16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Hákon Kristoffersson:

Jeg get verið sammála háttv. 6. kgk. (G. B.) fyrir ummæli hans um geðveikrahælið, og vona, að ekki líði á löngu, þangað til það verður stækkað; þess er mikil þörf. Mjer er það kunnugt, að það stafa vandræði af því, að margir sjúklingar verða að biða árum saman heima í sveit og komast ekki á hælið vegna rúmleysis þar. En það hygg jeg, að ekki sje þörf á að vera að veita fje til undirbúnings byggingunni; jeg sje ekki betur, en að húsabyggingarmeistari Rögnvaldur Ólafsson, sem er launaður af landsfje, ætti að geta unnið að þeim undirbúningi. Háttv. framsm. (Stgr. J.) gat þess, sem mjer þótti vænt um að heyra, að hann teldi það varhugavert, að stjórnin veitti nokkurt fje á fjáraukalögunum, sem þingið hefði ekki veitt heimild til. Jeg er þar sömu skoðunar, og vil ekki að það komi fyrir, nema bráð og brýn nauðsyn kalli að.

Þar sem háttv. framsm. (Stgr. J.) taldi það nauðsynlegt, að veita fje til pósthúsbyggingar á fjáraukalögum, svo að byrjað yrði á verkinu í haust, þá er jeg þar á annari skoðun. Jeg verð þar fremur að hallast að skoðun háttv. 6. kgk. (G. B.), að málið sje ekki nóg undirbúið, á meðan ekki er svo mikið sem búið að ákveða um, hvort reisa skuli nýtt hús eða byggja viðbót við gamla pósthúsið. Auk þess er það óheppilegt, að byrja á bygginginni að hausti til, eða það hlýtur að haga sjerstaklega til með veðurátt hjer í Reykjavík, ef það er ekki dýrara að byrja á byggingu að haustinu, en að vorinu. Hv. 6. kgk. þm. (G. B.) sagði, að stjórninni væri ekki trúandi fyrir því, að ráða til lykta um pósthúsbygginguna. Háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) hefur þar víst gleymt því, hvað trúa þjóna við eigum fyrir þjóðfjelagið ! Þá ætla jeg að minnast á brtill. mína á þgskj. 444 um styrkinn handa Valgerði Jónsdóttur, sem mun vera ekkja Jóns frá Múla. Jeg hef leyft mjer að leggja til, að sá liður sje feldur burtu.

Jeg sje ekki ástæðu til að veita þennan styrk. Jeg mæli að vísu ekki á móti því, að vel fari á, að stjórnin sje góðgjörn, og að hún veitti sem oftast styrk bágstöddum, ef fjárhagurinn leyfði það, en nú gerir hann það ekki, og þá verður að sníða stakk eftir vexti. Eftir upplýsingum, sem jeg hef fengið, mun þessi ekkja þar að auki standa betur að vígi, en fjölda margar aðrar ekkjur. Hún á uppkomin börn, sem hafa bæði siðferðisskyldu og lagaskyldu að sjá fyrir henni, og auk þess hef jeg heyrt, að hún fengi styrk úr annari átt, sem henni muni nægja. Jeg kem ekki með brtill. af neinni meinbægni við þessa persónu, heldur af því að jeg álit, að hún þurfi ekki á styrknum að halda.

Jeg er þakklátur háttv. nefnd fyrir það, hvað hún hefur tekið vel í að styrkja drenginn. Jeg vona, að hún sjái, að brtill. mín er sanngjörn, og óska, að nafnakall sje viðhaft, þegar hún verður borin undir atkvæði.