16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Guðmundur Björnsson:

Jeg ætla að minnast á brtill. hv. nefndar um pósthússbygginguna. Í frv. stjórnarinnar er farið fram á fjárveitingu, til að byggja viðbót við pósthúsið. Hefur stjórnin látið gera áætlun um, hvað sú viðbót mundi kosta ?

Öllum mun koma saman um það, að pósthúsið sje orðið oflítið og að nauðsynlegt sje að að fá meira húsrúm. En úr því skiftast sjálfsagt skoðanir manna H. nefnd segir, að það muni vera skiftar skoðanir um, hvort rjettara sje, að byggja viðauka við pósthúsið eða pósthús á öðrum stað, svo að landssíminn einn geti fengið alt hið núverandi pósthús til afnota.

Mjer þykir það langsennilegast, að sje málið vandlega athugað, þá muni sú verða niðurstaðan, að hyggilegast sje fyrir landið, að hugsa ekki um þessa viðbótarbyggingu við pósthúsið, hún mundi hvort sem er ekki nægja nema til bráðabyrgða. Hitt mun ráðlegra, að byggja nýtt pósthús, svo stórt, að það mætti nægja fyrst um sinn, og þannig fyrirkomið, að auðvelt væri að stækka það, þegar þörf krefði.

Það hefur aðeins verið gerð heldur lausleg áætlun um, hvað viðbót við gamla pósthúsið mundi kosta, en engin áætlun um kostnað við að byggja nýtt pósthús. Eitt er víst: ætti að byggja það eftir nútíðarkröfum og við vöxt, þá mundi það verða margfalt dýrara en viðbótin. Það þarf því að athuga málið betur en gert hefur verið, og þingið koma sjer niður á, hvort það vill láta byggja nýtt hús eða ekki. Jeg kann ekki við, að stjórnin sje látin einráð um það, en vil að þingið hafi þar hönd í bagga. Jeg kann ekki við, að þingið veiti fje út í loftið til stórmannvirkja ; og því síður er við það unandi, þar sem, eins og hjer, er aðeins um byrjunarfjárveiting að ræða, sem ekki er hægt að sjá, hvern dilk muni draga eftir sjer. Mjer finst, að fast verði að halda við það, að jafnan, er þingið veitir fje til stórra fyrirtækja, þá skuli fyrir það lögð nýtileg kostnaðaráætlun.

Það sem sjerstaklega vakti umhugsun mína um þetta, var sanað mál, sem bráðum mun koma fyrir þingið. Það er önnur af byggingum landsins, sem einnig þarfnast viðbótar. Jeg á við geðveikrahælið á Kleppi. Þingmenn utan Reykjavíkur hafa eflaust orðið þess varir, hve ónógt húsrúm þar er. Stjórn hælisins hefur árlega vakið athygli á því, að byggja þyrfti í viðbót, en landstjórnin hefur hingað til ekki sjeð sjer fært að verða við þeirri ósk. Nú getur það ekki dregizt lengur. Það hafa komið áskoranir frá mörgum þingmálafundum um, að hælið væri stækkað, enda rúmar það ekki meira en helming af sjúklingum þeim, sem það þyrfti að geta veitt viðtöku; og sjúklingar, sem nauðsynlega þyrftu að komast þangað og erfitt er að geyma heima, verða að bíða árum saman eftir hælisvistinni sökum rúmleysis þar. En þótt mikil þörf sje á að stækka húsakynni á Kleppi líklega enn meiri en á að stækka pósthúsið — þá hefur mjer þó ekki komið til hugar að bera fram tillögu um, að veitt væri einhver upphæð út í loftið til þessa. En tillögu mun jeg bera fram um það, að þingið veiti dálítið fje til þess að undirbúa málið undir næsta þing, svo að það geti legið ljóst og skýrt fyrir því; þá fyrst er tími til kominn að biðja um fje til byggingarinnar sjálfrar.

Eins og málið um pósthússbygginguna liggur nú fyrir, get jeg ekki greitt atkv. með því ; það væri ekki gætileg aðferð.

Jeg veit, að það þarf að bæta pósthúsið; en því fylgja svo mikil gjöld fyrir landssjóð, að það má ekki ana út í það rannsóknarlaust. Jeg fæ ekki skilið, að fjárveiting þessi megi ekki bíða reglulegra fjárlaga eða öllu heldur næsta þings. Þar sem málinu er enn eigi komið svo langt, að ákvörðun hafi verið tekin um, hvort heldur skuli bygt nýtt hús eða viðbót við gamla húsið, þá er ekki líklegt, að byrjað verði á byggingunni á þessu hausti. Yrði málinu frestað nú, ætti að geta legið fyrir næsta þingi áætlun um, hvað nýtt og gott pósthús mundi kosta. í Reykjavik, og þá getur þingið skorið úr, hvort það sjer sjer fært, að leggja fram fje til að byggja það eða ekki.

Jeg tek það enn fram: megi ekki biða að bæta pósthúsið, þá má ekki heldur bíða með að auka húsakynnin á Kleppi, því að hver sanngjarn maður hlýtur að játa, að þótt mikil nauðsyn sje á að stækka pósthúsið, þá er enn meira knýjandi þörf að auka húsrúm í geðveikrahælinu.