11.08.1913
Efri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Jósef Björnsson, framsögnmaður:

Áður en frv. þetta og því skyld mál fara úr deildinni, virðist mjer ástæða til að líta nánar á lög, sem afgreidd hafa verið af þinginu á siðari árum til styrktar sjerstökum stjettum eða öllum almenningi í landinu. Vil jeg því fyrst og fremst líta nánar á lögin um styrktarsjóð barnakennara og ellistyrktarsjóðslögin, af því að á þau hefur verið minst í sambandi við þetta mál, og síðan gera ofurlítinn samanburð á stefnu þessara laga og eftirlaunalaganna, sem við síðustu umræðu þessa máls var talin vera lík eða hin sama. Lögin um styrktarsjóð barnakennara eru bygð á þeim grundvelli, að á kennarastjettina, sem er lágt launuð, er lagður allhár atvinnuskattur, sem, fer hækkandi eftir hækkandi launum. Notin, sem þeir hafa af sjóðnum, eru þau, að þeir fátækustu þeirra eiga rjett á því að fá á sínum tíma styrk úr honum, en aðeins þeir fátækustu. Í 5. gr. laganna stendur: „Því aðeins getur kennari fengið styrk úr sjóðnum, að hann sje styrkþurfi“. Hinir, sem betur eru efnum búnir, og þá að líkindum allmargir þeirra,. sem rífust höfðu launin, og því hafa því hæstu skattgreiðslurnar af hendi, hafa engar líkur til að fá nokkurntíma styrk úr sjóðnum. Sjóður þessi er því einskonar fátækrastyrktarsjóður fyrir þessa stjett manna — kennarastjettina. Auðvitað er gott og eðlilegt, að gera alt til að firra menn örbirgð, sjerstaklega á efri árum, en þegar margir leggja fram fje sitt eins og hjer er gert, er eðlilegt, að sem flestir þeirra, fleiri en beinlínis eru styrkþurfar, hafi aðgang að fjenu, sem þeir hafa lagt fram. Sá skerfur, sem landssjóður leggur fram, og sem er töluverður, ætti á hinn, bóginn vel við að yrði hinum fátæku að notum. Virðist því rjettlátt, að fyrirkomulagið verði það, er tímar líða, að allir þeir kennarar, sem inna af hendi skattgjöld sín til sjóðsins, fái úr honum hlutfallslega eftir gjaldhæð og árafjölda, sem þeir hafa goldið í sjóðinn, og sje þetta sem sparifje, er þeir hafi lagt til hliðar til afnota, er aldurinn færist yfir þá. Mjer virðist jeg sjá þetta í framsýn, og líkt ætti að komast í framkvæmd á fleiri sviðum. Á þennan hátt yrði skatturinn sjereign þeirra, sem inna hann af hendi, sparifje, en eigi fátækrastyrkur, er heilsa þeirra bilar. Þetta væri svo eðlilegt, því fjeð er lagt til hliðar eftir sparsemisreglunni, að eyða eigi öllu, sem aflað er. Þó þessu sje eigi þannig fyrir komið enn sem komið er, þá má vel vera, að stefnunni verði breytt, þegar sá tími kemur, að þessi sjóður er orðinn 50,000 kr., því þá ættu vextir sjóðsins að vera nægir til að styrkja þá, sem fátækastir væru, þótt fyrirkomulagið breyttist í þá. átt, sem jeg hef bent á.

Við 2. umr. þessa máls bar ýmislegt á góma, sem jeg vil víkja að með nokkrum orðum, og því minnast á ellistyrktarsjóðina. Til þeirra gjalda allir nefskatt, sem fullorðnir eru og eigi gamalmenni eða á milli 18–60 ára, nema þeir, sem fjelausir eru og þeir sem trygt hafa sjer lífeyri frá 60 ára aldri. En samkv. 14. gr. laga nr. 17 frá 9. júlí 1909, um ellistyrk, geta þeir einir notið hans, sem eru fullra 60 ára, hafa eigi þegið sveitarstyrk um 5 síðustu árin, og eru í þriðja lagi vandaðir og reglusamir menn. Hvað er þá. þessi styrkur? Að vísu fátækrastyrkur líkt og styrkurinn til barnakennara en þó nokkuð annars eðlis. Ellistyrkurinn er almenn mannrjettindatrygging, því það er vitanlegt, að þeir, sem þegið hafa sveitarstyrk, hafa mist almenn mannrjettindi, kosningarrjett og fjárhald. En frá því að njóta styrks úr ellistyrktarsjóði eru allir undantekningarlaust útilokaðir, sem mist hafa þessi mannrjettindi á síðustu 5 árum. Það er því dálítið annað, sem hjer liggur til grundvallar, og það virðist sjálfsagt, að land8sjóður með tillagi sínu hjálpi til þess, að menn missi eigi mannrjettindi sín. Hitt væri aftur á móti jafn eðlilegt, að því er framlög kennaranna snertir, að þeir sem persónugjaldið, nefskattinn, hafa int af hendi, fái að njóta þess, sem þeir hafa sparað um langa æfi, og gætu hver og einn átt aðgang að því, þegar þörf krefði, og aldur færðist yfir þá.

Við 2. umr. þessa máls var sagt, að þeir, sem vildu styrkja þessa sjóði með fjárframlögum, væru að koma mönnum á eftirlaun, og yrðu því í mótsögn við sjálfa sig, ef þeir vildu afnema eftirlaun embættismanna í landinu. Jeg gat þess þá lítillega, að jeg gæti ekki verið þessu sammála, og vil nú reyna að sýna hjer, hver ómótmælanlegur mismunur er á þessu. Samkv. lögum frá 4. marz 1904 eiga konunglegir embættismenn rjett á eftirlaunum. Kennarar eiga undir högg að sækja og verða að vera þurfandi; alþýðumaðurinn þarf að uppfylla ýms skilyrði til að fá styrk í ellinni, hann þarf að vera þurfandi, vera orðinn sextugur að aldri og vandaður maður, en embættismaðurinn, sem fengið hefur konunglega veitingu fyrir embætti sínu, á rjett á launum án þeirra skilyrða, sem hinum eru sett. Þeir eiga að vísu ekki eftirlaunarjett í öllum tilfellum, en þau skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi, fara ofurlítið í aðra átt. Þeir þurfa t. d. eigi að vera sjerstaklega vandaðir, sbr. 6. gr. laganna, þar sem svo er ákveðið: „Þegar embættismanni er vikið frá fyrir embættismisfellur, sem ekki varða embættismissi, en veikja virðingu og traust . . . þá skal ákveða eftirlaun hans með sjerstökum lögum“. — En hvað er það, sem veikir virðingu og traust ? Sennilega það, sem ekki er sem allra vandaðast, og þá á þó að ákveða eftirlaun þeirra með sjerstökum lögum. Allir sjá festuna í þessu, sjá, hve gert er upp á milli manna.

Og hvernig er þá fyrirkomulagið að öðru leyti? Embættismaður með 3000 kr. launum á, samkv. eftirlaunalögunum frá 1904, heimtingu á að fá 1/5 launa sinna eða 600 kr. og að auki 20 kr. fyrir hvert ár, sem hann hefur gegnt embætti sínu. Hafi hann því verið 20 ár í embætti, þá á hann rjett á að fá 600 kr. + 20 X 20 eða 400 kr., og því alls 1000 kr. á ári. Annar embættismaður með 6000 kr. árslaunum, sem gegnt hefur embætti jafnlengi, fær eftir sömu reglum 1600 kr. Eftirlaunin verða því hærri, sem launin hafa verið hærri, þó sennilegt sje, að sá, sem hefur hærri launin, safni meir til elliáranna, en hinn, og sje ríkari en sá, sem fá á lægri eftirlaunin. Hjer er því farin alveg öfug leið við það, sem farið er í ellistyrktarsjóðslögunum og um styrk barnakennara, að láta þá fá hærri styrkinn, sem hærri laun hafa haft og meiru hafa úr að spila, en hina minna, sem lægra voru launaðir og ver eru staddir, ef að líkum lætur.

Þá var og höggvið niður á því við 2. umr. — til sönnunar því að hjer væri um eftirlaun að ræða, — að í frv. því, er hjer liggur fyrir, væri ekkjum og börnum ætlaður styrkur. En ef þetta er skoðað eftir orði og anda frv., þá vakir þar fyrir sama hugmyndin, sem jeg nefndi áðan, að þetta væri aðeins uppsparað fje, sem þessir erfingjar eiga sanngirniskröfu til að fá, er þeir þurfa þess með, og er með því markað spor í þá átt, þótt lítið sje, sem jeg tel eðlilegt, að stefnt verði í með framtíðinni. Ekkjur konungl. embættismanna eiga eftirlaunarjett á öðrum grundvelli en þessum. Og ef fara á út í mismuninn greinilega, þá eru styrktarsjóðirnir trygging gegn örbirgð og mannrjettindatrygging, en eftirlaunin fæ jeg ekki betur sjeð en sjeu metorðalaun eða stjettaskifta-trygging, því auðsætt er, hve þau styðja að stjettaskifting í landinu. Börn embættismanna eiga rjett á styrk til 16 ára, ef þau missa föður sinn, 20–100 kr. hvert árlega, en hálfu rífara gjald, ef þan eru bæði föður- og móðurlaus, en ekkjurnar 1/10 af launum manns síns upp að 600 kr. Uppeldisstyrkurinn er bersýnilega til þess, að gera móðurinni, eða öðrum aðstandendum barnanna hægra fyrir að koma þeim í sömu stjett og faðirinn var í. Og að eigi sje fjarri lagi að kalla þetta metorðalaun, er auðsætt af því, að með hærri launum fylgja hærri metorð og hærri eftirlaun. Landamerkjalínan er mjög svo glögg, og er því undravert, að nokkur skuli geta vilzt á henni og haldið, að sama sje beggja megin línunnar. Öðru megin línunnar, eftirlaunamegin, er aukinn rjettur með vaxandi launahæð og oft meiri auð, en hinumegin aukinn rjettur með aukinni örbirgð. Munurinn er því svo mikill, sem getur verið. Og ástæðan til þess, að þjóðin hefur krafizt , afnáms eftirlaunanna, er, að sumar stjettir hafa forrjettindi öðrum fremur, og það orsakaði stjettamismun. Sumstaðar hefur það komið skýrt í ljós á þingmálafundum í sambandi við umræður um afnám eftirlauna, að landssjóður ætti að styrkja stofnun sjóðs, er trygði, að embættismenn kæmust eigi í örbirgð, og mun því fólk alveg eins fella sig við slíkan sjóð, ef landssjóður legði nokkurt fje til, eins og ellistyrktarsjóðina. Forrjettindi eru óvinsæl og ranglát; stjettaskifting er hjer á landi ekki glögt afmörkuð að því leyti, að fjöldi manna úr lægri stjettunum kemst í þær æðri, og allóþarft verk er að draga línurnar gleggri milli stjettanna. Þjóðin óskar eftir meira jafnrjetti einstaklinganna. Jeg veit því ekki, hvað þeir menn eru að hugsa, eða fyrir hverja þeir eru að fara, sem telja það blaður, að styrktarsjóðir sjeu annað en eftirlaun, og telja það heimsku, eða sem segja, að þeir þm., sem tali um afnám eftirlauna, geri sjer minkun og sjálfa sig að athlægi.

En jeg hef nú sýnt hjer glögglega, hve ólíkt þetta tvent er, og veit jeg eigi, hví öðru er haldið fram. Jeg vil eigi segja, að slíkt sje af heimsku sprottið, en tel sorglegt, þegar menn gerast svo einsýnir, að þeir sjá ekki eins glögg landamerki og eru milli þessara styrktarsjóða og eftirlaunanna; sorglegt fremur en hlægilegt, þegar það kemur fram í sölum þingsins.