ánægðari, ef slíkur sjóður hefði verið stofnaður fyrir svo sem einum mannsaldri síðan. Og jeg lít svo á, að afkomendur vorir verði oss þakklátir fyrir sjóð þennan, því að þá eru þeir ekki að öllu óviðbúnir, ef hart verður í ári. Og það er skylda vor, ef við sjáum, að við getum gert eitthvað til bóta, að gera það.

Minzt hefur ennfremur verið á það í sambandi við þetta frv., að það sje óvinsælt, að leggja nýja skatta á þjóðina, og er það satt, en það skiftir miklu máli í hverju skyni það er gert. Og ef mönnum finst þetta vera frv. órjettlátt, er þá ekki eitthvað órjettlátt í núverandi sköttum til landssjóðs? Annars hygg jeg, að það, að almenningur er á móti nýjum sköttum, stafi af því, að honum finst að of mikið af því fje, er hann greiðir til landssjóðs, fari í súginn með ýmsu móti til lítillar nytsemdar, en of litlu af því sje varið til þess, að auka framleiðslur í landinu, eða efla atvinnuvegina. En hjer er það svo skýrt, að skatturinn gengur beinlínis til að vernda atvinnuvegi vora, að jeg tel víst, að almenningur verði ánægður með það. Hjer er einnig svo um búið, að gjaldendur sjálfir hafa fult ráð yfir því að þeim verði rjett varið.

Mjer þykir vænt um, að þeir, er hafa talað um mál þetta, hafa allir talið það þarft og viljað gera eitthvað, þó þá greini á við okkur suma um aðferðina, og sízt vil jeg mæla á móti því, að nauðsyn beri til að vanda alt, er að þessu máli lýtur, sem bezt. Það er einmitt svo afar nauðsynlegt.

Að lyktum vil jeg ítreka mótmæli mín gegn því að hallærishljóðið sje sjúkleiki. það er fyrirhyggjuleysið, er hefur verið það, og er stærsta mein vort, og gegn því þurfum við að tryggja oss svo vel sem unt er.

Jeg vænti þess svo, að þeir, sem vilja láta athuga málið betur og vanda það, greiði atkvæði með því áfram til neðri deildar svo að þeirri deild gefist einnig kostur á að athuga málið.