11.08.1913
Efri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

58. mál, hvalveiðamenn

Einar Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að hrekja það, sem hv. 2. kgk. þm. talaði um rangar hugmyndir. Það sem fyrir mjer vakir, er ekki það, að hvalveiðar spilli fiskiveiðum. Það er ósannað mál. En það er fleira, sem kemur hjer til greina. Það er t. d. kunnugt, að hafís hefur rekið hvali hjer á land í ísaárum, og þeir hafa þá verið mönnum einhver drjúgasta hjálpin oft og tíðum. Hættulegustu ísaárin eru venjulega þau, þegar mikinn ís rekur algerlega að landi seint á vorin, því að þá liggur hann oftast lengi fram eftir sumri og hindrar allar samgöngur á sjó. Þegar ísinn kemur svo seint, þá hafa venjulega hvalir verið farnir að halda sig upp að landinu meira en áður og verða svo fyrir ísnum, þegar hann rekur að, og hefur svo hjer og hvar hval rekið á land. Þess vegna hefur mjer ætið verið illa við, að hvölunum væri mjög eytt.

En frv. er athugavert að því leyti, að það er vafamál, hvort hvalveiðamenn geta ekki krafizt þess með fullum rjetti, að þeim sjeu greiddar skaðabætur, ef þeir eru sviftir þessari atvinnu sinni. Sumir þeirra hafa kostað hjer miklu til, keypt lóðarrjettindi o. fl. Þetta mál þarf því að athuga sem bezt og ættu auðvitað lögfræðingarnir að geta bezt sagt um það.

Jeg leyfi mjer því að stinga upp á 3 manna nefnd, að umr. lokinni.